Réttur - 01.06.1943, Blaðsíða 56
Sverrir Kristjánsson:
Örlagastund einræðisherra
Ræða flutt á samkomu sovétsöfnunarinnar 22. júní 1943
22. júní virðist vera örlagastund einvaldsherra. Þann dag árið
1812 stóð Napóleon á bökkum Njemenfljótsins og boðaði her sín-
um að halda skyldi inn í Rússland. Tveim dögum síðar gekk her-
inn yfir fljótið. Tuttugasta og annan júní var Napóleon drottnari
Evrópu. Þrem árum siðar var hann fangi Evrópu. Sporin hefðu
átt að hræða, dagsetningin hefði átt að vekja til íhugunar, en hér
sannaðist hið fornkveðna, að guðirnir blinda þá, er þeir vilja tor-
tíma. Adolf Hitler rikiskanslari og leiðtogi Þýzkalands lét sér
ekki reynslu sögunnar að kenningu verða, hann hirti ekkert um
viðvaranir reyndustu hershöfðingja Prússlands allt frá dögum
Clausewitz til von Fritschs hershöfðingja, er hann lét myrða á víg-
völlunum hjá Varsjá, hann kærði sig kollóttan um hina óttablöndnu
virðingu, sem þýzka herforingjaráðið hefur jafnan borið fyrir
víðáttum Rússlands og baráttukjarki hins rússneska hermanns.
Maðurinn, sem hafði fetað sig upp í valdastól meiri en dæmi eru
til í sögu Evrópu, með fótvissu svefngengilsins, stefndi hinum
ólmu brúnstakkasveitum sínum inn á örlagaslóðir svo margra lið-
inna herforingja, sem týndu þar bæði mönnum og ríki. En því fer
þó fjarri, að Adolf Hitler hafi eingöngu treyst hermætti sínum, er
hann hóf Rússlandsför sína. Innrásin í Rússland var pólitískt leyni-
vopn hans. Hann þóttist öruggur um það, að England mundi ekki
standast freistinguna, ef hann nú klæddist búnaði hins heilaga
Georgs og rendi spjóti sínu í gin hins bolsévíska dreka. Hann trúði
því fastlega, að gamlar væringar, tortryggni á báða bóga, mundu
ónýta alla hernaðarlega samvinnu með Rússlandi, Englandi og
hinu engilsaxneska stórveldi hinu megin Atlantshafsins. En Hitler
brást bogalistin, því að Bretland brást ekki köllun sinni.