Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 18.12.2005, Blaðsíða 11
fjölgun kröftugra fellibylja eins og Katrínar sem lagði bandarísku borgina New Orleans í rúst í haust. Einnig um aukin flóð sem urðu sums staðar í miðhluta Evrópu síðastliðið sum- ar. Þá hafa loftslagsbreytingar einnig verið tengdar fjölgun skógarelda að sumarlagi eins og hrelldu Portúgala í sumar, vegna þess að mun heitara og þurrara er orðið á Íberíuskag- anum en áður. Erfitt er að sanna að loftslagsbreytingar eigi sök á einstökum flóðum eða eldum eða út- breiðslu sjúkdóma, vegna þess að hitastig hefur alltaf verið breytilegt ár frá ári og aðrir þættir skipta einnig máli. En náttúruhamfarir sem rekja má til lofts- lagsbreytinga voru tvöfalt fleiri á tíunda áratug síðustu aldar en á þeim níunda, skv. upplýs- ingum frá Umhverfisstofnun Evrópu í Kaup- mannahöfn. Stjórnvöld víða um heim eru farin að velta því fyrir sér hvernig bregðast verði við breytingum sem óumflýjanlega fylgja hlýnun loftslags. Franskir bændur eru til dæmis í talsverðum mæli farnir að rækta korntegundir sem þola betur meiri hlýindi en þær tegundir sem þeir hafa ræktað til þessa. Dæmi eru nefnd um skíðasvæði í Austurríki sem ekki geta lengur reitt sig á snjó og hafa í hyggju að bjóða í staðinn upp á göngustíga og golfvelli. Baráttan gegn losun gróðurhúsalofttegunda er aðeins eitt þeirra verkefna sem blasa við mannkyninu, einnig er nauðsynlegt að berjast gegn annarri mengun, að viðhalda fjölbreyti- leika lífríkisins og vistkerfis sjávar og varðveita auðlindir á láði og legi. Fullyrðingar um hlýnun er ekki hægt að hrekja og langflestir vísindamenn telja að ástæðuna megi rekja til losunar efna við iðn- aðarframleiðslu, eða hún hafi í það minnsta auk- ið hlýnun til muna frá því sem annars hefði ver- ið. Tíundi áratugur síðustu aldar var sá hlýjasti í sögunni og árin 1998, 2002, 2003 og 2004 eru þau heitustu síðan mælingar hófust. Skv. spá Had- ley-stofnunarinnar í Bretlandi, sem rannsakar og segir fyrir um veðurfar, verður ástandið þannig í heiminum eftir 75 ár, um 2080, að ann- að hvert sumar verður jafnheitt eða heitara en sumarið 2003, þegar 20.000 dauðsföll í Evrópu voru rakin til mikils hita. Búist er við að fyrr hlýni í suðurhluta álf- unnar en annars staðar, jafnvel að talsverðar breytingar verði strax á næstu tveimur áratug- um, að mati EAA. Og reiknað er með að mjög kaldir vetur, sem komið hafa á tíu ára fresti að meðaltali á síðustu þremur áratugum, muni heyra sögunni til, skv. upplýsingum McGlade, forstjóra EAA. Vísindamönnum hefur nú þegar tekist að finna óyggjandi sönnunargögn fyrir loftslags- breytingum: „Allt þar til fyrir 10 árum rýndum við aðallega inn í framtíðina og spáðum um framhaldið,“ var haft eftir Roberto Bertollini, forstjóra deildar sem sinnir heilsu- og umhverf- ismálum á Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigð- ismálastofnunarinnar (WHO), í grein í IHT fyrr í haust sem áður var vitnað til. „En á síðustu ár- um hefur okkur því miður tekist að mæla raun- veruleg áhrif,“ sagði hann og undir það tekur sænskur sérfræðingur. „Breytingar á loftslagi hafa þegar haft greini- leg áhrif,“ sagði Elisabeth Lindgren, starfs- maður vistfræðideildar Stokkhólmsháskóla, í sömu grein. Sum best rannsökuðu dæmin hafa sænskir vísindamenn sýnt fram á, en þeir hafa fylgst með útbreiðslu skordýra sem bera með sér sjúkdóma. „Við verðum vör við ákveðna sjúk- dóma á svæðum þar sem þeirra hefur aldrei orðið vart áður og aukningu þar sem þeir voru fyrir.