Morgunblaðið - 09.09.2005, Blaðsíða 34
34 FÖSTUDAGUR 9. SEPTEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Sigríður JónínaPálmadóttir
fæddist í Gnúpufelli
í Eyjafirði 1. októ-
ber 1919. Hún lést á
Akureyri 2. septem-
ber síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru hjónin Auður
Þorsteinsdóttir
(1892–1944) og
Pálmi Jónas Þórðar-
son (1886–1956).
Bræður hennar
voru Daníel (hálf-
bróðir) (1912–1999),
Þórður (1920–1979), Þorsteinn
(1924–1992) og Birgir (1927–
1973).
Árið 1940 giftist
Sigríður Steingrími
Níelssyni (1912–
2002) frá Æsustöð-
um í Eyjafirði. Synir
þeirra eru Auðunn
Smári (1945), hans
kona er Hrefna
Guðjónsdóttir og
eiga þau þrjú börn;
Bragi (1947) og
Baldur (1949), hans
kona er Jóhanna
Hafdís Friðbjörns-
dóttir og eiga þau
þrjú börn.
Útför Sigríðar verður gerð frá
Akureyrarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Sigga á Æsustöðum var hálf-
systir föður míns og eina systir
hans. Pálmi afi eignaðist Daníel
föður minn fyrir hjónaband með
Önnu Rósu Einarsdóttur Thorla-
cius. Síðar giftist hann Auði Þor-
steinsdóttur frá Ytra-Dalsgerði í
Djúpadal og eignaðist með henni
Sigríði, Þórð, Þorstein og Birgi.
Öll eru systkinin nú látin. Þau ól-
ust upp í Gnúpufelli, fyrst í torf-
bænum en síðar í gamla steinhús-
inu með burstunum tveimur sem
enn stendur og byggt var árið
1930. Alla tíð síðan ég man eftir
mér hef ég haft þá áráttu að sitja
hljóð í þessu gamla húsi og reyna
að fara aftur í tímann og sjá fyrir
mér mannlífið sem í því hrærðist,
þegar á annan tug manna bjó þar
saman allt þar til það brann árið
1956. Þau Gnúpufellssystkinin
voru öll sett til mennta. Faðir
minn nam tvo vetur á Eiðum,
Sigga nam við Kvennaskólann á
Laugalandi, Þórður (Doddi) var
húsasmiður, Þorsteinn var járn-
smiður en Birgir átti ekki kost á
skólagöngu sökum fötlunar. Um
tvítugsaldur fóru systkinin að tín-
ast burtu eins og gengur, pabbi
varð bóndi heima og Birgir var
líka heima framan af. Þórður og
Þorsteinn fluttu til Akureyrar og
Sigga varð húsfreyja á Æsustöðum
sem eru aðeins sunnar(framar) í
sveitinni. Sem barn kom ég oft í
Æsustaði með föður mínum. Hann
fór til að heimsækja Birgi sem bjó
á Æsustöðum eftir brunann í
Gnúpufelli og líka til að hitta Siggu
og Steingrím og líta á búskapinn
hjá þeim. Þau bjuggu myndarbúi
með stórt kúa- og fjárbú. Margar
nýjungar voru þar í gangi, þau
voru til dæmis fyrstu bændurnir í
hreppnum sem reyndu fyrir sér
með svínarækt. Eins man ég eftir
mörgum ferðum sem farnar voru
til að skoða nýjustu tækni, t.d.
