Morgunblaðið - 16.12.2007, Side 65

Morgunblaðið - 16.12.2007, Side 65
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 16. DESEMBER 2007 65 stóðu til að baráttumaðurinn mundi hafa betur. Það brást og 21. nóvem- ber sl. lést þessi góði drengur. Ég votta eftirlifandi eiginkonu Denise og börnum Sigurðar vinar míns Arnórssonar og fjölskyldum þeirra innilega samúð. Minning um góðan dreng mun lifa og mörg ljós tendruð í þakklætisskyni fyrir það sem hann gaf okkur samferðamönn- um sínum. Almar Grímsson. Orðið kærleikur kom í huga minn þegar ég frétti af andláti vinar míns Sigurðar E. Arnórssonar. Það er vont að missa bakhjarl í lífinu. Sig- urður var bakhjarl í lífi margra og vinur í raun. Hann var alltaf til stað- ar þegar „eitthvað fór ekki alveg eins og ætlað var“ hjá okkur félögunum en margir okkar hófu starfsferil sinn undir hans stjórn. Það var mikill hugur í mönnum hjá Iðnaðardeild Sambandsins á Akureyri þegar ég réði mig þangað á sínum tíma. Þegar litið er yfir farinn veg, þá kristallast hversu mikill afburðastjórnandi Sig- urður var. Víðsýnn og opinn fyrir nýjungum, ákveðinn en samt sveigj- anlegur og alltaf tilbúinn að hlusta og meta rök annarra. Andrúmsloftið hjá Sambandinu einkenndist oft af núningi og valdapoti, en Sigurður var hafinn yfir slíkt. Í hans huga fólst vinnan í að ná árangri og starfa með fólki. Í öllu sem gekk á þá og þann tíma sem við áttum samleið missti Sigurður samt aldrei húmor- inn í starfi né í leik. Að gera gagn og hafa gaman á jafnræðisgrunni var rauður þráður í lífi hans og starfi enda jafnaðarmaður í hugsjón. Sigurður fór hins vegar ekki var- hluta af erfiðleikum á lífsleið sinni en það sem einkenndi viðbrögð hans við þeim var að þau skyldu ekki bitna á öðrum. Hann hafði þann einstaka hæfileika að búa sér til tækifæri úr erfiðri stöðu. Vinir Sigurðar sem fylgdust með honum, meðal annars við nám og starf í Bandaríkjunum, þekkja vel þennan hæfileika. Í Bandaríkjunum hófst nýr áfangi í lífi Sigurðar – nýtt upphaf, þar sem hann byggði upp traust og vinsemd í nýju umhverfi frá grunni. Þar kynnt- ist hann Denise sem var lífsstoð hans síðustu árin. Mann setti hljóðan á sínum tíma þegar fréttist af þeim veikindum sem Sigurður barðist við og sem loks höfðu yfirhöndina. Orð eins og ósanngirni komu í huga manns – hversu mikið á að reyna fólk! Hins vegar er nokkuð víst, að ef einhver fær áheyrn hjá þeim sem öllu ræður þá verður það Sigurður E. Arnórsson. Á sama hátt má segja að þrátt fyrir að falla frá alltof ungur þá skilur Sigurður eftir sig arfleifð sem verður okkur sem þekktum hann að leiðarljósi. Á svona tímum er nauðsynlegt að vera þakklátur fyrir það sem gert var og líta fram á við. Það hefði örugglega verið vilji Sig- urðar. Ég á erfitt með að koma í orð þakklæti fyrir samskipti mín við Sig- urð í gegnum tíðina, fyrst með Mar- géti sér við hlið og síðar Denise. Það er mikill missir fyrir börn og barna- börn að hafa ekki átt þess kost á að eiga fleiri daga með Sigurði. Ég og Hafdís kona mín sendum okkar inni- legustu samúðarkveðju til ykkar allra. Ég mun sakna þín Sigurður og oft hugsa til þín þegar á bjátar. Hittumst síðar. Karl Friðriksson. Sönn vinátta er gersemi lífsins, yf- irskyggir fjársjóði og eykur stöðugt vægið í tilverunni. Lán mitt var að eiga vináttu Sigga Arnórs. Þar var minn