Fréttablaðið - 18.11.2007, Blaðsíða 96
MENNING 5022
Þá er hin lymskulega Hedda Gabler leit fyrst
dagsins ljós rugluðust margir aðdáendur
Ibsens í ríminu. Nú var hann lagstur í prívat-
pælingar, hann sem hafði áður viljað æpa á
torgum um spillingu samfélagsins og vekja
athygli á meinsemdum þeim sem grasseruðu
í hinum borgaralega feluleik. Nú var skáldið
komið út á aðrar brautir, beinandi sjónum
sínum innávið undir skinnið, inn í sálarlíf
hverrar persónu sem birtist í leiknum. Ibsen
leggur hér grunninn að þvílíku framhaldi í
leikritun að hann hlýtur að vera steinhissa,
þarna fyrir handan, þegar hann fylgist með
því að verið er að kópíera hann enn þann dag
í dag.
Hvort heldur við lesum O´Neil, Norén eða
einhverja nútímahöfunda alls staðar er
áhrifin og aðferðir Ibsens að finna. Hann
hefur skapað nokkur góð kvenhlutverk,
nokkur óskahlutverk allra leikkvenna.
Hedda Gabler er eitt þeirra.
Árið 1898 var haldin kvenréttindahátíð í
gömlu Kristjaníu og við það tækifæri var
Henrik Ibsen heiðraður og varð að þakka
fyrir sig með ræðu þar sem hann meðal ann-
ars sagði:
„Ég er ekki meðlimur í kven-
réttindafélaginu... ég veit ekki
einu sinni hvað kvenréttindi
eru. Fyrir mér hafa málin ávallt
snúist um mannréttindi. Og
ef verk mín eru lesin af gaum-
gæfni skilja menn það... hlut-
verk mitt hefur verið að mála
og segja frá fólki en það er nú
oft þannig að þegar höfundum
tekst vel til nýtist efnið sem
tjáning fyrir þá tilfinningu og
stemningu sem í lesandanum
sjálfum býr. Það er glögglega
hægt að sjá að hér eru orð
höfundar en í hvert sinn sem
einhver fer um þau höndum
eru þau endursamin.“
Þetta sagði meistari Ibsen 26. maí 1898. Nú í
nóvembermánuði uppi á Íslandi, meira en
hundrað árum síðar, er enn og aftur verið að
endurskapa orð hans um leið og löngun lista-
mannanna í þessu tilfelli er að hrökkva inn í
gamla tímann og segja eitthvað sem sagt var
í gamla daga. Það er svo skrýtið að það er
ekki hægt að segja eitthvað sem sagt var í
gamla daga, nema að standa við hliðina á
tímanum og segja hreinlega: svona var sagt í
gamla daga.
Hedda Gabler er í raun og veru algert
nútímaverk þó svo að margt hafi breyst í
ytri umgjörð vitaskuld. Hedda er alger dek-
urskjóða, við þekkjum hana, hún er til úti um
allt bæði í karl-og kvenlíki. Hún er kaldlynd,
getur ekki elskað og veit í raun og veru ekki
hvað hún vill.
Shakespeare tók upp á því að flengja hana
Katarínu og svelta hana til þess að hún, hið
mikla skass, yrði til friðs, en í nútíma Noregi
Ibsens var ekki spurning um að hemja eða
temja, heldur kannski fremst að sýna fram á
að ákveðnar aðstæður sköpuðu svona mann-
eskju og reyndar hinar persónur verksins
einnig.
Hér í þessari sýningu var valin umgjörð
gamla tímans. Glettilega smart leikmynd
þar sem rýmið var opið og góður möguleiki á
að leika fyrir innan og utan hina raunveru-
legu stofu. Leikhópurinn samanstendur af
leikurum með mjög misjafna reynslu. Það
var áberandi í allri áferðinni. Hedda í með-
förum Eline McKay var hvorki lúmsk né
undirförul, hún var bara frekar reið og
ruslaraleg til fara. Thea litla sem af Ibsens-
hefð hefur alltaf verið svo ámátleg var hér
glæsileg með þó nokkurt sjálfstraust á
meðan leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir,
sem fór með hlutverk hennar og er með
einkar fallega rödd, hefði þurft aðstoð við að
leita að eðlilegum talmálsáherslum.
