Andvari - 01.06.1959, Page 5
ÓLAFUR HANSSON:
BOGI ÓLAFSSON,
MENNTASKÓLAKENNARI.
I.
Bogi Ólafsson var fæddur 15. október 1879 í Efri-Sumarliðabæ í Holtum.
Foreldrar bans voru hjónin Ólafur Þórðarson og Guðlaug Þórðardóttir. Bæði
voru þau hjón af kunnum bændaættum þar eystra. Ólafur Þórðarson var
fæddur á Húsum í Kálfholtssókn. Þar bjuggu foreldrar hans, Þórður Ólafsson
og Helga Jónsdóttir. Ólafur missti föður sinn ellefu ára gamall og fluttist þá
að Hárlaugsstöðum og ólst þar upp. Hann stundaði á yngri árum löngum
sjóróðra á Suðurnesjum og þótti harðduglegur sjómaður. Ólafur var maður
dulur í skapi og fálátur hversdagslega. Þótti liann stundum stuttur í spuna
og kaldur í svörum. Hann var málafylgjumaður hinn mesti, og þótti ekki
heiglum hent að etja kappi við hann á manniundum, enda mun hann löngum
hafa ráðið því um málefni sveitar sinnar, er hann vildi. Hann var vandur að
vinum, en trölltryggur, þar sem liann tók því. Elins vegar var hann talinn
maður þykkjuþungur og langrækinn og eiga erfitt með að gleyma því, sem
á móti honum var gert. Ólafur var talinn gáfaður maður og fjölhæfur. Hann
var smiður ágætur, bæði á tré og járn, og lék allt í höndum hans. Reiknings-
maður var hann með afbrigðum. Eitt sinn hafði einhver villa slæðzt inn í
hreppsreikninga Holtahrepps, og höfðu ýmsir glímt tímunum saman árangurs-
laust við að reyna að linna hana. Var þá leitað til Ólafs, og fann hann villuna
nær því á svipstundu. Ólafur hafði mikið yndi af skáktafli og spilum. Var
hann talinn einn snjallasti skákmaður og lomberspilari í Rangárþingi. Ólafur
var einn þeirra manna, sem ekki eru að öllu leyti við alþýðuskap, cn menn
mátu hann því meir, sem þeir kynntust honum betur.
Árið 1860 kvæntist Ólafur Guðlaugu Þórðardóttur. Voru foreldrar hennar
Þórður Jónsson, bóndi í Efri-Sumarliðabæ og Helga Gunnarsdóttir. Faðir
Helgu var alkunnur merkishóndi, Gunnar Einarsson í Hvammi á Landi, og
hafði sú ætt búið í Hvammi í fullar tvær aldir. Móðir Helgu var Kristín
Jónsdóttir, sonardóttir Bjarna Halldórssonar á Víkingslæk, sem hin fjölmenna
Víkingslækjarætt er frá komin.
Guðlaug Þórðardóttir var hinn mesti dugnaðarforkur, og féll henni sjaldan