Andvari - 01.01.1938, Qupperneq 54
50
Frá óbyggðum II.
Andvari
Vesturhluti Ódáðahrauns greinist í tvennt: Útbruna og
Frambruna. Útbruninn er helluhraun að mestu og grá-
leitt til að sjá, en Frambruninn er aftur apalhraun, úfið
og dökkt. Hann er yngri en Útbruninn.
Eftir 1V2 stundar ferð, komum við að Svartárkoti. Það
er syðsti bær í Þingeyjarsýslu og stendur á vesturbakka
Svartárvatns sunnarlega, með útsýni opið til öræfa, en
lokað til hafs, þvi að lágar hæðir liggja norður þaðan
og vestur. Svartá fellur úr vatninu sunnan við bæjar-
vegginn og klýfur túnið í tvennt. Göngubrú er yfir hana,
og bakkar grónir niður að vatni. Svartárvatn er uppi-
staða við Útbruna, á að gizka 21/2 ferkílómetri að flat-
armáli og mestallt mjög grunnt. Silungsveiði er þar
nokkur. Sagt er mér, að Einar heitinn í Reykjahlíð hafi
flutt þangað Mývatnssilung, þegar hann bjó í Koti, til
þess að kynbæta silungsstofninn, sem fyrir var, og síðan
stundað þar klak um hríð, fyrstur manna á landi hér, að
ég hygg. Talið er, að við þetta hafi veiðin aukizt og
silungurinn batnað til muna.
Sunnan við Svartárkot hverfur gróður og taka við
roksandshólar fyrst, en síðar Suðurárhraun. Það er kvísl
úr Ódáðahrauni, sem fallið hefir til norðvesturs og nið-
ur í Bárðardal. Suðurá rennur eftir hrauninu norðarlega
og skiptir því í tvennt eftir aldri og gerð. Norðan við
hana er gamalt hraun og greiðfært, og telst það til Út-
brunans, en sunnan árinnar hefst meginhraunið. Það er
hluti af Frambrunanum,yngra og úfnara. Suðurá kemur
upp langt austur í hrauni, þar sem heita Suðurárbotnar,
og rennur meðfram brún yngra hraunsins ofan í Bárð-
ardal. Svartá fellur aftur niður með eldra hrauninu að
norðan, og er skammt milli ánna, unz þær sameinast
suður og vestur frá Svartárkoti. Suðurá er miklum mun
vatnsmeiri. Heitir þó Svartá eftir það, að árnar koma