rörmjaltakerfið í fjósinu og sláttu-
tætara, rautt apparat sem notað
var við slátt á votheyi og bræð-
urnir dógu á eftir sér á flottu bláu
Fordsonunum. Sigga var gríðar-
lega myndarleg húsmóðir og ham-
hleypa til verka. Hún tók mikinn
þátt í starfi kvenfélagsins í sveit-
inni, kenndi á saumanámskeiðum,
saumaði leiktjöld og gluggatjöld
fyrir félagsheimilið og stóð í stór-
bakstri fyrir veislur og basara svo
fátt eitt sé nefnt. Einnig kenndi
hún um tíma handavinnu við
barnaskólann og á ég enn nokkra
forláta gripi sem ég vann í skól-
anum hjá henni. Heima var hún
með aðstöðu í litlu herbergi inn af
eldhúsinu hjá sér og saumaði þar
allt til heimilisins og líklega fyrir
sveitungana líka. Man ég vel eftir
reiðbuxum sem hún saumaði á mig
þegar ég var svona tíu ára. Þær
voru mikið rarítet, með fílseyrum á
mjöðmunum eins og alvöru reið-
buxur voru í þá daga og reimum,
utanfótar neðantil. Eldamennskan
vafðist ekki fyrir henni og sér-
staklega er mér minnisstæð lifr-
arkæfan sem hún bjó til. Aldrei
síðar hef ég komist í tæri við aðra
eins lifrarkæfu. Á Æsustöðum var
stunduð talsverð nýyrðasmíð og
hygg ég að frænka mín hafi átt
þau mörg, að minnsta kosti virðist
þetta loða við sum okkar yngri
Gnúpufellssystkini en við eigum
það til að búa til orð sem okkur
þykja fyndin. Af nýyrðum frá
Æsustöðum má nefna að gráhvíta
Landroverbifreið föður míns gekk
undir nafninu Kálfsrófan. Þá man
ég eftir bifreið á öðrum bæ sem
gekk undir nafninu Dísilskjóni svo
ekki sé minnst á hinn forkunn-
arfagra glófexta stóðhest sem til
var á Æsustöðum og bar hið
skringilega hestsnafn Baukur. Oft
höfum við systkinin hlegið að
skondnum nafngiftum, upprunnum
frá Æsustöðum. Sigga var mikil
hestakona og víst er að hennar
hafa beðið viljugir gæðingar hand-
an móðunnar þegar hún var laus
við handónýtan skrokkinn. Söng-
kona var hún mikil og góð og söng
lengi með kórum sveitarinnar. Þau
Steingrímur hættu búskap árið
1971 er Smári, Hrefna og Bragi
tóku við jörðinni. Fluttu þau að
Höfðahlíð 17 á Akureyri og bjuggu
þar uns ellin setti þeim skorður.
Eftir flutninginn í bæinn vann
Sigga við matseld á Hótel KEA og
á elliheimilinu í Skjaldarvík. Þeim
þótti undurvænt hvoru um annað,
pabba og Siggu, og héldu alla tíð
góðu sambandi þrátt fyrir að á
köflum hafi lífsstíll þeirra verið
ólíkur. Mannlífið í sveitinni heima
er ekki orðið nema svipur hjá sjón
frá því sem var fyrir nokkrum ára-
tugum. Við sem vorum börn að því
er okkur fannst í gær erum orðin
miðaldra og fullorðna fólkið á bæj-
unum í kring er óðum að hverfa
inn í móðuna. Enginn fær stöðvað
tímans þunga nið.
Við systkinin öll og móðir okkar
minnumst Siggu með hlýju og
þakklæti og sendum kærar kveðj-
ur til afkomenda hennar. Blessuð
sé minning Sigríðar frænku okkar
og þeirra gömlu Gnúpufellssystk-
ina allra.
Svanhildur Daníelsdóttir
frá Gnúpufelli.
Kveðjustundir í lífinu eru marg-
ar og fólki af þessari kynslóð
fækkar óðum. Nú er góð vinkona
til meira en 20 ára kvödd hinstu
kveðju. Við kynntumst á vinnustað
þar sem við unnum saman. Þar
myndaðist góður vinskapur á milli
okkar fjögurra kvenna, þar voru
tvær Soffíur og tvær Sigríðar. Átt-
um við margar góðar stundir sam-
an. Höfðum við það fyrir sið um
nokkurn tíma að borða saman hver
hjá annarri einu sinni í mánuði og
var það alltaf skemmtilegt og mik-
ið hlegið.
Sigga var orðheppin og gat verið
hrókur alls fagnaðar á góðum
stundum. En tíminn líður og nú
eru báðar Sigríðarnar horfnar, en
Soffíurnar tvær eftir.
Sigríður var höfðingi í sér. Þau
hjón, hún og Steingrímur, höfðu
búið myndarbúi á Æsustöðum í
Eyjafirði, og var það alltaf ríkt í
henni að eiga nóg af öllu til að
veita bæði í mat og drykk. Hún
var góð heim að sækja, alltaf tekið
vel á móti manni, án nokkurs ves-
ens, sem var svo þægilegt. Ég var
flutt í nágrenni við hana og hugs-
aði til þess með tilhlökkun, að nú
væri svo auðvelt að skreppa á
milli.
En það stóð ekki lengi. Fyrir
nokkrum mánuðum þurfti hún að
yfirgefa heimili sitt og fara á dval-
arheimili. Heilsan og þrótturinn
fóru hraðfara dvínandi, svo það var
orðið augljóst hvert stefndi og
dagarnir á sjúkrahúsi urðu ekki
margir áður en hún fékk hvíldina,
sem hefur sennilega verið henni
kærkomin.
Nú kveðjum við þig, vinkonurn-
ar tvær. Við þökkum þér sam-
fylgdina og sendum sonum þínum
og fjölskyldum þeirra samúðar-
kveðjur.
Vertu guði falin, kæra vinkona.
Soffíurnar.
SIGRÍÐUR
PÁLMADÓTTIR
✝ Ásta Jónsdóttirfæddist á Akur-
eyri 24. nóvember
1926. Hún lést á
Hvalsá í Hrútafirði
21. júlí síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Jón Stefánsson
Vopni, verkamaður,
f. 28.11. 1884, d.