“ Þar ræðir aðallega um heilabólgur sem aðeins hafa plagað manninn þar sem vetur eru stuttir og mildir. Á tíunda áratug síðustu aldar fengu íbúar í Norður-Svíþjóð þær upplýsingar að þeir þyrftu ekki að óttast umrædda sjúkdóma og gerðu engar varúðarráðstafanir þegar haldið var í æv- intýraferðir inn í skógana. Nú gefa sænsk yf- irvöld hins vegar út kort á hverju vori með upp- lýsingum um landsvæði þar sem fólk gæti verið í hættu, og þau fara sífellt stækkandi. Þrátt fyrir að Svíar hafi gert átak í því að hreinsa stöðuvatnið kunna, Mälaren, skammt utan Stokkhólms, á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar hafa loftslagsbreytingar gert það að verkum að öll sú vinna er unnin fyrir gýg. „Nú er sjaldan hægt að synda í vatninu vegna hættu- legra þörunga og baktería,“ segir Gesa Weyh- enmeyer hjá sænska Landbúnaðarháskólanum í Uppsölum í IHT. Meðalhlýnun í Svíþjóð var um þrjár gráður á Celcius yfir vetrarmánuðina á síðasta áratug aldarinnar sem leið og það hefur gert það að verkum að víða um landið festir snjó ekki lengur og frost er ekki í jörðu. Ein afleiðing þess að jarðvegurinn í kringum Mälaren frýs ekki leng- ur er að óhreinindi berast í vatnið sem m.a. hef- ur orðið til þess að drykkjarvatn Stokkhólms- búa á það til að verða brúnleitt og þykir þá heldur ókræsilegt. „Allir eru af vilja gerðir til þess að leysa vand- málið, en lausn er vandfundin,“ segir Weyhen- meyer. Yfirvöld á Ítalíu velta nú fyrir sér svipuðum aðgerðum við baðstrendur Miðjarðarhafsins og Svíar gripu til á sínum tíma. Á stundum er auðvelt að bregðast við lofts- lagsbreytingum: Sænska ríkisstjórnin hefur t.d. hvatt skógarbændur til þess að planta nýjum trjátegundum, sem vaxa betur í heldur hlýrra loftslagi en verið hefur í landinu gegnum tíðina. Í þýsku borginni Hamborg og Rotterdam í Hollandi hafa nýjar hafnir verið byggðar með það í huga að yfirborð sjávar hækki. Annars staðar er talið að aðlögun að hækkun sjávarmáls verði svo dýr að stjórnvöld bregðist þannig við að láta náttúruna einfaldlega fara sínu fram. Dæmi um það er að yfirvöld í sýsl- unum Norfolk og Essex við suðausturströnd Englands gaumgæfa að gera ekki einu sinni til- raun til þess að koma í veg fyrir að ræktunar- land við ströndina – svæði þar sem flóð hafa nú þegar gert bændum grikk – lendi undir vatni þegar sjávarborð hækkar. „Sums staðar er lík- lega skynsamlegast að mannskepnan sætti sig einfaldlega við þessa þróun og breyti strand- lengjunni,“ segir Klein. „Það sparar fjármuni og umrædd svæði geta hugsanlega nýst betur með þessum hætti en sem lélegt ræktunarland,“ sagði hann í áður- nefndri grein International Herald Tribune. Karl Gunnarsson, botnþörungafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir fjölbreytileika líf- vera mestan í hitabeltinu, ef nægur raki er fyrir hendi. „Í sjó þar sem hann er heitur er fjöl- breytileiki lífvera líka mestur.“ Karl segir ekki vitað með vissu hvaða áhrif hlýnunin hefur hér norður frá. „Hér eru alltaf sveiflur í hitastigi. 