Gripla - 01.01.1984, Síða 238
234
GRIPLA
enda er því ekki lokið. Hver atburðurinn rekur annan og eru þeir aðeins
lauslega tengdir innbyrðis. Það er Parceval sem heldur frásögunni sam-
an. Annað hvort er hann sjálfur viðstaddur eða aðrir tala um hann.
Þýðanda er í mun að láta Parceval einan um að bera uppi söguna og
gætir hann þess vandlega að annað sé ekki látið skyggja á Parceval,
hvorki persónur né langdregnar lýsingar. Þetta kemur skýrast í ljós
þegar hann þýðir ævintýri Valvers, því að hvergi, nema í upphafi, styttir
hann frásöguna eins mikið og þar. En einnig ber á því á fleiri stöðum,
m. a. þegar hann rekur frásöguna af graalnum og fellir brott lýsingar
sem gætu dregið athyglina frá Parceval og graalskrúðgöngunni.
Þýðingin er nákvæmust: 1) Þegar Parceval kemur í fyrsta sinn til
hirðar Artús konungs og sýnir af sér vankunnáttu bæði í vopnaburði og
góðum siðum. 2) Þegar Parceval er í námi hjá Gormans og lærir góða
siði og að bera vopn. Þessar tvær frásögur eru þýddar næstum ljóðlínu
fyrir ljóðlínu. Má af því ráða að þýðandi líti svo á að námið, sem eyðir
vankunnáttunni, sé öxull frásagnarinnar er allt annað snýst um. Að
minnsta kosti vill hann gera hlut þess sem mestan. Og þess vegna leggur
hann áherslu á andstæðurnar vanþekking/þekking.
Parceval þiggur ýmis góð ráð af Gormans, en líka af móður sinni.
Skulum við þá snúa okkur að upphafi sögunnar, sem er lítið annað en
daufur ómur af kvæðinu, eins og ég sagði.
Ekki er það útilokað að afritarar hafi skilið eftir sig spor fremst í
sögunni af Parceval. ‘Svá byrjar þessa sögu at karl bjó ok átti sér
kerlingu’. Erfitt er að ímynda sér að þýðandi hafi látið glæsilega ridd-
arasögu byrja svo bögulega, enda ber setningin keim af annars konar
sagnahefð. En það sem gerir setninguna einkum grunsamlega er, að
persónur fá ekki oftar heitið karl og kerling. Þessi setning fylgir úr hlaði
öðrum, sem að efni til eru dálítið óljósar og ruglingslegar og eiga sér
ekki samsvörun í kvæðinu. Þær byggja að því er virðist á upplýsingum
sem fram koma beint eða óbeint skömmu síðar. í þessum fyrstu línum
sögunnar er sagt frá því að Parceval var einbirni og kunni að skjóta
gaflökum, að faðir hans var riddari og móðirin konungsdóttir. Ég tel
líklegt að þýðingin hafi byrjað, eins og kvæðið, á þeim hluta þar sem
segir frá því cr Parceval ríður að heiman á skóg, og að upphafslínurnar
hafi verið skrifaðar af afritara til að frásagan hæfist með kynningu á
persónum og aðstæðum, þeas. á hefðbundinn hátt. Eitt er það sem
styrkir þessa tilgátu. Parceval er nefndur með nafni strax í byrjun sög-
unnar, en eins og fyrr segir þá heldur Chrétien nafni hans leyndu fram