Andvari - 01.01.1997, Page 145
ANDVARI
INNANGARÐS OG UTAN
143
Ekkert þeirra systkina fékk á sig mannsmynd nema þá helst Hel, sem engu
að síður er þannig lýst í Snorra-Eddu að hún væri „blá hálf, en hálf með
hörundarlit“ og auk þess „gnúpleit og grimmileg“. Síst er að undra þó að
þar kæmi að Loki sýndi sinn rétta lit. Er í minnum haft að á örlagastund
þegar sjálfir æsir áttu um líf og dauða að tefla lét Loki sá lævísi áss sig hafa
það að eignast áttfættan vanskapning með hrossinu Svaðilfara. Æsir
breiddu yfir þessa lausung með því að gera afkvæmið að reiðhesti Óðins,
en í minnum er haft að hestur hans hét Sleipnir og hafði sá fjóra fætur,
svona til vara. Má nærri geta að nú á dögum ynni slíkt sköpulag á hrossi
hvorki til hárrar einkunnar né eftirsóknarverðra verðlauna meðal Skagfirð-
inga eða annarra þjóða.
Ef við höfum í huga að lýsingar þær sem ég nú hef stuðst við eru þegnar
frá táknmyndaheimi mannshugans þar sem flest kann að vera sannferðugt
ef rétt er lesið og fólki tekst að sjá við sjónhverfingum og göldrum, þá kem-
ur goðfræðilegur áhugi mannfræðinga og jafnvel félagsfræðinga síst á óvart.
Hafa nokkrir úr þeim hópi staldrað við stéttaskiptingu sem augljós er í nor-
rænni goðafræði. Ekki er nóg með að kvenkyn hlyti lægri sess en karlkyn
og yrði þannig að verulegu leyti utangarðs, heldur var hlutur jötna fremur
bágborinn í samanburði við æsi. Öruggt má telja að jötnum hafi verið til sí-
fells angurs hversu djarftækir höfðingarnir í Ásgarði voru til þursameyja og
enn sárar kann þeim að hafa sviðið að sakir ills innrætis og þá sennilega
lágrar þjóðfélagsstöðu utangarðs var ekki um jafnaðarskipti að ræða á
þessum vettvangi. Jötnar áttu lítilli kvenhylli að fagna í Ásgarði. Tilraunir
þeirra að ná til sín ásynjum enduðu með ósköpum og urðu þeim sjálfum að
bana. Hefur lengi verið í minnum haft hversu mjög þeir girntust Freyju og
var þar í einu tilviki um banvæna ást að ræða. Astleitni jötna varð til þess
að sú fagra Vanadís varð spéhrædd og óttaðist að aðrir kynnu að vita hana
vergjarnasta, svo að vitnað sé til hennar eigin orða sem jafnframt benda
eitthvað í áttina til lýsingarorðsins lauslátur og nafnorðsins lauslæti. Öll
tormerki eru þó á því að Freyja hafi nokkru sinni borið slík orð sér í munn,
þar sem dæmi um þau úr norrænni eða íslenskri tungu eru ekki ýkja gömul
eins og brátt verður að vikið. Hvað sem annars má segja um orðanotkun
má glöggt ráða að stéttamunur olli því meðal annars að jafnaðarskipti um
lausung í ástamálum náðust aldrei milli ása og jötna. Æsir áttu jafngreiðan
aðgang að kalla að þursa- eða jötnameyjum eins og höfðingjar til forna að
griðkonum sínum eða ambáttum. Jötnum voru aftur á móti allar bjargir
bannaðar að þessu leyti og minna helst á þræla sem samkvæmt okkar fornu
lögbók Grágás kembdu ekki hærurnar ef þeir ætluðu sér ekki af í kvenna-
málum og gerðust nærgöngulir við eiginkonur húsbænida sinna. Trúlegt er
að bæði félags- og mannfræðingum þætti sú hliðstæða forvitnileg.
Kveðskapur Óðins um konur er fráhrindandi: „Meyjar orðum/ skyli