besti vinur, allt frá barnsárun- um, einn dagur var á milli okkar í aldri. Vinátta okkar hófst þar sem við sátum saman í lestrarkennslu, sex ára gamlir. Upp frá því sátum við saman alla skólagönguna þar sem einstaklingarnir mótast mest og tók- um sameiginlega út þroskagöngu til manns. Á þessum árum urðum við miklir félagar, vinir og féllum þétt inn í fjölskyldur beggja. Leiðin lá á Bifröst. Eftir það blasti lífið við okk- ur. Við mynduðum yndislegar fjöl- skyldur sem vinaböndin héldu vel ut- an um. Það er skemmtilegt að minnast þess á hve mörgum sviðum við æskufélagarnir höfðum líka sýn. Félagsstarfið hófst með öðrum vin- um í Tómstundaklúbbnum Þyrli sem var algengt á þeim árum. Það féll í beggja hlut að starfa fyrir íþrótta- hreyfinguna, annar um tíma formað- ur knattspyrnudeildar Þórs á Akur- eyri, en þar bjó Siggi lengi, hinn á æskuslóðum árum saman innan ÍA, þar einnig formaður knattspyrnu- ráðs. Báðir störfuðum við innan Oddfellowreglunnar. Pólitískan samhljóm vantaði ekki, störfuðum báðir með jafnaðarmönnum, hvort sem var á Akranesi, Akureyri eða í Reykjavík. Vorum við stoltir af því að vera í hópi eðalkrata eins og Siggi nefndi það jafnan. Árið 1971 var tímamótaár, þá keyptum við Sigrún Halla konan mín, en þau eru systk- inabörn, verslunina „Óðinn“ og æskuheimili Sigga þar fyrir ofan að Kirkjubraut 5 á Akranesi. Húsið var reist af foreldrum Sigga sem ráku verslunina Óðin í áratugi, þau voru þekkt sómahjón í bænum en hættu verslunarrekstri vegna aldurs. Við tókum við fyrirtækinu, fluttum á hæðina fyrir ofan og höfum búið þar síðan, í þrjátíu og sex ár. Með sanni má segja að lífshlaup okkar Sigga Arnórs hafi legið saman frá því við vorum sex ára að stauta í gegnum Gagn og gaman í lestrarnáminu. Við missi ástvina og við skyndilegt fráfall Kalla sonar okkar var tryggur vinur sem Siggi nálægur. Vinur jafnt í gleði og sorg! Trygglyndi og styrkj- andi ráð var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda fyrir mig og fjöl- skylduna. Við reyndum að gjalda líku líkt. Siggi var trúmaður. Kom það oft í ljós með árunum og enn frekar í samskiptum í kjölfar þess að hann flutti til Minnesota og síðar í veik- indum hans. Glettni og húmor var aldrei langt frá hans ljúfa jafnaðar- mannageði, í einu bréfi lýsir hann rannsóknum ytra vegna veikind- anna. Siggi sagðist hafa bent lækn- um á að gæta vel að blóðprufunum, þar í væri sjaldgæft eðalkratablóð, ættað af Íslandi. Í lokin er við hæfi að vitna í orð sem oft voru honum töm kveðjuorð í skrifum gegnum ár- in: „Megi dagur hver fegurð ykkur færa, Guð blessi þig“ … orð sem sýna vel einlægni og góðan hug. Með þessum orðum minnist ég æskuvinar míns Sigga Arnórs. Þetta verða ekki kveðjuorð því minning hans mun lifa með okkur, styrkja og verma eins og vináttan gerði og ávallt þegar á þurfti að halda. Guð blessi þig og ást- vini þína um ókomna tíð. Þinn vinur Kristján Sveinsson (Stjáni). Útfararþjónusta Davíðs Ósvaldssonar ehf. Davíð Ósvaldsson Útfararstjóri S. 896 6988 / 553 6699 Óli Pétur Friðþjófsson Útfararstjóri S. 892 8947 / 565 6511 Útfararþjónustan ehf. Stofnað 1990 Símar: 567 9110 & 893 8638 www.utfarir.is • runar@utfarir.is Alhliða útfararþjónusta Rúnar Geirmundsson Sigurður Rúnarsson Elís Rúnarsson Þorbergur Þórðarson ✝ Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur