Gripla - 01.01.1984, Page 150
146
GRIPLA
dansa, eins og hún kemur fram í uppskriftum manna á 19. öld og lítið
eitt á hljóðritum á síðasta skeiði kvæðanna í munnlegri geymd. Vésteinn
dregur fram hlut Austfirðinga í uppskriftum sagnadansa á 19. öld.
Þetta kæmi að ég hygg nokkuð vel heim við þá reynslu sem fengist
hefur af kvæðasöfnun í landinu síðustu tvo áratugi. A Austfjörðum eða
um austanvert landið hefur einna helst verið að leita síðustu leifanna
af sagnadönsum og raunar einnig af öðrum sungnum sagnakvæðum,
eins og t. d. Vinaspegli (Forðum tíð einn brjótur brands), Ekkjukvæði
(Utanlands í einum bý) og Veróníkukvæði (Kveð ég um kvinnu eina).
Hér vantar að vísu tölulega athugun, en svo er að sjá sem þessi og
önnur gömul söngkvæði hafi verið með lífseigasta móti fyrir austan.
Ekki kann ég neina einhlíta skýringu á þessu, en því mætti varpa fram
til íhugunar hvort rímnakveðskapur hefur ekki verið að sama skapi
meiri í sumum öðrum héruðum landsins, og þá einnig veldi ferskeytl-
unnar.
Hverjir fóru með sagnadansa, hvernig var farið með þá og hvenær
var það helst gert? Um þetta eru því miður litlar heimildir frá gömlum
tímum. Skrásetjarar kvæðanna geta þess sjaldnast eftir hverjum þeir
skráðu, og því síður að þeir geti þess hvort kvæðin voru sungin eða flutt
á annan hátt, hvað þá að þeir reyni að skrásetja lögin. Vésteinn rekur
það sem kunnugt er um flytjendur kvæðanna á tímum Árna Magnús-
sonar og eftir hans daga, og er niðurstaða hans að allar líkur bendi til
þess að konur hafi farið með þessi kvæði miklu fremur en karlar. Eftir
því sem segir á bls. 21 eru alls engar heimildir um flytjendur kvæðanna
í handritum frá 17. öld, og er það rétt í sjálfu sér, en þó ætti að mega
líta á það sem marktæka heimild um hlut kvenna á 17. öld, þegar Snæ-
björn Pálsson talar 1708 um fornkvæðakunnáttu áttræðra kerlinga
þegar hann var barn. Og ber þá allt að sama brunni. Konur hafa látið
sér annt um þessi kvæði, og er líklegt eins og Vésteinn telur að þær hafi
stundum raulað þau við dagleg störf innanbæjar, t. d. þegar róa þurfti
barn eða syngja það í svefn. Þó eru ekki um þetta beinar eða óyggjandi
heimildir. En Vésteinn bendir á það á bls. 23 að í Færeyjum þar sem
hliðstæð kvæði eru kveðin fyrir dansi á samkomum hafi það verið
venjulegt að karlarnir kvæðu fremur en konur.
Á bls. 25-29 ræðir Vésteinn líkur á því hvort flytjendur hafi lært
kvæðin og reynt að hafa þau eftir sem líkast því sem þeir mundu eða
hvort þeir hafi með nokkru móti samið kvæðin á nýjan leik í hverjum
flutningi. Það er ugglaust og mætti leiða að ýmis rök að fólk hefur haft