Soffía Jakobsdóttir fer með hlutverk Bertu
gömlu og blæs ágætu lífi í þá vinnukonu-
mynd en Ragnheiður Steindórsdóttir sem
fer með hlutverk frænkunnar nær ekki að
beisla þá rafmögnuðu orku sem ætti að
myndast þegar Hedda sýnir henni fyrirlitn-
ingu í byrjun verksins. Raunar var ótrúlega
lítið unnið með atriðið þá er Hedda skensar
frænkuna í upphafi með því að þykjast halda
að spánýr hattur sé eitthvert gamalt höfuðfat
Bertu vinnukonu.
Jörgen Tesman sem er einhver mesti lúði
heimsbókmenntanna var hér óneitanlega
lúðalegur og fyndinn í meðförum Jóns Inga
Hákonarssonar en tilfinnanlega skorti vinnu
með undirtexta og eðlilega framsögn.
Sigurður Skúlason sem lék flagarann og
dómarann Brack hvíldi ekki aðeins í persónu
sinni, heldur skilaði hann hlutverki sínu vel
og sama má segja um Valdimar Flygering
sem lék Ejlert Lövborg, manninn sem Hedda
í raun elskaði, andstæðu þess manns sem
hún gekk að eiga, og tekst honum vel að
varpa angistinni yfir til áhorfenda þrátt
fyrir að samtal hans og Heddu hafi ekki náð
þeirri undiröldu sem í textanum býr.
Það má segja að þetta hafi verið svolítið
hölt sýning en engu að síður virðingarvert
og nauðsynlegt að þurrka rykið af Henrik
Ibsen með vissu millibili. Það væri ekki vit-
laust að leyfa leikmyndinni að standa og gefa
fleiri leikurum, leikhópum tækifæri á því að
spreyta sig á þessum hlutverkum sem eru
svo snilldarlega vel úr garði gerð af hendi
höfundar. Lýsing og tónlist var vel við hæfi,
sömuleiðis gaman að sjá þessa búninga þó
svo að Hedda sjálf hafi allan tímann að
undanskildu upphafsatriðinu verið nær
pútnahúsastýru heldur en þeirri yfirstéttar-
konu sem hún þykist vera. Þó svo að hún hafi
vakað heila nótt og líklega var það hugsun
leikstjórans að láta hana vera svolítið tusku-
lega þess vegna, þá vantaði einmanaleikann,
angistina og hina undirliggjandi ósvífni sem
einkennir Heddu Gabler.
Hvað sem öðru líður þá er alltaf gaman að
hitta þessa góðkunningja leikbókmenntanna
í ýmsum útfærslum. Elísabet Brekkan
Hver er hræddur við Heddu Gabler?
Hatturinn ljóti sem Hedda notar til að lítillækka Tesman og fóstrur hans. Ragnheiður Steindórsdóttir og Jón
Ingi Hákonarson í hlutverki töntu og Tesman. FRÉTTABLAÐIÐ/VÖLUNDUR
Lífsleitt fólk á fimmtugsaldri er að flytja úr
landi, öllu pakkað, næstum ekkert eftir af
leifum heimilis, sonurinn ungi að kveðja
sína kærustu, það er í þröngri fjölskyld-
unni meinsemi, tegundin tekin að snúast
gegn sínum næstu. Sagan gerist yfir dag-
part, nótt og morgun. Þráðurinn er klipptur
niður í spotta. Við sjáum þá ekki í tímaröð,
heldur er þeim ruglað, við flutt fram og til-
baka í tíma til að skapa eftirvæntingu,
spennu, troða í okkur efasemdum. Verkið
snarast frá hversdagslegri kómedíu yfir í
þriller og loks harmleik. Það er ekki vítt í
umfjöllun um mannlegar aðstæður, persón-
ur steyptar í þröng mót af hálfu leikskálds-
ins, hnúturinn í fléttunni einfaldur en bygg-
ir á skemmtilegu og óvæntu bragði.
