Andvari - 01.01.1997, Page 141
HARALDUR BESSASON
Innangarðs og utan
Um veraldarinnar lausung1
Um Júpiter höfuðguð Rómverja segir svo í gamalli bók um goðafræði:
„Hann er himins faðir og himins drottinn; af hans völdum eru allir loftvið-
burðir, þrumur og eldingar, stormur og hagl; frá honum kemur ljós og birta
himinsins. Hann heldur rammlega á þrumufleininum í hægri hendi og
slöngvir honum yfir jörðina; þann stað, er hann hittir með honum, hefir
hann kosið í helgi sína. Þessi voldugi konungur, sem ríkir í upphimninum,
var yfirdrottnari alls heimsins bæði guða og manna.“ Lýsing þessi skýrir
með öðru þá staðhæfingu Rómverja, „að það sem leyfist Júpiter leyfist ekki
nautinu.“ Júpiter var hliðstæða Seifs hins gríska en um hann segir svo í
áðurnefndri bók: „Börn þeirra Seifs og Heru eru Ares, Hefestos og Hebe,
en þar að auki átti hann marga sonu og dætur með öðrum gyðjum og dauð-
legum konum.“ Þessi ívitnun kveikir óneitanlega þá hugmynd að Seifi hafi
leyfst fleira en tíðkanlegt er í mannanna ríki. Eiginkona hans Hera var
jafnframt systir hans, og fór hjúskapur þeirra leynt í nokkrar aldir. Má og
bæta hér við frægri sögn um Evrópu, sem var dóttir Fönix þess sem fékk
konungdóm í Föníkalandi. Seifur felldi girndarhug til konungsdóttur, brá
sér í griðungslíki og synti með hana á bakinu frá Föníkalandi til Kríteyjar.
Ættartölur Seifs eru með hreinum ólíkindum og til þess fallnar að vekja
heiðvirðu fólki óhugnað, enda í föðurætt hans þrír eða fleiri hundraðhendir
risar og vekur þá einnig nokkra athygli að Kronos faðir Seifs bjó naumast
„bagga sína“ sem venjulegur fjölskyldufaðir, heldur gleypti hann flest sinna
eigin barna til að koma í veg fyrir að þau gætu hrundið honum frá völdum.
Sjálfur Seifur slapp þó naumlega við dapurlega vist sem honum hafði verið
búin í föðurgarði.2
Ráða má af þessum smábrotum úr rómverskri og grískri goðafræði að
öðrum þræði áttu máttarvöldin rætur að rekja til óbeislaðrar náttúru. Einn-
ig báru goðmögn svipmót af mannfólkinu sem einatt reynir að skynja og
skýra náttúruöflin og hafa af þeim gagn og liðsemd með því að fella þau í
lifandi mannsmynd. Er þess vegna ekki við öðru að búast en að þetta sama
fólk leitist við að fá goðheimi bæði lög og reglur sem samræmist að nokkru