Gripla - 01.01.1984, Page 131
VITA - HISTORIA - SAGA 127
því en rísa ekki gegn því. Þau hafa jafnvel sjálfviljug valið að hlýða
þessu afli til að leiða það í ljós.
Af þessum ástæðum fylgir uppbygging sagnanna mjög skýrum og
ákveðnum reglum. Ég hef á öðrum stað reynt að sýna fram á það
varðandi Eyrbyggju, Haralds sögu Sigurðarsonar í Heimskringlu og
Njálu. Undanfarna tvo áratugi hafa miklar rannsóknir verið gerðar til
þess að skilgreina frumeiningar verkanna, reglur um samsetningu,
reglur um gerð verkanna, samtöl og uppbyggingu og jafnvel þær stefnur
sem líklegt er að hafi legið að baki þessari bókmenntasköpun. Um þetta
ætla ég ekki að fjölyrða. Ég læt mér nægja að benda á að í þessum
atriðum er heldur ekkert gert af tilviljun, greinilegt er að höfundarnir
hlíta ákveðnum reglum, og er einkar fróðlegt að kanna þær þegar við
erum svo heppin að hafa margar ólíkar en hliðstæðar gerðir af sama
textanum, eins og Fóstbrœðra sögu, eða ólíkar útgáfur af sömu per-
sónu, eins og af Ólafi Haraldssyni.
E. O. G. Turville-Petre hefur sagt að kirkjan hafi ekki kennt íslend-
ingum hvað þeir skyldu segja, heldur hvernig þeir ættu að segja það.
Ég er ekki fyllilega sammála þessu: þótt ég hafi farið hér hratt yfir sögu,
benda þessar kannanir mínar til að innihald helgisagna og sagnfræðirita
miðalda hafi einnig sett mark sitt á fornsögurnar.
Að lokum stendur því sá útlendingur, sem fæst við að rannsaka ís-
lenskar fornsögur, frammi fyrir talsverðu vandamáli: enginn hefur
nokkurn tíma efast um frumleika sagnanna, hvorki nú né áður. En ef
svo mörg grundvallaratriði í formgerð þeirra eru komin úr erlendum
bókmenntum við eftirlíkingar, í hverju er þá þessi frumleiki fólginn?
Auðvelt er að sjá við fyrsta lestur að sálarlíf íslenskra sögupersóna, sem
birtist venjulega í orðum þeirra eða athöfnum, er miklu flóknara en
flestar þær stöðluðu manngerðir sem nefndar voru áðan. Gildismat
sagnanna, sem setur á oddinn kraft og athafnir, á ekki nema fáar hlið-
stæður á meginlandi Evrópu á þessum sama tíma, þar sem viðhorfin og
lýsingarnar eru fastmótaðri og kyrrstæðari. Miskunnarlaust raunsæi
mótar allar lýsingar á gerðum manna og kemur einnig fram í því sér-
staka, kaldranalega háði, sem bjargar mörgum atvikum frá því að verða
óbærilega harmsöguleg og útilokar jafnframt allan ljóðrænan, íhugulan
frásagnarhátt. Regla um knappan og jafnvel þurran stíl bægir loks burt
öllu óþörfu orðagjálfri og endurtekningum. í íslenskum fornbókmennt-
um má vissulega finna eftirlíkingar, stælingar, rithnupl og erlend áhrif,