Andvari - 01.01.1997, Qupperneq 50
48
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
ANDVARI
þingið var studd sögulegum rökum hlaut þingið að vera haldið á sínum
upprunalega stað.31 Eins virðist andstaðan við Reykjavík hafa mótast af
ótta manna við siðspillingu í höfuðstaðnum, þótt sá ótti kunni að þykja ein-
kennilegur þegar þess er gætt að á þessum tíma bjuggu aðeins um þúsund
sálir í Sódómu íslands.32 Árni Thorlacius umboðsmaður í Stykkishólmi,
sem var mikill aðdáandi og stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar, skrifaði
honum t. d. bréf í september 1842 þar sem hann sagðist ósammála Jóni um
þingstaðinn. Árni taldi Þingvelli henta bændum eins og sér miklu betur en
Reykjavík, af því að ódýrara myndi reynast að liggja í tjöldum og nærast á
skrínukosti en að þurfa að kaupa alla þjónustu í höfuðstaðnum. Einnig
sagðist hann „ekki . . . óhræddur um að fyrir einhvörjum kunni sá glaumur
og margmenni sem er í Reykjavík að glepja . . .“33
Afstaðan til staðsetningar Alþingis endurspeglaði vel þá tvíbentu af-
stöðu sem löngum hefur einkennt viðhorf landsmanna til höfuðstaðarins.
Svo eitt dæmi sé tekið, þá dró Jón Thoroddsen upp heldur ófagra mynd af
Reykjavík í ástarsögunni um Indriða og Sigríði og sennilega hefur lýsing
hans farið nær skoðunum Islendinga um miðja síðustu öld en skrif nafna
hans Sigurðssonar. Þar er bænum lýst sem bæli spillingarinnar, þar sem
blöndun danskra og íslenskra siða og tungumáls gróf undan hreinlyndi íbú-
anna. Hamingjuna finna þau Sigríður og Indriði í faðmi dalanna, þegar þau
hlýða kalli drottins og reisa bú á óbyggðu landi.34
Skáldverkið Piltur og stúlka er skrifað undir greinilegum áhrifum frá
menningarlegri þjóðernisstefnu í anda heimspekinganna Herders og Ficht-
es. Bókin leggur megináherslu á siðspillandi áhrif blöndunar menningar-
heima fremur en gagnrýni á þéttbýlið sem slíkt, enda fer því fjarri að allir
íbúar sveitanna í sögunni séu hjartahrein og vammlaus góðmenni. Vantrú
annarra íslendinga á þjóðhollustu Reykvíkinga tengdist þó oftast fremur
áherslu þeirra á mikilvægi landbúnaðarins og sveitavinnu fyrir viðgang ís-
lensks samfélags en heimspekilegum vangaveltum um eðli þjóðernis. Gott
dæmi um þetta viðhorf er áskorun frá Hjaltdælingum til þjóðfundar frá ár-
inu 1850, en þar er kvartað yfir „þeim óþjódlega anda hjá Valdamönnun-
um, að vilja búa í Verdslunarstöðunwm". Þetta sé sérlega bagalegt, af því
að þar fari þeir á mis við landbúnaðarvinnu og verða landsmönnum ekki sú
fyrirmynd'sem þeir gætu orðið ef þeir byggju í sveitunum.35 Svipuð viðhorf
komu fram á þjóðfundi, en þar vildu sumir dreifa versluninni um allt land.
Rökin fyrir því voru þau að „þá færist ábatinn fremur upp í hvern fjörð og
dal og sveit, en að efla einstöku vissa verzlunarstaði, og þróa þannig staða-
lífið, sem hér á ekki við byggðarlag eður landslag, og sem eg er svo hrædd-
ur um, að hér geti aldrei átt við hvort sem er“, svo vitnað sé til ummæla
Jóns hreppstjóra Sigurðssonar frá Tandraseli í Mýrasýslu.36
Að hluta til átti þessi andúð á þéttbýlinu rætur í fjárhagslegum hagsmun-