Tímarit lögfræðinga - 01.02.1995, Page 97
til þess að tjónþolar urðu stórum betur settir en þegar sakarreglunni var beitt
með venjulegum hætti.33 Með dómafordæmum ruddi hlutlæg ábyrgðarregla
sér smám saman til rúms.34
Hér má nefna þessi dæmi:
Hæstaréttardómar 1933-34, bls. 457.
E vann við að afferma vörubifreið G. Fyrir aftan bifreiðina var vörustafli og stóð
E ásamt samverkamönnum sínum milli hans og bifreiðarinnar. G setti bifreiðina í
gang með sveif og við það kipptist hún afturábak og rakst á E sem lézt við höggið.
I dómi Hæstaréttar sagði að G hefði ekki sannað að slysið hefði hlotið að vilja til
þótt hann hefði sýnt þá aðgæzlu og varkárni er honum sem ökumanni hefði verið
skylt að gæta. Var hann því dæmdur til að greiða ekkju E skaðabætur.
Þótt sakarlíkindaregla bifreiðalaga sé lögð til grundvallar þessari niðurstöðu
virðist G í reynd talinn bera hlutlæga ábyrgð.
Hæstaréttardómar 1955, bls. 561.
B ók bifreið sinni upp Bankastræti í Reykjavík. S hljóp skyndilega frá syðri gang-
stétt í veg fyrir bifreiðina utan afmarkaðrar gangbrautar og á milli bifreiða sem þar
stóðu kyrrar. Varð hann fyrir bifreiðinni, féll í götuna og meiddist mikið. I bótamáli
sem S höfðaði gegn B var niðurstaða Hæstaréttar sú að B hefði gefizt mjög naumur
tími til viðbragða, en þegar litið væri til hemlafara sem virtust 3 til 3,5 m á lengd
eftir framhjól, far eftir vinstra afturhjól rúmir tveir metrar, en ekkert eftir hægra
afturhjól, þótti ekki í ljós leitt að B hefði ekki getað afstýrt slysinu að einhverju
leyti ef hann hefði sýnt fulla aðgæzlu, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 23/1941. Sam-
kvæmt þessu varð niðurstaðan sú að B var dæmdur til að bæta S 1/5 hluta tjóns
hans.
Hér virðist liggja nærri að B sé talinn bera hlutlæga bótaábyrgð.
Hæstaréttardómar 1958, bls. 112.
Steinn kastaðist frá afturhjóli vörubifreiðar í stóra rúðu og braut hana. T, eigandi
bifreiðarinnar og stjómandi, var að flytja á brott uppgröft við húsið á vegum eiganda
þess. I héraðsdómi var sú sýknukrafa T ekki tekin til greina að tjónið hefði orðið
þótt T hefði sýnt fyllstu aðgæzlu við aksturinn. Þar sem meiri eða minni möl hafi
verið kringum bifreiðina og gatan malbikuð hefði mátt búast við að steinar kynnu
að hrökkva undan hjólum, einkum þegar hjólið sem hefði verið uppi á gangstéttinni
33 Theodór B. Líndal: Nokkrar athugasemdir við 34. gr, bifreiðalaga nr. 23, 16. júní 1941. Úlfljótur,
tímarit laganema 1, 3. tbl. (1947), bls. 5.
34 Alþingistíðindi 1956 A, þskj. 258, bls. 488.
91