Hugur - 01.01.1992, Side 14
12
Kristján Kristjánsson
HUGUR
skýrt því að hún gerir ráð fyrir að ásetningurinn verði að vera liður í
orsakakeðjunni sem leiddi til hindrunarihnar í upphafi.
Það er af þessum orsökum sem ég hef lagst á sveif með þriðju
kenningunni um rétta skilgreiningu neikvæðs frelsis — sem kalla
mætti ábyrgðarkenningu. Hún er tiltölulega nýleg og hefur því ekki
verið rökstudd til hlítar ennþá. Þar er akur sem gaman er að plægja.10
Ábyrgðarkenningin gengur út á að aðili B skerði frelsi A til að gera x
þá og því aðeins að B beri siðlega ábyrgð á þeim hindrunum sem
vama A að framkvæma x. Við sjáum hvemig þetta ber í báða bresti
ætlunarkenningarinnar. Ábyrgðarkenningin getur auðveldlega gert
grein fyrir frelsisskerðingum í krafti vanrækslu eða hugsunarleysis,
t.d. fálminu í seinheppna gangnamanninum í dæminu áðan, er losaði
um stein í hugsunarleysi. Og sá sem kemur að lokuðum hellinum ber
auðvitað ábyrgð á því að losa ekki um steininn, sé honum það í lófa
lagið, þótt hann hafi ekki sjálfur velt honum fyrir opið.
Þessir kostir ábyrgðarkenningarinnar hljóta að vega mjög þungt því
að mörg skelfileg frelsisskerðing stafar alls ekki af ásetningssynd
heldur gáleysisvana eða kæruleysi. Tökum t.d. kúgun karla á konum.
Oft á tíðum, kannski oftast, stafar hún ekki af þaulskipulögðu áformi
heldur einföldu hugsunarleysi. Karlarnir hafa ekki lagt málið niður
fyrir sér af skynsemi heldur sætt sig við einhverja alþýðuspeki um að
konur hafi ekki sömu andlegu burði og þeir o.s.frv. Eða tökum dæmi
af mengun sem stórfyrirtæki veidur með starfsemi sinni. Upphaflegi
ásetningurinn er sjaldnast sá að spilla umhverfinu heldur stafar
mengunin af vítaverðu kæruleysi sem menn hafa lært að komast upp
með. En auðvitað getur verið réttmætt að halda því fram að stóriðju-
fyrirtæki skerði frelsi fólks til að anda að sér hreinu lofti, hvort sem
einhver aðili innan þess ætlaði sér það eða ekki. Hér sjáum við kosti
ábyrgðarkenningarinnar í réttu ljósi. Hún skýrir þetta eins og ekkert
sé.
10 Benn, S. I. og Weinstein, W. L. orðuðu ábyrgðarkenninguna fyrstir í grein sinni,
„Being Free to Act, and Bcing a Free Man“, Mind, 80 (1971) — en síðan liafa
ýmsir reynt að útfæra hana, s.s. Connolly, W. E. í The Terms of Political
Discourse, 2. útg. (Oxford: M. Robertson, 1983), Miller, D. í „Constraints on
Freedom", Ethics, 94 (1983) og í bók sinni Market, State, and Community (Oxford:
Oxford University Press, 1989); og svo Benn í A Theory of Freedom (Cambridge:
Cambridge University Press, 1988).