Gripla - 01.01.1984, Qupperneq 274
270
GRIPLA
Á öftustu síðu, 80v, stendur fangamark Brynjólfs biskups Sveinssonar
og ártalið 1641. Árið 1656 sendi Brynjólfur Friðriki III. handritið, en
í Höfn týndist það mjög fljótlega og fannst ekki aftur fyrr en árið 1821,
og þess vegna er það skráð Nks.1
Brynjólfur biskup var mikill reglumaður og hélt miklar bréfabækur,
en þær eru nú glataðar til 1652, en á þeim árum eignaðist Brynjólfur
flest hin fornu handrit sín. Má því búast við, að einhver merkileg vitn-
eskja um feril þeirra handrita ásamt fleiru um bókmenntastarfsemi hans
sjálfs og trúlega annarra, t. d. Hólamanna, hafi glatast þar.
Strax og Brynjólfur hafði fengið handrit Völsunga sögu, eða veturinn
1641-42, fékk hann frænda sinn Torfa Jónsson til að þýða söguna á
latínu. Upphaf þessarar þýðingar er enn varðveitt í AM. 4, fol., en nær
aðeins aftur í 17. kafla sögunnar og endar ofarlega hægra megin á síðu.
Auð blöð eru fyrir aftan, svo að ljóst er, að í það sinnið hefur aldrei
verið þýtt meira.2 Brynjólfur hefur sjálfur leiðrétt þýðinguna á fyrstu
þremur síðunum.
Veturinn eftir fór Torfi Jónsson til Kaupmannahafnar, og í bréfi til
Stephaniusar í október 1642 segir Worm eftir Torfa, að Brynjólfur hafi
hugsað sér, að þessi þýðing á Völsunga sögu kæmi Stephaniusi að not-
um. Jakob Benediktsson taldi, að hætt hefði verið við þýðinguna á
Völsunga sögu vegna þess, að Torfi Jónsson sigldi haustið 1642 og var
utanlands næstu fjögur árin.3 Trúlegt er einnig, að áhugi Brynjólfs á
Völsunga sögu hafi minnkað eftir að hann fékk í hendur handrit Eddu-
kvæða, enda kom það fram í því sem áður var sagt um athugasemdir
hans við seinni útgáfuna á riti Worms, Danica literatura, að Brynjólfur
taldi Konungsbók hafa betri texta af Sigurdrífumálum en Völsunga
sögu.
I Saxaskýringum Stephaniusar, sem komu út í Sórey 1645 og bera
latneska heitið Notæ uberiores, eru ýmsar tilvitnanir í Völsunga sögu;
m. a. eru þar Brynhildarljóð eftir Völsunga sögu, og virðist þar vera
notað handrit orðabókar Magnúsar í Laufási, sem fyrr var nefnt. Aðrar
tilvísanir í Notæ uberiores til Völsunga sögu eru ekki komnar úr heild-
arþýðingu á henni, heldur úr skýringum Brynjólfs biskups á riti Saxa
1 Ur bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. 67, 71. [Kr. Kálund.] Katalog
over de oldnorsk-islandske hándskrifter i det store kongelige bibliotek. Kbh. 1900.
xxxviii-xlii.
2 Bibl. Arn. VII. 417.
3 Sama rit. 361, 522, 417.