Gripla - 01.01.1984, Síða 105
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
MOSTUR OG SÆLA
(GREIN ÞESSI ER AÐ STOFNI TIL ERINDI SEM VAR FLUTT Á NÍUNDA
VÍKINGAÞINGINU Á MÖN, 12. JÚLt 1981.)
Hjá öllum þjóðum eru og hafa verið til menn sem ekki hafa fundið sér
annað þarfara að gera en að safna vitneskju um löngu liðna atburði og
horfnar kynslóðir, og víðast hvar hefur þeim verið leyft að fást við þessa
óarðbæru iðju og jafnvel borgað eitthvað fyrir það. Mannskepnunni
virðist vera eðlislægt að vilja vita um upphaf sitt og hvernig áður var.
Jörðin geymir minjar um amstur þeirra sem hafa lifað á undan okkur:
leifar af húsum, vegum, brúm, skipum og allskonar mannvirkjum, verk-
færi, vopn og klæði og hitt og þetta annað, sem ýmislegt má ráða af um
það fólk sem skildi þessar leifar eftir sig. Gamalt letur, þótt ekki sé nema
lítil rista á steini, gefur ofurlitla glætu inn í hugskot þess sem letrið lét
rista og brúar margra alda bil milli kynslóða. Allt það sem okkur langar
að vita um forfeður okkar, hvaðan þeir komu, hvemig þeir voru og hvað
þeir gerðu, reynum við að finna með því að athuga leifar sem þeir hafa
skilið eftir sig í jörð eða með því að lesa það sem um þá er skráð á
steinum, á tré eða í bókum. Vitneskju þá sem okkur tekst að skrapa
saman um löngu liðna tíma köllum við sögu eða sagnfræði. En sagan
vill verða gloppótt: Enda þótt jörðin hafi geymt miklar leifar af handa-
verkum löngu liðinna kynslóða er hitt þó margfalt meira sem hefur
molnað og rotnað; rúnasteinar hafa brotnað og týnst, bækur hafa
brunnið eða fúnað eða verið rifnar í sundur og notaðar til einhverra
þarflegra hluta, svo sem í band á nýjar bækur, raunar oftast verri en þær
gömlu, eða í skó eða í snið. Allt er þetta eðlilegt, og við sættum okkur
við það eins og hvert annað náttúrulögmál. En saga er meira en frá-
sagnir af liðnum kynslóðum; sagan gerist í tíma og rúmi, atburðir hafa
átt sér stað á ákveðnum stundum og á ákveðnum stöðum. Eins og ég
sagði áðan er eðlilegt að frásagnir af atburðum gleymist og glatist, jafn-
vel þótt þær hafi einhvern tíma verið skráðar, en sjálft sögusviðið, stað-
irnir þar sem atburðir hafa gerst, ætti þó að varðveitast.
Svo sem kunnugt er tóku Norðurlandamenn við kristni á 10. og 11.