Andvari - 01.01.1990, Blaðsíða 95
andvari
VAR SNORRI STURLUSON UPPHAFSMAÐUR ÍSLENDINGASAGNA?
93
endurspeglast í sögunum, nýja menningarstrauma, breytingar á lögum og
þjóðskipulagi og fleira. En það verður að segjast sem er, að ef vér gerum ráð
fyrir að ritun íslendingasagna hafi byrjast um eða fyrir 1200, þá höfum vér
ekkert áþreifanlegt að festa hendur á frá fyrstu hálfu öldinni eða vel svo.
Elsta handritsbrot er tímasett um eða laust eftir miðja 13. öld, og fyrstu ör-
uggu áhrifin á aðrar bókmenntir verða einnig eftir miðja þá öld. Þegar menn
reyna að tímasetja þær sögur sem taldar eru frá þessu tímabili, beita þeir nær
einvörðungu huglægum aðferðum. Miðað er við það að sögurnar hafi þróast
jafnt og þétt. Mönnum finnst tiltekin saga vera frumstæð eða fornleg að máli
og stíl, önnur nokkru þroskaðri, sú þriðja lengst komin á þróunarbrautinni,
og svo raða menn þeim í tíma samkvæmt því.
Lítum á það sem Björn M. Ólsen hefur að segja um aldur Heiðarvígasögu,
elstu sögunnar sem hann heldur vera. Sagan er, sem kunnugt er, aðeins
varðveitt í einu handriti óheilu, og var elsti hluti þess áður tímasettur til
miðrar 13. aldar (mun raunar h.u.b. hálfri öld yngri, sem síðar getur). Nú
finnur Björn ýmsar villur í þessu handriti og ályktar því - í sjálfu sér með
miklum líkum - að nokkrir liðir hafi verið milli þess og frumrits sögunnar.
„Af þessu virðist mega ráða,“ segir Björn, „að frumritið geti varla verið
yngra en frá aldamótunum 1200, en kunni hinsvegar að hafa verið talsvert
eldra, t.d. frá h.u.b. 1180-90.“ Hann bendir á áhrif frá Heiðarvígasögu á
Eyrbyggju sem hann tímasetur um 1220. Og til frekari staðfestingar segir
hann að lokum: „Ef vér berum Heiðarvíga sögu saman við þær sögur sem
áreiðanlega eru til orðnar snemma á 13. öld, t.d. Egils sögu (um 1208), Eyr-
byggju (um 1220), þá virðist mér orðfærið og yfirleitt allur blærinn á Heiðar-
víga sögu mæla með því að hún sé hérumbil mannsaldri eldri, rituð um
1180-90“ (Um ísl.s., bls. 211).
Þegar vér komum svo að tímasetningu hinna sagnanna tveggja sem Björn
miðar við, Egilssögu og Eyrbyggju, kemur í ljós að þar er ekki fast land undir
fótum. Ég hef áður nefnt að Björn byggir tímasetningu Eyrbyggju á mis-
skilningi á gerðum Landnámabókar, að sagan hljóti að vera eldri en forrit
Sturlubókar og Hauksbókar. Og tímasetning Eglu er ekki miklu traustari.
Björn miðar við það að Snorri Sturluson hafi skrifað söguna meðan hann bjó
á Borg upp úr aldamótunum 1200. Þessa skoðun setti hann fyrst fram í rit-
gerð um Landnámu og Egils sögu í Aarböger for nordisk Oldkyndighed og
Historie 1904. Helstu röksemdir hans eru þær að landnám Skallagríms sé
stórlega ýkt í sögunni og að því sé furðu nákvæmlega lýst hversu skipverjar
hans námu land umhverfis Borg. Björn heldur sig að sjálfsögðu við fyrri
skoðanir sínar í fyrirlestrinum um Egilssögu, en að manni læðist sá grunur að
hann hefði litið öðruvísi á málið ef hann hefði skoðað söguna að nýju í sam-
hengi við aðrar sögur þegar hann hélt fyrirlesturinn tíu árum síðar. Hann
reynir að seinka brottflutningi Snorra frá Borg sem mest hann má, lætur