Leikstjórinn hefur valið sýningunni sak-
leysislegan stíl: hér eru leikarar sem geta
svo sannarlega undirbyggt dýpra en leyft
er, raunar spurning hvort þær Eddur hefðu
ekki átt að víxla hlutverkum. Það vantar í
þessa grúppu grimmdina, siðleysisafstöðuna
sem er bara látin liggja milli hluta og nöjuna
í frúna, geðveikina í gestinn – svo er ekki
hægt að segja meir. Um leið er þyngdinni í
hreyfingunni ábótavant– þetta er svo kurt-
eist og – hvaða orð myndi þýðandinn nota:
háttprútt. Sem er annað: þýðing.
Á íslensku kastar maður grjóti, hendir
ekki steinum, unglingur talar um pabba um
ekki föður minn. Fleiri hnökra hnaut áheyr-
andi um af hátíðlegu bókmáli, sem er reynd-
ar gott fyrir sinn hatt á degi íslenskrar
tungu, en rímaði bara alls ekki við þetta
fólk.
Aðeins um rýmið og leikara: í viðtali við
höfund í leikskrá er talað um opinn gang,
rýmið þar sem við erum á ferðinni og opið í
mörg herbergi í senn. Slíkir gangar eru vita-
skuld evrópskt fyrirbæri sem átti sér bara
stuttan tíma hér í byggingum. Fram hjá
þessu skautar stígur og býr til geil, ekki
óþénanlega mynd, hreina og dálítið náttúru-
lausa. Búningar falla vel að persónum og
lýsing vekur ekki sérstaka athygli sem er
gott.
Íslenskar leikkonur eru miklu sterkari en
karlarnir gegnumsneitt: þarna gefur að líta
þrjár: Þórunn reyndar í smáparti en fór mjög
snyrtilega með sitt, Eddurnar tvær eru báðar
fantaleikkonur, báðum reyndar hætt við að
halda sig innan markanna, en ekki brjótast
úr og hamast, sprengja brýr og brjóta veggi,
sem skapleikkonur eiga að fá að gera. Verða
að gera. Hér höfðu þær báðar tækifæri til
þess, sem ekki var nýtt til fulls, þótt vinna
þeirra með hlutverkin vísaði eindregið rétt-
an veg. Feðgarnir, Baldur og Vignir, reynd-
ust ekki vera þeir skíthælar sem aðstæðurn-
ar buðu uppá, sakleysingjar frekar en fól, en
þar ræður líkast til lífssýn leikstjórans og
þýðandans: menn henda steinum, en kasta
ekki grjóti, grýta ekki fólk á förnum vegi. Er
það ekki greinarmunurinn? Er það ekki á
endanum valið á orðunum sem skiptir öllu
máli og segir mestallt sem þarf? En þá er
ekki sama hvernig það er sagt. Í þessari sýn-
ingu víkur grimmdin fyrir geðstillingu,
galskapurinn fyrir settleg heitum, illskan
fyrir hinu þægilega.
Páll Baldvin Baldvinsson
Gömul kærasta lítur við
Gamla kærastan, Edda Björg Eyjólfsdóttir, er refsinorn fyrir svikin heit, gamla svardaga og tilfinningar.
MYND: ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ.
ÞJÓÐLEIKHÚS SÝNIR Á SMÍÐAVERKSTÆÐI
Konan áður (Die Frau von fruher) eftir Roland Schimmelpfennig
Leikendur : Baldur Trausti Hreinsson, Edda Arnljótsdóttir,
Edda Björg Eyjólfsdóttir, Vignir Rafn Valþórsson og Þórunn Erna Clausen.
Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson.
Lýsing: Hörður Ágústsson.
Leikstjórn og þýðing: Hafliði Arngrímsson.
Frumsýnt á Smiðaverkstæði 16. nóvember.
FJALAKÖTTURINN SÝNIR Í TJARNABÆ
Hedda Gabler eftir Henrik Ibsen
Leikarar: Eline McKay, Jón Ingi Hákonarson, Valdimar Flygenring, Alexía Björg
Jóhannesdóttir, Soffía Jakobsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir og Sigurður Skúlason.
Tónlist: Ragnheiður Gröndal. Leikmynd og búningar: Helga Rún Pálsdóttir. Förðun: Kolbrún
Birna Halldórsdóttir. Þýðing: Eline McKay. Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson.
Frumsýning 16. nóvember.