Hugur - 01.01.1995, Page 87
HUGUR
Hugur, heili ogforrit
85
við sjáum að kerfi getur, bæði röklega og í raun, haft mannlega
eiginleika á tilteknu sviði án þess að hafa nokkra íbyggni, ættum við
að geta staðist þessa freistingu. Samlagningarvélin mín hefur
reiknigetu, en enga íbyggni, og í þessari grein hef ég reynt að sýna
fram á að tiltekið kerfi getur haft inntak og úttak sem er samskonar og
hjá innfæddum Kínverja án þess þó að skilja neina kínversku, hvernig
svo sem það hefur verið forritað. Turingprófið er dæmigert fyrir
ríkjandi hefð sem hefur verið óhóflega höll undir atferlis- og
aðgerðahyggju og ég er viss um að ef atferlis- og verkhyggja yrðu
endanlega gefnar upp á bátinn í gervigreindarfræðunum, þá yrði
komist hjá miklu af ruglingnum á eftirlíkingu og eftirmynd.
í þriðja lagi tengjast þessar leifar af verkhyggju leifum af
tvíhyggju; það fæst nefnilega ekkert vit í róttæka gervigreind nema að
þeirri tvíhyggjutilgátu gefinni, að þar sem hugurinn sé annars vegar
skipti heilinn engu máli. í róttækri gervigreind (eins og í verkhyggju)
er það forritið sem skiptir máli, og forrit eru óháð því hvernig þau eru
keyrð í vélum. Hvað gervigreind viðvíkur, má raunar keyra sama
forritið í rafrænni vél, kartesískum huga eða hegelskum heimsanda.
Það sem kom mér hvað mest á óvart í þessum rannsóknum er að
mörgum þeim sem vinna við rannsóknir á gervigreind er verulega
brugðið við þá hugmynd mína að raunveruleg hugarfyrirbæri geti
oltið á raunverulegum eðlis- og efnaffæðilegum eiginleikum raunveru-
legra heila. En stundarumhugsun ætti að leiða í ljós að þetta hefði
ekki átt að koma mér á óvart; þvi sé ekki fallist á einhverskonar
tvíhyggju á róttæk gervigreind sér ekki viðreisnar von. Takmarkið er
að endurskapa og skýra hið hugræna með því að búa til forrit, en ef
hugurinn er ekki einasta röklega heldur einnig raunverulega óháður
heilanum verður þessu takmarki ekki náð, því forritið er algerlega
óháð því hvernig það er framkvæmt. Án hugmyndarinnar um að
hugurinn sé bæði röklega og raunverulega aðgreinanlegur frá heilanum
- sem er róttæk tvíhyggja - er engin von um að endurskapa megi hið
hugræna með því að skrifa og keyra forrit, þar sem forrit hljóta að
vera óháð heila eða hvaða öðru birtingarformi sem er. Ef hugarferli eru
reiknanlegar aðgerðir á formleg tákn, þá leiðir af því að þau hafa engin
tengsl sem máli skipta við heilann; einu tengslin væru þau að það
vildi einfaldlega svo til að heilinn væri ein af ótal gerðum véla sem
gætu keyrt þetta forrit. Hér er ekki á ferðinni hefðbundin tvíhyggja í