Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1995, Blaðsíða 37
VÍKINGUR
það sama og aðrir. Ég held líka að
sjávarloftið hafi gert mér gott, það er
miklu heilnæmara en helvítis rykið í
landi. Sjómennskan gat verið erfið
vinna, og það var svo að annaðhvort
þoldu menn þetta eða þeir gáfust upp.
A togurunum var nóg að borða og
kraftmikill matur.“
Guðmundur segir það hafa verið
miklar breytingar þegar nýsköpunar-
togararnir komu. Það hafi verið allt
annað að vera með díselvélar og eins
hafi þeir verið miklu stærri og betri
skip en þeir eldri, öruggari og betri.
Lík flaut aftur með síðunni
Guðmundur var á sjó í báðum styrj-
öldunum. Hann var kornungur í fyrra
stríðinu, háseti á kútter Sigríði, en í
seinna stríðinu var hann stýrimaður á
Skutli frá ísafirði.
„Ég man í seinna stríðinu, þegar ég
var að toga á Halanum að morgni í
góðu veðri, að ég sé lík fljóta aftur
með síðunni. Það höfðu verið átök
einhvers staðar. Það kom ekki til álita
að ná líkinu, það mátti bara ekki. Þetta
var sláandi.
Við vorum talsvert í siglingum og
það henti okkur ekkert. Það var ekki
meiri hætta að sigla í stríðinu en vera
á veiðum við Island.“
Guðmundur segir að í því mikla
fiskiríi sem var í stríðinu hafi skipin
verið það illa lestuð að þau hafi vart
verið sjófær, en eftir að kolaboxin
voru minnkuð og lestirnar stækkaðar
hafi ástandið batnað til muna. „Þá
lágu skipin miklu betur. Það er ekki
nóg að vera með stórt skip ef það er
lestað þannig að það sé varla sjóhæft.
Aður en farið var í siglingar var kom-
ið í land og kol tekin. Við það urðu
skipin miklu betur lestuð, ekki eins
þung að framan og þau voru þegar
komið var í land af fiskiríi. Það var
hver krókur og kimi notaður undir
fisk enda sögðu Bretarnir íslensku
togarana einkennilega, það væri eins
og þeir væru úr gúmmíi; þeir stækk-
uðu við hvern túr, alltaf meiri og meiri
fiskur um borð.
Það er bölvaður sóðaskapur hvernig
farið var með fiskinn á stríðstímanum,
það var ekki hugsað um annað en að
koma sem mestu um borð. Á eðlileg-
um tímum voru þrjár til fjórar hillur í
hverri stíu, en í stríðinu var það orðið
þannig að aðeins var ein hilla í stíu,
það er skömm að þessu.“
Eftir að stríðinu lauk var Goðanes-
ið, þar sem Guðmundur var stýrimað-
ur, meðal fyrstu skipana sem komu til
Þýskalands.
„Við vorum að fara til Bretlands
þegar okkur var tilkynnt í skeyti að
fara til Hamborgar. Þetta var engin
gleðifrétt, þar sem Norðursjórinn var
morandi í tundurduflum. Við vissum
að það var fjögurra mílna siglingabelti
sem við töldum öruggt. Þetta gekk vel
og þegar við komum til Hamborgar
blasti við okkur agaleg sjón. Fólkið
var hungrað og illa haldið. Marshall-
hjálpin var að komast í gang og þetta
var fyrsta sendingin af fiski sem kom
þangað. Freymóður Jóhannesson frá
Patreksfirði fór um borð ásamt Þjóð-
verja, en Freymóður bjó í Þýskalandi.
Freymóður spurði mig hvort hægt
væri að fá að éta um borð, þar sem í
landi væri hungur og erfiði. Við buð-
um þeim að borða en sá þýski afþakk-
aði að borða. Ástæðan var sú að hann
taldi sig ekki þola matinn, taldi hann
of þungan. Við buðum honum þá að fá
léttari mat, mjólk og brauð.
Ástandið í landi var skelfilegt.
Fólkið bjó í húsarústum og þegar við
tókum að landa kom fólkið og hirti
fiskinn, það varð ekkert við það ráðið.
Það var sama hvar við komum; alls
COHflf_GÓLFMOTTAN
Coral gólfmottan fangar óhreinindi og bleytu og auðveldar þér þrifin.
37