Gripla - 01.01.1984, Side 120
116
GRIPLA
leikreglur fyrirlestrar af þessu tagi leyfa ekki annað og bið ég ykkur
velvirðingar á því. Að sjálfsögðu byggist þessi rannsókn á víðtækum
textalestri og væri því auðvelt að fylla fyrirlesturinn með tilvitnunum
og tilvísunum, en þá yrði hann því miður allt of langur.
Með orðinu formgerð á ég hér við nokkur grundvallarlögmál, ytri og
innri, meðvituð eða ómeðvituð, sem frásögn byggist á. Þessi lögmál ná
að minnsta kosti til sex þátta, en þeir eru: 1) tímaskyn, 2) reglur um
staðsetningu, 3) hugmyndir um söguhetju eða aðalpersónu, 4) skipan
frásagnarinnar, það er að segja uppbyggingin stricto sensu, 5) stefja-
gerðin sem er að baki frásagnarinnar, það er að segja tilgangur höfund-
ar, hvort sem hann er dulinn eða yfirlýstur, og þess vegna einnig 6)
heimsskoðunin sem af henni leiðir eða hún tjáir. Með því að rannsaka
þessi atriði tel ég að hægt sé með góðum rökum að sýna fram á eins
konar ættartölu, þar sem heilagra manna sögur og sagnfræðirit (til
dæmis Martinus saga og Veraldar saga) geta af sér á stuttum tíma kon-
ungasögur, samtíðarsögur og íslendingasögur. Þá er enn einu sinni
komið að hinu erfiða vandamáli bókmenntasköpunar.
Ég ætla ekki að segja hér neitt um það sem sagnfestukenningin hefur
lagt til málanna og læt mér nægja að vísa til rannsókna Liestpls og
lærisveina hans og þeirra ‘epísku lögmála’ sem þeir hafa skilgreint. Ég
mun ekki fjalla um þá kenningu að sögurnar séu eins konar uppfylling
í óbundnu máli til að skýra skáldakvæðin. Það er heldur ekki tilgangur
minn hér að tala um hlutverk æítartalna, sem var að nokkru leyti af
trúarlegum rótum runnið, um það millistig milli áttvísi og sagna sem
landnámabækur og þættir eru, né um hlutverk laganna, sem einnig voru
talin heilög á heiðnum tíma. En þegar þessu öllu er sleppt, er eftir
heildarbyggingin, rökrétt skipun efnisins, það er að segja samsetning
sögunnar sem vel er löguð. Jafnvel minni háttar sögur bera vitni urn
það að á pennanum hefur haldið athugull meistari sem setti ekki fram
af handahófi það efni sem hann hafði safnað víðsvegar að.
Hins vegar er ekki hægt að efast eitt andartak um mikilvægi kirkj-
unnar sem flutti með sér og breiddi út volduga bóklega menningu. Það
var kirkjan sem kenndi Norðurlandabúum að skrifa, með því að gefa
þeim stafróf, með því að koma þeim í kynni við auðugar bókmenntir,
með því að vekja með þeim löngun til að afrita, líkja eftir, setja saman
og semja. Ég get vel fallist á að þannig hafi hún í rauninni gert íslend-
ingurn fyllilega ljóst hvað í þeim bjó, hvað þeir gátu. En hún gerði
meira en að kenna mönnum eða hvetja þá til dáða. Hún vann sannar-