Hugur - 01.01.1991, Blaðsíða 61
HUGUR
Árni Finnsson
59
lýsingu verður í fljótu bragði ekki séð neitt sem ekki kemur heim og
saman við daglega reynslu okkar af tungumálinu og almennar
hugmyndir um það.
En hvað er það nákvæmlega sem felst í þessari lýsingu? Hvað má
af henni ráða um það hvernig merking á sér stað í tungumálinu?
Hvernig er aðgangi okkar að þessari merkingu háttað? Hvernig er
hægt að gera grein fyrir samsvörun á milli merkingar og staðreynda?
Ef okkur á að takast að gera grein fyrir því hvernig tungumálið
virkar, eða að móta kenningu um merkingu, þá virðumst við þarfnast
svara við spurningum sem þessum. Af lýsingunni hér að framan
verður hins vegar fátt ráðið um þessi atriði. Heimspekingar hafa um
langan aldur verið ólatir við að reyna að ráða bót á þessu, og hafa
margir þeirra reynt að auka við þessa lýsingu eða betrumbæta hana á
annan veg, og móta þannig kenningu um merkingu.
Segja má að kenning Quines, sem hér verður rakin, snúist að
mestu leyti um að vefengja hversdagslegar hugmyndir manna um
tungumálið. Þá fá kenningar fyrirrennara hans í þessum fræðum
einnig sinn skerf af gagnrýni. Þó svo að ekki séu allir á einu máli
um gildi kenninga hans er sennilega óhætt að segja að honum takist
býsna vel að varpa rýrð á þessar hugmyndir — honum tekst í það
minnsta að sýna fram á að hugmyndir þessar eru fjarri því að vera
eins einfaldar og auðveldar viðureignar og ætla mætti. Framlag
Davidsons í þessum efnum er með nokkrum öðrum hætti en Quines,
þar sem hann reynir að gera grein fyrir þeim skilyrðum sem setja
verður kenningu um merkingu í tungumáli og síðan leitar hann leiða
til að móta kenningu sem uppfyllir þau skilyrði. Hann glímir við
mörg af þeim vandamálum sem Quine bendir á og telur sig leysa úr
ýmsum þeirra, eða í það minnsta komast fram hjá þeim þannig að
þau standi merkingu ekki fyrir þrifum. Á endanum kann jafnvel að
mega sjá í kenningum hans mynd af tungumáli og merkingu, sem
ekki er ýkja frábrugðin hversdagslegum hugmyndum manna í þessum
efnum, þótt hún sé sett fram á nokkuð annan veg. Því má segja að
kenning Davidsons sé að nokkru leyti framhald á kenningum Quines
og að nokkru leyti svar við þeim. Davidson neitar því þó alfarið að
hann sé í einu eða neinu að andmæla Quine.