18.12. 1984, og Anna
Jónsdóttir, húsmóð-
ir, f. 6.3. 1893, d.
5.12. 1970. Systur
Ástu eru Elsa, f.
16.6. 1916, d. 2.8. 1953, Unnur, f.
27.10. 1918 og Marta, f. 20.1. 1920.
Hálfsystir Ástu, samfeðra, var Ólöf
Kristín, f. 4.9. 1904, d. 3.9. 1998.
Ásta giftist 13. júlí 1950 Grími
Jónssyni járnsmíðameistara, f. 24.
júní 1926. Foreldrar hans voru Jón
Sigurðsson, verkstjóri, f. 10.6.
1895, d. 15.10. 1983, og Borghildur
Sigurðardóttir hús-
móðir, f. 21.10. 1894,
d. 15.1. 1940. Sonur
Ástu og Gríms er
Gunnar, f. 27.7.
1963, maki Gígja
Hrund Birgisdóttir,
f. 12.12. 1972. Sonur
Gunnars og Mar-
grétar Sigríðar Ey-
mundardóttur, f.
19.5. 1971, er Hugi
Þeyr, f. 6.10. 1992.
Sonur Gunnars og
Gígju er Ásgrímur, f.
3.10. 2001.
Ásta vann ung í apóteki, síðar á
ljósmyndastofu og lauk einnig de-
fektrísunámi. Hún stundaði nám í
húsmæðraskóla í Svíþjóð og stofn-
aði Mæðrabúðina sem hún rak til
margra ára.
Ásta var jarðsungin frá Foss-
vogskirkju 28. júlí.
Sumardag
einn síðdegis
kallaðir þú á okkur
og sagðir að þú
hefðir séð engil.
Sólin skein gegnum
gluggana,
og þú varst svo geislandi glöð að sjá.
Þú hafðir lagt þig
í sófanum
og lesið í Biblíunni,
þegar þér fannst
birta í stofunni
og að einhver horfði á þig
Þú leist upp úr bókinni,
á miðju gólfinu stóð
engill og horfði á þig
og augu hans lýstu
af friði
og elsku
svo að þú varðst
hrædd eitt
andartak.
Engillinn hopaði á hæl
og frá honum
geislaði til þín yfirnáttúrlegur straumur
sem fjarlægði óttann
og fyllti þig
fagnandi gleði
svo var engillinn horfinn.
Þú kallaðir á okkur
við komum inn
og sáum hamingjuna í andliti þínu
og óskuðum þess
að geta líka einhvern tíma
séð hann.
(Lean Nielsen.)
Yndislega frænka mín og vinkona,
þetta er hinsta kveðja mín til þín.
Hjarta mitt og hugur minn eru rík af
minningum tengdum þér, og vináttu
þinni. Góðar tilfinningar, blandast nú
söknuði og sársauka, en eftir stendur
líka djúp virðing og þakklæti til þín
sem hafðir svo mikið að gefa og miðla,
mér og mínum – og þeim sem stóðu
þér enn hjarta nær og öðrum þeim,
sem þú áttir samleið með.
Þú ERT Ásta frænka. Þú varst ein
af stólpunum, þú varst sendiboði gleð-
innar, þú varst svo einlæg, þú varst
traust, þú hlustaðir vel, og ráðlagðir
heilt, þú fannst til samkenndar, andi
þinn svo ungur, og með börnunum
varst þú ósvikin perla, þú varst djúp-
vitur, þú varst góð. Ásta og Grím-
ur … ,,eitt orð“ … þú lifðir í kærleika
og varst umvafin kærleika, 23. Davíðs-
sálmur var þér svo kær.
Er það svo lítið
að hafa notið sólarljóssins,
að hafa gengið í birtunni
á vorin,
að hafa elskað
að hafa hugsað,
að hafa framkvæmt?
(Matthew Arnold.)
Guð er eilíf ást. Ásta mín, við ,,mæt-
umst“ í bæn og í trú okkar á Guð sem
helgar minningarnar og ástvina-
tengslin.
Eins og móðir huggar son sinn,
eins mun ég hugga yður.
(Jesaja 66:13.)
Elsku kæru Grímur, Gunnar-Gígja,
Hugi Þeyr, Ásgrímur, sorgin og
gleðin eru systur ... og það er mitt í
sorg ykkar, að litla stúlkan ykkar leit
dagsins ljós, sólargeislinn hún Ásta
litla, tákn um lífið sem heldur áfram,
þótt ekkert verði samt og áður.
Guð veri ykkur yfir og allt um kring
í eilífri blessun og veri ykkur huggun,
styrkur og von.
Innilegar samúðarkveðjur,
Unnur Huld, Þórður og börn.
ÁSTA
JÓNSDÓTTIR