Jólabókin - 24.12.1920, Blaðsíða 14
12
sjóðum, þar á meðal hinu allra dýrlegasta: minningunni um
hana, mína elskuðu eiginkonu! — Nei, fljúg þú, gamli
hrafn, út í fjöllin þín; eg vil ekki heyra þitt hása garg !
Og þó -— bætti hann við —, þökk fyrir það, sem þú
hefir sagt! Þú hefir í raun og veru sýnt mér það, að eg
hefi þó eitthvað enn að lifa fyrir, og rækilega mint mig
á þá auðlegð, sem eg á í minningunni um hana, sem
eg nú hefi mist.
Konungurinn rétti öldungnum hendina, en hann sinti
því ekki. Hann sneri í brott, án þess að kveðja og gekk
lotinn, rólegur og samúðarlaus út úr salnum.
Það var eins og dyrunum hefði verið lokað fyrir
áðurnefndum ísköldum dragsúg, — eins og dauðinn
sjálfur hefði horfið úr salnum ásamt með öldungnum.
Mönnum varð léttara um andardráttinn.
Konungurinn einn virtist halda í minningu gamla
mannsins. Hann lét höfuðið hníga aftur niður á hendur
sér. Hann gat ekki gleymt orðum öldungsins — um
jurtirnar, sem visna og blómgast aldrei framar. Hvað er
eiginlega minningin ein, þegar eg á aldrei framar að fá
að sjá hana sjálfa! Hin óttalegu orð um eilífan dauða,
vonleysið í trúnni á framhald lífsins í sambúð með ást-
vinunum, og hræðslan, sem leynist eins og eitur-ormur
í eilífðartrú allra manna, — hann gat ekki slitið þessar
hugsanir úr huga sér. — — —
Þá gekk hirðsiðameistarinn fram fyrir konunginn, laut
honum virðulega og mælti:
Herra minn og konungur! »Förumaðurinn« er hér
staddur. Hann hefir ekki verið kvaddur hingað, en óskar
að mega koma á yðar fund.