Andvari - 01.01.1990, Page 35
ANDVARI
JÓN LEIFS
33
og krefst flutningur verksins þess vegna uppfærslu á leiksviði. Þótt nú
séu liðin meira en fjörutíu ár frá því að Jón lauk við smíði þessa
tóndrama hefur það ekki enn verið fært upp.
Á árinu 1951, þegar liðin voru um það bil tólf ár frá því að Jón lauk
við Eddu I, Oratorium - Sköpun heimsins, byrjaði hann að semja
óratoríu, sem hann nefndi Eddu II, Oratorium - Líf guðanna. Enn á
ný leitaði Jón fanga í norrænu goðsögunum. Þessi óratoría er skrifuð
fyrir einsöngvara, blandaðan kór, sex fornaldarlúðra, stóra slagverks-
sveit og sinfóníuhljómsveit. Eftir að hafa skrifað fyrsta þáttinn lagði
Jón verkið á hilluna og snerti ekki aftur á því fyrr en um það bil tíu
árum síðar. Það má telja líklegt, að þær slæmu viðtökur, sem þættirnir
úr Eddul fengu á hljómleikunum í Kaupmannahöfn 1952, hafi dregið
úr Jóni kjark og hann þess vegna gert þetta hlé á smíði Eddu II.
Jón lauk við smíði Eddu 7/sumarið 1966. Hann hófst þá strax handa
við smíði þriðju og síðustu óratoríunnar í £'ífí/w-þríleiknum, Eddu III,
Oratorium - Endurreisn op. 65. Honum entist ekki aldur til að ljúka
þessu verki, en hann gaf þær leiðbeiningar áður en hann dó, að flutn-
ingi Eddu III mætti ljúka með því að leika annaðhvort Fine I op. 55
fyrir sinfóníuhljómsveit eða Fine II op. 56 fyrir víbrafón og strengja-
sveit. Jón skrifaði bæði verkin í nóvember 1963.
Mörg síðari verka Jóns eru innblásin af náttúru landsins og lands-
lagi. Fetta er hermitónlist og bera sum þessara verka nöfn þekktra
náttúrufyrirbrigða. Hljómsveitarverkin Geysir op. 51 ogHeklaop. 52,
sem bæði eru frá árinu 1961, eru mikilfenglegar hljóðmyndir, inn-
blásnar af takmarkalausum krafti náttúruaflanna, og í tónverkinu
Dettifoss op. 57, sem Jón samdi við samnefnt ljóð Einars Benedikts-
sonar, er manninum lýst í smæð sinni andspænis tröllslegum mætti
náttúrunnar. Síðastnefnda verkið er fyrir einsöngvara, blandaðan kór
og hljómsveit og er það frá árinu 1964. Landsins forni fjandi, hafísinn,
varð Jóni rúmlega ári síðar tilefni til smíði tónverksins Hafís op. 63
fyrir blandaðan kór og hljómsveit. Texti þessa verks er einnig eftir
Einar Benediktsson.
Á síðustu æviárum sínum einbeitti Jón sér einkum að smíð sin-
fónískra verka, með eða án söngs. Um nokkur þeirra hefur nú þegar
verið getið, en til viðbótar má telja Jónasar minni Hallgrímssonar op.
48 fyrir kór og hljómsveit, Nótt op. 59 fyrir einsöngvara og hljómsveit,
Darraðarljóð op. 60 fyrir kór og hljómsveit, Helga kviðu Hundings-
bana op. 61 fyrir einsöngvara og kammerhljómsveit, og Grógaldr op.