Andvari - 01.01.1990, Blaðsíða 34
32
HJÁLMAR H. RAGNARSSON
ANDVARI
blési lét hann ekki bilbug á sér finna. Þá hafa margir samtíðarmanna
hans vitnað um, að á góðum stundum hafi hann verið allra manna
skemmtilegastur og hafi þá augu hans tindrað af glettni og fjöri. Hann
var ákafamaður til orðs og æðis og hið innra fullur óþreyju. Pegar
hann, sextugur að aldri, var spurður um hvort honum hefði liðið vel á
íslandi svaraði hann:
Nei, ekki get ég sagt það. En samt vil ég hvergi annars staðar búa. Mér leið vel
nokkra daga á Þingvöllum, þegar ég var barn með föður mínum. Ég hef aldrei
haft frið hér síðan.441
Áföllin í einkalífinu voru Jóni þungbær og hafa þau eflaust dregið
hann stundum fram á barm örvæntingar. Lífsorka hans var þó meiri en
svo, að hann léti bugast. Hann hélt ótrauður áfram baráttunni fyrir
hugsjónum sínum og í tónsköpuninni átti hann farveg fyrir þær ólíku
kenndir sem börðust innra með honum.
Gæfan brosti við Jóni á ný þegar hann, haustið 1955, kynntist Þor-
björgu Jóhannsdóttur Möller (f. 20. ágúst 1919). Þau felldu hugi sam-
an og þann 15. júlí 1956 voru þau vígð saman í hjónaband í Dómkirkj-
unni. Þau bjuggu sér fyrst heimili að Hólatorgi 2 í Reykjavík, en í
október 1957 fluttu þau í lítið einbýlishús að Freyjugötu 3. Foreldrar
Þorbjargar voru þau Jóhann Möller og Þorbjörg Pálmadóttir. Á milli
Þorbjargar og Jóns skapaðist náið og innilegt samband sem stóð með-
an bæði lifðu. Þorbjörg var Jóni stoð og stytta í störfum hans og hún
skildi þá köllun til tónsköpunar, sem fylgt hafði honum frá því að hann
var unglingur í foreldrahúsum. Þau eignuðust einn son, Leif, sem
fæddist 5. apríl 1957.
XVI
Fyrsta stóra tónverkið, sem Jón Leifs lauk við eftir að hann kom heim
sumarið 1945, var hljómkviðan Baldr op. 34. Þetta mikla verk, sem
tekur á aðra klukkustund í flutningi, er tóndrama í tveimur þáttum, og
er aðalinntak þess viðureign þeirra Baldurs og Loka, baráttan á milli
hins góða og hins illa. Hreyfingar og dans fléttast saman við tónlistina