Gripla - 01.01.1984, Page 204
200
GRIPLA
mun því halda fram svari mínu með sama húmorleysi sem hingað til
og leiða hjá mér allar freistingar til að vitna í Holberg.
Ég er sammála andmælanda mínum um að fornkvæði hafi staðið í
blóma í Danmörku á 16. öld þegar skrásetning þeirra hófst, hafi notið
hylli aðalsins og sjálfsagt að einhverju leyti verið frumkveðin meðal
þeirrar stéttar. Um það virðist mér varðveittir textar bera fullgilt vitni.
Að öðru leyti tel ég kenningu hans fjarstæðukennda og ónothæfa til að
skýra fyrirbærið fornkvæði, eins og það birtist okkur í varðveittum
textum. Um þetta mætti skrifa langt mál, en hér er ekki hægt að gera
meira en að tæpa á meginatriðum, sem sum hafa þegar komið fram.
Þegar byrjað er að skrifa kvæðin á 16. og 17. öld eru þau þegar til
í mörgum afbrigðum. Vedel steypir oft saman fleiri gerðum en einni í
texta sínum og enn aðrar eru varðveittar í handritum. Bæði þetta atriði
og stíllinn á kvæðunum bendir eindregið til að þau eigi sér að baki líf
í munnlegri geymd meðal fólks sem ekki hafi verið jafnhandgengið
rituðum textum og danskur háaðall á 16. öld hlýtur að hafa verið.
Einstök kvæði geta vitaskuld verið undantekningar og til orðin með
svipuðum hætti og andmælandi gerir ráð fyrir. Efnisleg tengsl kappa-
kvæðanna við íslenskar fornbókmenntir er torvelt ef ekki ómögulegt að
skýra með þessum hætti. Annars læt ég fúslega öðrum eftir að fást við
hina gömlu dönsku kvæðageymd.
Meginatriði fyrir mig er að útbreiðsla og einkenni sagnadansa meðal
almennings á Norðurlöndum, og þá umfram allt á hinu vesturnorræna
svæði, er í hrópandi mótsögn við kenningar andmælanda míns. Vissu-
lega bárust kvæðabækur Vedels og Syvs víða (þótt Syv virðist hafa haft
sáralítil áhrif á Islandi), en afbrigði, sem frá þeim eru runnin eða sýna
einhver áhrif frá bókum þeirra, eða frá öðru prenti, eru að jafnaði
auðþekkt og hafa útgefendur og aðrir sem um kvæðin fjalla bent á fjöl-
mörg dæmi þess. Þessi áhrif ná aðeins til lítils hluta varðveittra afbrigða
og veita enga skýringu á hinum miklu samsvörunum vesturnorrænna
afbrigða sem ég rek í bók minni. Kvæðabók Vedels barst til íslands á
17. öld og Gissur Sveinsson, sá sami sem fyrstur safnaði íslenskum
fornkvæðum, skrásetti og þýddi etv. sjálfur íslenska gerð af fjölmörgum
kvæðum Vedels. Nokkur dæmi eru um að þau hafi breiðst út og verið
skrifuð eftir munnlegri geymd. Þessi Vedelsafbrigði eru auðþekkt úr
eiginlegum íslenskum fornkvæðum. Þau fylgja Vedel svo nákvæmlega
að enginn vafi getur leikið á uppruna þeirra, og stíllinn er frábrugðinn
stíl annarra íslenskra fornkvæða. Niðurstaða mín af athugunum á þess-