Almanak Ólafs S. Thorgeirssonar - 01.01.1952, Blaðsíða 83
ALMANAK 83
víðar. Nokkur síðustu árin, sem hann lifði, áttu þau heima
í Winnipeg, og þar dó hann 1. júlí 1945.
Gíslína var á æskuskeiði fríð sínum, og hún hefur
haldið sínum fríðleik vel til elliára. Hún hefur ætíð verið
hreinlát og snyrtileg, háttprúð í framkomu, lífsglöð og
bjartsýn, og hefur það oft komið henni að góðu haldi.
því stundum, með stóran barnahóp, átti hún undir högg
að sækja. Á fyrri árum var atvinna stundum stopul og
illa launuð, og þó Guðmundur væri listhagur og frábær
verkmaður, þá var hann ekki fjármálamaður. En hvort
sem vel gekk eða móti blés, var Gíslína ætíð lífsglöð og
brosandi. Hún var góð eiginkona og móðir og góður þegn
þessa lands þó hún stæði ekki í fremstu víglínu félags-
lega. Það átti hún bágt með, því hún og heimilið var á
“ferð og flugi” og sjaldan til lengdar í stað. En hvar sem
hún var, eða hvar sem hún fór, lagði hún gott til málanna
og eignaðist fljótt vini. Var hún trygg og vinföst. Nú bvr
hún hjá Láru Webb dóttur sinni í Winnipeg og nýtur
þess bezta, sem lífið getur veitt henni og sem hún verð-
skuldar í kvöldkyrðinni, eftir langan og strangan dag.
Börn þeirra Gíslínu og Guðmundar voru 6, öll á lífi og
öll mannvænleg og vel gefin. Eru þau talin hér eftir
aldursröð.
1. Pálína Aðalbjörg, gift Helga Benson, þau bjuggu
lengi á Gimli, Man. Var hún lengi organisti í báðum ís-
lezku kirkjunum þar. Þau búa nú vestur á Kyrrahafs-
strönd. (British Columbia)
2. Guðrún Sigríður. Hún var lengi skólakennari áður
en hún giftist. Maður hennar var B. Anderson frá Winni-
peg, lék vel á hljóðfæri og stundaði þá list. Þau eru skilin.
Guðrún kom börnum sínum vel til manns. Hún hefur
skipað ábyrgðarstöður í Winnipeg og unnið mikið. Hún
hafði prýðis góða námshæfileika.