Tímarit lögfræðinga - 01.06.1988, Blaðsíða 29
2. ALMENN ATRIÐI.
2.1. GJALDÞROTASKIPTI.
Ef skuldari efnir ekki lögvarða kröfu, sem á honum hvílir, á kröfu-
hafinn þess kost að ganga að honum, t.d. með fjárnámi ef skilyrði 1. gr.
1. 19/1887 eru fyrir hendi, lögtaki ef 1. gr. 1. 29/1885 eða önnur sér-
stök lagaákvæði veita honum heimild til slíks, eða með uppboði án
undangenginnar aðfarar á grundvelli veðsamnings eða lögveðs. Ef
kröfuhafinn hefur ekki aðfararheimild, verður hann að afla sér henn-
ar, oftast með því að knýja fram dóm. Eigi skuldari nægar eignir til
fullnustu þeim kröfum, sem á honum hvíla, veita þessar reglur um sér-
stakar fullnustugerðir kröfuhöfum að jafnaði næga réttarvernd. Að-
staðan breytist hins vegar, þegar eignir skuldara hrökkva ekki til
greiðslu þeirra krafna, sem á honum hvíla. Við slíkar aðstæður verður
réttarstaða kröfuhafa oft mjög óviss og reglan um að „prior tempo
potio juris“, þ.e. sá sem er fyrstur í tíma eigi bestan rétt, leiðir oft til
óviðunandi niðurstöðu. Ef sú regla ætti að gilda, er hætt við að fulln-
usta á kröfum réðist af sjónarmiðum, sem réttarskipanin getur ekki
viðurkennt, svo sem eins og möguleikum kröfuhafa til að þvinga fram
greiðslu í krafti sérstakrar aðstöðu, t.d. þekkingar á fjárhag skuldara,
persónulegum eða hagsmunalegum tengslum kröfuhafa og skuldara
eða afstöðu skuldara til kröfuhafa að öðru leyti. Til að hindra slíkt
óvissu- og ófremdarástand eru reglurnar um gj aldþrotaskipti. Gjald-
þrotaskipti er sameiginleg fullnustugerð allra þeirra kröfuhafa, sem
eiga kröfur á skuldara við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti
og lýsa þessurn kröfum sínum með réttum hætti í búið, eða eiga á
grundvelli 111. gr. gjaldþrotalaga rétt til úthlutunar af eignum búsins.
Reglum gjaldþrotalaga er að meginstefnu til ætlað að veita kröfuhöf-
um jafnan rétt við úthlutun eigna búsins. Meginreglan er því jafn-
ræði kröfuhafa til þeirra verðmæta, sem úthlutað er. Frá þessu eru
undantekningar í 82.—84. gr. skiptalaga nr. 3/1878, en þessar undan-
tekningar mæla fyrir um sérstakan betri rétt tilgreindra krafna í búið,
og eiga kröfur þessar að fá fullnustu í ákveðinni röð, áður en nokkuð
kemur til greiðslu svonefndra almennra krafna.
2.2. RIFTUNARREGLUR GJALDÞROTALAGA.
2.2.1. Almenn atriði.
Riftunarreglur gjaldþrotalaga eru settar til að tryggja það, að mark-
mið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun eigna búsins náist.
91