Gripla - 01.01.1984, Blaðsíða 200
196
GRIPLA
um rómantíkurinnar, og vitaskuld greiðlegar eftir að farið var að reisa
norskt ritmál á mæltum mállýskum Norðmanna. Ég held það væri óðs
manns æði fyrir andmælanda minn að reyna að halda því fram að þau
þjóðfræði, sem skrásett voru í Noregi á 19. öld, séu ekki að marki eldri
en uppskriftirnar, og ég sé engin rök til að ætla að fornkvæði hafi þar
neina sérstöðu. Þvert á móti er margt sem bendir til þess að mörg þeirra
eigi sér þar langa sögu að baki í munnlegri geymd.
Hér er þá eðlilegt að víkja að hugmyndum um að amk. mikill hluti
kvæða af köppurn og tröllum, sem efnislega tengjast mörg íslenskum
bókmenntum, séu vestur-norræn, oftast norsk, stundum færeysk, að
uppruna. Ekki er hægt að segja að andmælandi sé sérstaklega nákvæm-
ur, þegar hann eignar Norðmönnum kenninguna um að flokkurinn sem
heild sé af vesturnorrænum uppruna (hér bls. 171), því að það var landi
hans, Ernst v.d. Recke, sem lagði grundvöllinn að þessari kenningu, þótt
Norðmenn og Svíar hafi síðan tekið hana upp á sína arma. Ákaflega
margt mælir með þessari kenningu og hún hefur verið viðurkennd um
langt skeið, en þó er líklegt að menn hafi haft tilhneigingu til að alhæfa
um of út frá henni. Sjálfsagt þarf hún endurskoðunar við, en það er
augljóst að þá endurskoðun verður að byggja á öðru en aldri elstu
handrita, sem andmælandi virðist vilja miða við. Hins vegar þykir mér
líklegt að á grundvelli aukinnar þekkingar á málssögu mætti ná nokkr-
um árangri með könnun á máli elstu handrita. Engin ástæða var hins
vegar til að fara inn á þetta svið í riti mínu, en ég er sannfærður um að
ómögulegt verði að hrekja kenningar um að ýmis þeirra kappakvæða,
sem snemma eru skráð í dönskum og sænskum kvæðabókum, séu upp-
haflega norsk.
Ef menn vilja gera ráð fyrir að þjóðkvæði hafi lifað um eitthvert
skeið, jafnvel nokkrar aldir, í munnlegri geymd áður en þau voru fest
á blað, er eðlilegt að þeir séu krafðir svara við ákveðnum spurningum.
Eftir að hafa hlýtt á ræðu 2. andmælanda er mér ljóst að sú fyrsta
verður að vera: Er yfirleitt hugsanlegt að slíkt geti gerst, eru einhver
dæmi til slíks? Þegar ég setti saman bók mína hélt ég að svarið væri
svo augljóst að ekki þyrfti að ræða þetta sérstaklega. Þar hefur mér
skjátlast. Ég held þó að allir, sem lagt hafa stund á þjóðfræði, yrðu mér
sammála um að svarið hljóti að verða játandi. Dæmi, þar sem engar
aðrar skýringar virðast koma til greina, eru legíó, en ég skal taka eitt,
valið algerlega af handahófi. í Hauksbók frá fyrstu árum 14. aldar er
kýrgátan alþekkta: Fjórir hanga, fjórir ganga. Finnski þjóðfræðingurinn