Andvari - 01.01.1990, Page 38
36
HJÁLMAR H. RAGNARSSON
ANDVARI
flestum þessum aðfinnslum stað, en nánari kynni af tónlist Jóns leiða
samt sem áður í ljós, að hann var kunnáttumaður á innri lögmál tónlist-
arinnar og að flestar tónsmíðar hans búa yfir frumlegri tónhugsun, -
tónhugsun sem sker sig úr og aldrei verður gráma meðalmennskukófs-
ins að bráð. Jón fór ekki troðnar slóðir ogfyrir það má tónlist hans ekki
gjalda.
í bráðskemmtilegu viðtali við Matthías Johannessen frá árinu 1959
segir Jón:
Músíkin er lífsorka. Ég hefi notað hana í verkum mínum. Þess vegna eru þau
hranaleg og brútal stundum. Kannski það sé til að vega á móti viðkvæmninni?
-ég veit ekki? 47)
Þessi ummæli endurspegla baráttumanninn og hugsjónamanninn
Jón Leifs, keikan og hnarreistan, í leit sinni að sannleikskjarnanum, -
sannleikanum í lífinu. Fyrir honum var lygin versti óvinurinn, eða eins
og hann sagði sjálfur: „Lygin er einskis virði í listinni eins og í ástinni, -
hversu mikil sniðugheit og reynsla eða kunnátta, sem kann að
fylgja.“48)
Jón leit á líf mannsins hér á jörðu sem baráttu, og í hans huga var
takmark allrar sannrar listar það „að gefa mönnum þrek til að þola
raunir lífsins - gera menn sterkari.“49) Þessi ummæli Jóns lýsa karl-
mennsku, þeirri sömu karlmennsku sem einkennir tónlist hans og sem
gerði honum kleift að standa af sér þær raunir sem hann varð fyrir á
lífsleið sinni. An baráttuviljans og án þeirrar auðmýktar, sem hannbar
fyrir hinum æðri lögmálum listar sinnar, hefði Jón aldrei fyllt það stóra
hlutverk, sem hann ungur að árum ætlaði sér í þessum heimi. Síðast en
ekki síst var hann sannur í list sinni og hann bar gæfu til þess að lúta
sjálfur þeim innri röddum listamannsins, sem eru uppspretta köllunar
hans og hugsjóna. Nú er það verk okkar íslendinga að sanna, að við
höfum verið þess verðir að hafa átt listamann eins og Jón Leifs.