1930–1960 var tiltölulega hlýtt tímabil og hitastigið í sjónum hér er ekki komið upp fyrir það sem var á þeim tíma, en samt hefur sjórinn við Ísland hlýnað á undan- förnum árum frá síðustu áratugum.“ Ein afleiðing þess er að ákveðnar fisktegund- ir veiðast á svæðum þar sem þær sáust ekki áð- ur. „Á síðasta áratug erum við t.d. farin að sjá skötusel fyrir norðan land sem áður fannst bara við suðurströndina, útbreiðsla ýsunnar hefur aukist og flundra hefur fundist við landið, sem ekki var áður.“ Hann segir erfitt að fullyrða um það hvort það sé hin hnattræna hlýnun sem veldur þess- um breytingum eða hvort um sé að ræða nátt- úrulegar sveiflur. „Það eru skiptar skoðanir á því hvaða áhrif hnattræn hlýnun muni hafa hér við land. Ef hér hlýnar bráðnar væntanlega ís fyrir norðan okkur, sem veldur því að meira bráðnunarvatn kemur að norðan en áður. Það er sjór sem er kaldari og ekki eins saltur og sá sem kemur sunnan úr Atlantshafi. Vegna þessa gæti dregið úr hlýnun og það jafnvel valdið kólnun.“ Karl telur illmögulegt að fullyrða nokkuð en mögulegt sé að samhliða hlýnun verði meiri sveiflur í veðurfarinu sem gætu hugsanlega vegið upp á móti áhrifum af gróðurhúsaáhrif- um. „Við vitum heldur ekki um áhrif af bráðnum [jökla í norðri] á fisk. Ef það er hlýnun sem veld- ur breytingum hér má búast við að hingað komi meira af suðrænum tegundum en áður, t.d. makríll. Hann kemur oft hingað þegar hlýtt er, og aðrar tegundir sem eru algangar fyrir sunn- an okkur verða væntanlega algengar hér, lýsa hefur t.d. sést oftar hér við land undanfarin ár en áður. Norrænar tegundir sem hafa verið hér á suð- urmörkum sínum, t.d. loðnan, fara þá líklega norðar. Við erum þegar farin að sjá breytingar á hegðan loðnunnar sem við vitum ekki ná- kvæmlega hvað veldur en hún virðist vera að færðast norðar, að minnsta kosti ungloðnan.“ Karl telur hins vegar að hlýnun muni ekki hafa áhrif á þorskinn, því hann sé bæði norðan og sunnan við land; gangi alveg suður að Frakk- landsströndum og langt norður fyrir Ísland. Í skýrslu sem breska ríkisstjórnin lét vinna og birt var í haust kemur einmitt fram að minnkandi ís á heimskautum, stækkun eyði- marka og hærra hitastig sjávar séu farin að hafa margvísleg áhrif á lífríkið, t.d. hafi ferða- mynstur sumra farfugla og annarra dýra breyst og sumar tegundir, sem áður voru einskorðaðar við suðrænar slóðir, hegrar, skjaldbökur og fiskar af röndungaætt, séu nú að verða æ al- gengari sjón á og við Bretlandseyjar og ein vað- fuglategund, sem áður hafði vetrarstöðvar á vesturströndinni, hefur nú flutt þær yfir á aust- urströndina. Þá séu dæmi um farfugla, sem eru hættir suðurferðum á haustin. Sumar tegundir hafa fært sig norður á bóg- inn undan hlýnandi sjó en í skýrslunni er bent á, að ísbirnir og sumar selategundir eigi í fá hús að venda haldi þróunin áfram. Jafnvel litlar breytingar á hitastigi sjávar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir svifið í sjónum en það er að mörgu leyti undirstaða líf- keðjunnar í honum. Til þess er rakin mikil fækkun í ýmsum tegundum sjófugla við Skot- land en fiskurinn, sem lifði á svifinu, er horfinn að miklu leyti. Í grein Haraldar Sigurðssonar jarðfræðings hér í Morgunblaðinu fyrir skömmu kemur fram að mælingar haffræðinga hafi sýnt að mestu breytingar sem mælst hafa í heimshöfunum hafi orðið undanfarinn áratug í hafinu norðan