Kirkjuritið - 01.04.1977, Side 38
um var það fagnaðarefni að tala um
Drottin sinn og frelsara. Biblían var
honum kærust allra bóka. Þangað
sótti hann kraft og styrk í baráttu lífs-
ins. Áður en ég kvaddi, tók ég upp
Biblíuna mína og las kafla fyrir þau
hjónin. Að því loknu höfðum við sam-
bænastund.
Þeirri stund mun ég aldrei gleyma.
Þarna var maður, sem vanur var að
biðja og kunni það. Hann bað fyrir
mér og starfi mínu, hann bað fyrir
landi og þjóð. Hann bað fyrir bæjar-
félaginu. Hann bað fyrir fiskimönnun-
um á hafinu, fyrir verkafólkinu á sölt-
unarstöðvunum og fyrir prestunum, að
þeir boðuðu orð Drottins hreint og ó-
mengað, svo að þjóðin léti frelsast.
Bæn hans var heit og innileg. Á
þessari stundu knýttumst við órjúfandi
vináttuböndum í Drottni. Þegar við
stóðum upp frá bæninni, tók Jón stóru
Biblíuna sína og þrýsti henni að hjarta
sér og sagði með tárin í augunum:
,,Það er sorglegt, að þjóðin mín skuli
að mestu hafna þessari bók, orði lífs-
ins, gleypa við alls konar villukenn-
ingum og sértrúarkreddum. Guð gefi
henni náð til að snúa við að þessari
uppsprettulind lífsins."
Endurnærður og glaður í anda
kvaddi ég þessi hjón og gekk að starfi
mínu með nýrri djörfung.
Það gefur að skilja, að þarna kom
ég oft mér til mikillar uppbyggingar
og uppörvunar. Hér var sönn ,,Bet-
anía.“
Árin liðu og heilsa Jóns fór versn-
andi. Sumarið 1933 lá hann rúmfastur
allan tímann, sem ég var á Siglufirði.
Ég kom þó oft til hans og las fyrir
hann og bað með honum. Þá var það
eitt sinn, að hann tók stóru Biblíuna
sína og sagði: „Þegar ég fell frá, vil
ég ekki, að þessi bók fari á flæking.
Hún er kjörgripur hjarta míns. Þess
vegna langar mig til að biðja þig að
skrifa fyrir mig framan á hana eins og
ég les fyrir. En það á að vera þannig."
,,Til vinar míns, Jóhannesar Sig-
urðssonar, með kærleikskveðju frá
Jóni Brandssyni."
Hann ætlaði samt að hafa hana hjá
sér, gat ekki án hennar verið.
Jón komst á fætur eftir þetta. En
síðasta sumarið, sem ég var á Siglu-
firði, 1939, lá hann aftur rúmfastur.
Þegar ég kvaddi hann um haustið, tók
hann Biblíuna og fékk mér og sagði
um leið: ,,Nú skaltu fara með þessa
blessuðu bók með þér. Hún er svo
stór og þung, að ég veld henni ekki
lengur."
Jón Brandsson og Kristfn Jóhannes-
dóttir, kona hans, eru bæði löngu lát-
in. Það varð skammt á milli hjónanna.
Sömuleiðis eru þeir Tryggvi Kristins-
son og Gunnlaugur Sigurðsson dánir.
Litla kirkjan á eyrinni er horfin, en stór
kirkja hefur verið reist í hllðinni fyrir
ofan eyrina.
Prestaskipti hafa orðið nokkrum
sinnum, síðan Jón Brandsson leið, og
margvíslegar breytingar átt sér stað.
En eitt hefur þó ekki haggazt, heldur
staðið óbifanlegt og öruggt í hverful-
leika tímans. Það er Guðs orð.
Biblían hans Jóns Brandssonar er
mér sérstakur helgidómur. Hún vitnar
um mann, sem í hafróti og stormum
lífsins hafði Guðs orð ,,að leiðarsteini
í stafni“ og þess vegna náði heim I
þá höfn, sem hjarta hans þráði.
Frásögn þessi var áður birt í Bjarma.
36