Menntamál - 01.04.1956, Blaðsíða 27
MENNTAMÁL
21
skriftinni sem þeim hafði yfirsézt við fyrstu athugun.
Þar með var þrautin unnin og dæmið auðleyst. Ragnar
hallaði sér aftur á bak, hló hjartanlega yfir unnum sigri,
að það var uppskriftin en ekki heilinn sem brást, og sagði:
„Það hlaut að vera eitthvað bogið við þetta, það stóð allt
fast, heilinn í mér var alveg að þorna upp.“ — En sá
nemandi Ragnars sem kvartaði óþarflega undan því að
námið væri þungt, fékk það svar að hann skyldi bara
fjölga heilafellingunum, þá gengi honum betur.
Stundaskrá var engin, en í upphafi vetrar var skoðuð
síðasta kennsluskrá skólans sem próf skyldi þreytt við,
og áætlun gerð hversu löngum tíma skyldi varið til hverrar
námsgreinar. Það var sem sé vani okkar að taka ekki
nema eina grein fyrir í senn og alls ekki fleiri en tvær.
Þá byrjuðum við kannski á dönsku, lásum hana af kappi
í einn mánuð eða tvo eftir þörfum, síðan t. d. þýzku næsta
skeið, og þannig hvað af öðru. Þyngri greinarnar, svo sem
latínu (stærðfræði fyrir gagnfræðapróf), voru þá helzt
geymdar þangað til síðast, næst prófinu, ef ekki var tími
til að helga þeim tvær yfirferðir. Þótti bæði kennara og
nemendum sem þá mundu vinnubrögð og starfsaðferðir
við þrautir námsefnisins ferskari og sigurvænlegri, er á
hólminn kæmi. Þetta gaf góða raun, og skal ég játa að
síðan hef ég haft trú á að rétt mundi vera að gera til-
raunir með svipaða námstilhögun í skólum, þar sem nem-
endur eru saman komnir fyrst og fremst til að læra eitt-
hvert ákveðið námsefni, svo sem í ýmsum deildum fram-
haldsskóla. Það ætti að vera auðvelt. Við skulum hugsa
okkur skóla þar sem til dæmis danska, enska og þýzka
eiga að vera í þrem bekkjardeildum, fimm stundir á viku
hvert mál. Þá væri fyrsta mánuðinn kennd eingöngu
danska 15 st. á viku í A, enska í B 15 st. og þýzka í C jafn-
toikið. Annan mánuð tæki svo A til við ensku 15 st. á viku,
B þýzku og C dönsku; þriðja mánuðinn hefði svo A þýzku,
B dönsku og C ensku, og þannig koll af kolli. Ég gæti hugs-