Gripla - 01.01.1984, Page 219
HVÖNNIN í ÓLAFS SÖGUM TRYGGVASONAR
215
Geitar hvanna grimm rót
galar hátt í Snóksdal,
heyrðust hennar heimsk orð
hörð, allt í Eyjafjörð;
fimin þessi falsgjörn
fjöllin gjörðu skelfd öll,
drjúgum mest varð digr raust
og dvergmál í Breiðuskál (Biskupa sögur 11,578).
Þessi vísa hefur stundum verið skýrð svo að þar sé vikið að Ingveldi
Árnadóttur fylgikonu Daða og bústýru hans á Sauðafelli,48 en ekki
stenst sú skýring, því að greinilega er átt við Daða sjálfan; hann er
geitar hvanna grimm rót. Það er sennilegt að kenningin hafi verið valin
vegna þess að Daði var kenndur við Snóksdal, en það er erfitt að verj-
ast þeirri hugsun að höfundi og áheyrendum hafi verið kunnugt um að
hvönn var talin auka kyngetu manna eða a. m. k. þekkt lögun rótar-
innar og er þá sneitt gróflega að kvennamálum Daða.
3.
Ljóst er af þessum fróðleik að hvönnin hefur verið þekkt sem lækninga-
jurt um alla norðanverða Evrópu. Það verður ekki séð af heimildunum
hvort sá átrúnaður sem menn höfðu á jurtinni við sunnanvert Eystra-
salt og í Þýskalandi sem og norður í Lapplandi sé frá norrænum mönn-
um runninn eða sé upphaflega eins konar finnagaldur meðal norrænna
manna og hafi síðan borist suður á bóginn með þeim. Neysluvenjur
Lappa, íslendinga og Norðmanna á síðari öldum benda til þess að sá
siður að tyggja rótina sé gamall og það hafi meðfram verið gert til þess
að hreinsa tennurnar.49 Sé þetta haft í huga skilst orsakasamhengið í
48 Þá skýringu er að finna neðanmáls í Biskupa sögum II, 578 og er þar vísað
til Espólíns (Ættartölubók 5318), sem segir vera sneitt að Daða og fylgikonu
hans. Hannes Þorsteinsson telur erindið þó vera ort um Daða, sbr. Annátar II, 61.
Steindór Steindórsson telur vísuna eiga við fylgikonu Daða, sbr. Islensk plöntu-
nöfn, 28.
49 Mér hefur ekki tekist að rekja til erlendra lækningabóka þann fróðleik sem
fram kemur í Stock. Papp. fol. nr. 64 og Jón Eggertsson eignar Jóni Guðmunds-
syni lærða og fólginn er í lækningu tannverks. Simon Paulli telur t. d. gott að
tyggja hana gegn andremmu, sbr. Lœgeplanter og trolddomsurter eftir Harald
Nielsen (Kþbenhavn 1969), 233. Það er hugsanlegt að læknisráðið sé upphaflega
norrænt. Þetta efni er ókannað og benda má strax á að Jón lærði virðist kannast