Gripla - 01.01.1984, Síða 137
HVALLÁTUR
133
‘rosmhvals tennur’.9 Árið 1832 var rostungur unninn á fjöru Hánefs-
staða í Seyðisfirði og Páll Melsted sýslumaður spurðist þá fyrir um það
hjá amtmanni og hann síðan hjá stjórninni í Kaupmannahöfn hvort hann
ætti að krefjast tannanna konungi til handa samkvæmt áður nefndri til-
skipun. En það svar barst frá rentukammerinu að það ætlaði ekki að
neyta forkaupsréttarins varðandi þessar tennur.10
Hinar miklu ‘vígtennur’ rosmhvala eru miklu fremur graftól þeirra en
vopn. Með þessum tönnum plægja þeir hafsbotninn í leit að skelfiski og
má geta nærri að þeir hefðu að fornu unað sér vel á skelfisksmiðum
Breiðafjarðar, og vel hefði farið um þessi svefnþungu dýr á óteljandi
skerjum og á fjörum á meðan hér var mannlaust. Friðsæld dýralífs lauk
hér mjög snögglega með komu landnámsmanna. Þeir hafa einkum í
fyrstu lifað mest við veiðiskap. Höfundur Egils sögu hefur lýst vel af
hyggjuviti sínu hvílíkur nægtabrunnur sjórinn var, eyjarnar og fjörurnar:
Skallagrímur lét ‘sækja útróðra og selveiðar og eggver, er þá vóru nóg
föng þau öll, svo rekavið að láta að sér flytja. Hvalkomur vóru þá og
miklar, og skjóta mátti sem vildi; allt var þar þá kyrrt í veiðistöð, er
það var óvant manni. .. Eyjar lágu þar út fyrir, er hvalur fannst í, og
kölluðu þeir Hvalseyjar.’11
Því mun fara fjarri að Eglu-höfundur hafi átt við rosmhvali, þar sem
hann talar um hvalkomur og um fundinn hval í Hvalseyjum. Um hans
daga munu rostungar hafa verið fásénir hér við land og óvíst hvort hann
hefur haft nokkrar sagnir af þeim hér á fyrri tímum. Elsta frásögn af
rosmhval á íslandi er í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar: ‘Atburður sá
gerðist í Dýrafirði á vorþingi, þá er Hrafn var þar, að rosmhvalur kom
upp á land, og fóru menn til að særa hann, en hvalurinn hljóp á sjó og
sökk, því að hann var særður á hol. Síðan fóru menn til á skipum og
gerðu til sóknir og vildu draga hvalinn að landi, og unnu engar lyktir á.
Þá hét Hrafn á hinn helga Tómás byskup til þess að nást skyldi hvalur-
inn, hausfastar tennur úr hvalnum, ef þeir gæti náð hvalinn að landi
fluttan. Og síðan er hann hafði heitið, þá varð þeim ekki fyrir að flytja
9 Kongelige Allernaadigste Forordninger og aabne Breve, 2. Deel. Rapps0e
1778. Bls. 18-19.
10 Bréf rentukammersins til amtmannsins norðan og austan á íslandi 19. jan.
1833. Lovsamling for Island, 10. bind. Kjöbenhavn 1861. Bls. 250-251.
11 Egils saga Skalla-Grímssonar, Islenzk fornrit II bls. 75.
12 Biskupa sögur I. Kaupmannahöfn 1858. Bls. 641.