Andvari - 01.01.1997, Side 74
72
SKÚLI PÁLSSON
ANDVARI
Takmarkanir hugtakanna
f þessu öllu felst gagnrýni á vísindin eins og þau eru stunduð núna og til-
laga um nýja gerð af vísindum eða að minnsta kosti nýja stefnu í vísindum.
Brynjólfur er að halda því fram að hugtakakerfi raunvísindanna dugi ekki
til að gera grein fyrir ákveðinni mikilvægri hlið veruleikans, þ.e.a.s. vitund
okkar. Skýringin er að hugtök þeirra eru afstæð: þau taka til veruleikans
aðeins frá ákveðnu sjónarhorni sem er sértekið frá hinu innra sjónarhorni
mannsins. Sama má auðvitað segja um hugtök sem tjá innra sjónarhorn
mannsins eins og að vilja, langa, óska, trúa o.s.frv., þau tjá veruleikann að-
eins frá einni hlið. Ef við færum að trúa því að við séum eins og hvert ann-
að náttúrufyrirbæri, sem megi útskýra með aðferðum eðlisfræðinnar til
dæmis, þá værum við farin að nota hugtök hennar í óleyfilegu samhengi og
eigna þeim meiri merkingu en þau geta haft.
Mjög víða í bókum sínum hugleiðir Brynjólfur takmarkanir hugtakanna
og varar við að þau séu notuð í öðru samhengi en þau eiga heima í. Fyrsta
ritgerðin í fyrstu bókinni hans er raunar um þetta efni.8 Þetta á hann sam-
eiginlegt með mörgum heimspekingum, sérstaklega á þessari öld. Frægast-
an má telja Ludwig Wittgenstein sem telur að öll heimspekileg vandamál
stafi af hugtakaruglingi, að orð séu notuð í öðru samhengi en þau eiga
heima í. Wittgenstein heldur því fram að ef við áttum okkur á þessu og sjá-
um hið rétta samhengi orðanna þá muni vandamálin hverfa og eftir það
verði engin þörf fyrir heimspeki. En fyrir Brynjólf er þetta ekki nóg. Hann
vill skapa nýtt hugtakakerfi til þess að geta komið orðum að nýjum skýr-
ingum á tilverunni.
Vitund í öllum veruleika
Niðurstaðan af þessu er að hvert og eitt okkar sé ekki tveir aðskildir hlutir,
sál og líkami, heldur ein heild. En þetta er Brynjólfi ekki nóg. Hann sættir
sig ekki við að náttúran sé áfram skilin sem framrás blindra náttúruafla, en
maðurinn einn sé eining vitundar og efnis. Honum finnst ennþá að tilvera
mannsins í hugarheimi sínum sé of takmörkuð, vitundin hljóti að vera
meira en þessi stund milli fæðingar og dauða okkar, eins og blossi í eilífð-
inni, og myrkur á undan og á eftir. Hann sættir sig ekki við þetta og vill að
vitundin sé eitthvað meira. Hann vill að öll tilvera sé bæði efni og andi:
Hér stefnir allt að einu. Til þess að viljafrelsi mannsins verði annað og meira en orðin
tóm og blekking ein, dugir ekki minna en ný heimsskoðun, sem gerir grein fyrir því,