og norðvestan Íslands, þar sem kaldur, saltur og þungur sjór sekkur, og virkar sem mótorinn í hringrás eða „færibandi“ heimshafanna. Þar sagði hann einnig: „Mælingar síðastliðin tíu ár sýna að nú er sjór að verða seltuminni og léttist á þessum slóðum, vegna vaxandi bráðnunar á Grænlandi og á öðr- um svæðum í grennd við norðurpólinn, og kann það að draga úr gangi færibandsins. Ef mót- orinn er að hægja á sér, eins og mælingar gefa til kynna, er hætta á að sjálfur Golfstraumurinn – hitagjafi sá sem gerir Ísland byggilegt – hægi einnig á sér. Þannig gæti hlýnandi loftslag á jörðu leitt til staðbundinnar kólnunar á Íslands- svæðinu. Óvissurnar eru enn miklar, bæði í mælingum og í reiknilíkönum á þessu sviði vís- indanna, en það má staðhæfa með sönnu að ekk- ert rannsóknasvið er nú mikilvægara fyrir vel- ferð Íslendinga en könnun loftslagsbreytinga, og orsakir og afleiðingar þeirra.“ Karl Gunnarsson bendir á að súrni sjór dragi það úr framleiðni svifþörunga, það hafi áhrif á svifdýrin sem éti þörungana og koll af kolli upp alla fæðukeðjuna. „Sjórinn í kringum Ísland er mjög frjósamt svæði, hér er mikil endurnýjum í efnum og framlegðin há og þess vegna eru mikil fiskimið við landið.“ Hann telur þrátt fyrir allt langsótt að tengja þá þróun sem hér var lýst við veiðar. „Það er ekkert vitað um það hvað þessar breytingar geti haft áhrif ofarlega í fæðukeðjunni,“ sagði Karl við Morgunblaðið. Á alþjóðlegu loftslagsráðstefnunni sem Sam- einuðu þjóðirnar (SÞ) stóðu fyrir í Montreal í Kanada og lauk í liðinni viku, var þess freistað að ná samkomulagi um hversu mikið útblástur gróðurhúsalofttegunda skuli minnkaður eftir árið 2012, þegar annað stig Kyoto-bókunarinn- ar tekur gildi. Það tókst ekki en hins vegar náð- ist samkomulag um að aðilar að Kyoto-bókun- inni hefji viðræður á grundvelli hennar um áframhaldandi skuldbindingar iðnríkjanna eftir 2012, þegar fyrsta skuldbindingartímabili lýk- ur. Athygli vakti að Bandaríkjamenn sam- þykktu að taka þátt í þeim viðræðum. Þetta var ellefti fundur rammasamnings SÞ um loftlagsbreytingar og sá fyrsti eftir að Kyoto-bókunin við samninginn gekk í gildi í febrúar á þessu ári. Alls stendur 141 ríki að rammasamningnum en Bandaríkin – sem menga mest allra ríkja jarðarinnar – hafa hins vegar neitað að stað- festa margnefnda Kyoto-bókun. Gert er ráð fyr- ir því, skv. henni, að 35 mestu iðnríki heims minnki útstreymi koltvíoxíðs og fleiri svokall- aðra gróðurhúsalofttegunda um 5,2% (miðað við útblástur ársins 1990) milli áranna 2008 og 2012 en Bandaríkjastjórn telur að efnahagur landsins ráði ekki við slíka breytingu. Ástralía á heldur ekki aðild að Kyoto-bók- uninni, en þetta eru einu iðnríkin sem ekki hafa staðfest hana. Vert er að geta þess að hvorki er tekið tillit til Kína né Indlands í Kyoto-bókun- inni, en í báðum löndum er nú losað gríðarlegt magn koltvísýrings út í andrúmsloftið. hlýnunar á jörðinni Reuters Kolsvartan reyk leggur frá eldinum, sem kviknaði í olíubirgðastöðinni í Hemel Hempstead fyrir viku. 32 þúsund lítrum af vatni á mínútu var dælt á eldinn, sem var sá mesti í Evrópu frá seinna stríði og mengunin eftir því. skapti@mbl.is Reuters MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18. DESEMBER 2005 11
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.