Andvari - 01.01.1990, Side 61
andvari
JAKOB JÓH. SMÁRI
59
háskólaárunum í Kaupmannahöfn. Einkum fýsti mig að heyra sem flest um
íslensk skáld og listamenn sem þá voru að brjóta sér braut í Danmörku. Ég
vissi að Smári hafði verið góður vinur Gunnars Gunnarssonar og Jóhanns
Sigurjónssonar, þekkt Jónas Guðlaugsson, Einar Jónsson myndhöggvara og
fleiri.
Fyrir þennan fund okkar hafði ég endurlesið lokabindi Fjallkirkju Gunn-
ars, Hugleik, þar sem segir margt af íslendingum í Kaupmannahöfn. Vissi ég
að Smári var þar ein sögupersónan undir nafninu Jósef Matthíasson, og þótti
mér þar vera brugðið upp fallegri mynd af ljúfu og góðu skáldi og dálítið
barnalegum öðlingsmanni.
Smári kvaðst hafa kynnst Gunnari Gunnarssyni allvel á þessum árum og
umgengist hann töluvert um skeið. Varð sá kunningsskapur til þess að fyrir
hvatningarorð Gunnars þýddi Jakob þrjár bækur hans á íslensku svo sem
fyrr er getið.
Þótt Smári bæri Gunnari vel söguna var auðheyrt að hann var ekki fylli-
lega sáttur við sumar þær myndir sem dregnar voru upp í Fjallkirkjunni af
auðþekkjanlegum skáldum og listamönnum íslenskum. Minntist hann í því
sambandi á þá Jónas Guðlaugsson (Davíð Jónmundsson) og Einar Jónsson
(Pétur Bergsson) sem hlotið hefðu næsta ómjúka meðferð.
Þegar talið barst að Jóhanni Sigurjónssyni var eins og Smári lifnaði allur
við. Lagði hann sig fram um að finna nægilega sterk lofsyrði um þennan
ógleymanlega persónuleika sem hann sagði að á góðri stund hefði verið
hverjum manni andríkari og skemmtilegri.
Smári sagði eitthvað á þessa leið:
Mér fannst Jóhann hafa næmari smekk og skarpari skilning á skáldskap en
aðrir menn sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Við ræddum oft um skáldskap,
þar á meðal leikrit Jóhanns meðan þau voru í smíðum, einkum Fjalla-Ey-
vind, en einnig drögin að Galdra-Lofti. Ég var nýlega farinn að yrkja á þeim
árum s'em ég umgekkst Jóhann mest, og átti einhvern veginn auðveldara
með að sýna honum kvæðatilraunir mínar en nokkrum öðrum manni. Mér
fannst hann svo hreinskilinn og einlægur, hvort sem hann gerði athugasemd-
ir eða lét falla hrósyrði. Og Jakob bætti við brosandi: - Hann las þessi ljóð
mín svo vel að ég fór að halda að þetta væru nokkuð góð kvæði! Ég hef engan
þekkt, sagði Srhári ennfremur, sem las kvæði jafnvel og af slíkri innlifun sem
Jóhann Sigurjónsson.