samhug, stuðning og hlýju vegna veikinda og andláts ástkærar dóttur okkar og systur, GUÐBJARTAR LÓU SÆMUNDSDÓTTUR, Lyngholti, Dýrafirði. Sérstakar þakkir færum við læknum og hjúkrunar- fólki á Barnaspítala Hringsins og starfsfólki Heima- hlynningar fyrir góða umönnun, trygglyndi, alúð og virðingu. Auðbjörg Halla Knútsdóttir, Sæmundur Kr. Þorvaldsson, Salvör Sæmundsdóttir. ✝ Hjartkær maðurinn minn, sonur, bróðir, tengda- sonur, mágur og frændi, ÓLAFUR FINNUR BÖÐVARSSON, Skógarási, Kjalarnesi, sem andaðist miðvikudaginn 5. desember, verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju mánudaginn 17. desember kl 11.00 fyrir hádegi. Jarðsett verður í Saurbæ á Kjalarnesi. Inga Magnúsdóttir, Anna Margrét Sigurðardóttir, börn og barnabörn, Elín Ágústsdóttir, börn og barnabörn og aðrir aðstandendur. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, KRISTÍN ÞÓRÐARDÓTTIR frá Brúsastöðum, Suðurvangi 2, verður jarðsungin frá Víðistaðakirkju þriðjudaginn 18. desember kl. 15.00. Fyrir hönd ættingja og vina, Ingveldur S. Kristjánsdóttir, Þórður K. Kristjánsson, Elma Cates, Sigurður Kristjánsson, Anna J. Sigurbergsdóttir, Valgerður Kristjánsdóttir, Rúnar Smárason, Kristín Kristjánsdóttir, Magnús Þórðarson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, KRISTINN ÞORSTEINSSON, fv. leigubifreiðarstjóri, áður til heimilis að Öldugötu 37, Hafnarfirði, sem lést að Hrafnistu í Hafnarfirði þriðjudaginn 4. desember, verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði þriðjudaginn 18. desember kl. 13.00. Valgeir Kristinsson, Unnur Magnúsdóttir, Erla Ásdís Kristinsdóttir, Atli Steingrímsson, Ómar Þorvaldur Kristinsson, barnabörn og barnabarnabarn. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, HJALTI RAGNARSSON vélfræðingur, Ársölum 1, Kópavogi, verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík miðvikudaginn 19. desember klukkan 13.00. Þeim sem vilja minnast hans er bent á Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Sigríður E. Konráðsdóttir, Konný R. Hjaltadóttir, Óskar Guðjónsson, Hjalti Heiðar Hjaltason, Margrét Jónsdóttir, Sigurður Ingvar Hjaltason, Magnea Helga Magnúsdóttir, Aðalheiður Íris Hjaltadóttir, Árni Árnason, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg frænka okkar, RAGNHEIÐUR HERMANNSDÓTTIR, fv. deildarstjóri í Landsbanka Íslands, verður jarðsungin frá Hallgrímkirkju í Reykjavík mánudaginn 17. desember næstkomandi kl. 13.30. Systkinabörn. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir og afi, LEO MUNRO, Kristnibraut 6, Reykjavík, lést mánudaginn 10. desember á krabbameins- deild Landspítalans við Hringbraut. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna. Sérstakar þakkir fær starfsfólk deildar 11-E fyrir einstaka umönnun og hlýtt viðmót. Þökkum auðsýnda samúð. Irmgard Toft, Markús Alun Leosson, Edda Gudnason, Brynja Leosdóttir, Snorri Guðjónsson, Iðunn Leosdóttir, Sindri Hansen, David, Jan Eric og Bjarki Leó. ✝ Við þökkum auðsýnda samúð og vinarhug við andlát og útför okkar ástkæru ANDREU EY. Sérstakar hjartans þakkir viljum við færa séra Bjarna Karlssyni, séra Pálma Matthíassyni og lofgjörðarhóp Samhjálpar. Eyjólfur Ingi Andreuson, Ingveldur Gísladóttir, Eyjólfur Pétursson og systkini hinnar látnu.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.