Hugur - 01.01.1995, Page 119
HUGUR
Jörgen Pind
117
Því er ekki að undra að þeir sem hafa lagt slíka útreikninga niður
fyrir sér á seinni árum hafa fengið nokkuð aðra útkomu en von
Neumann. Einn þeirra er stærðfræðingurinn Jacob T. Schwartz (1988)
sem hefur nýlega reynt að reikna svipað dæmi miðað við nýjustu
upplýsingar í taugalífeðlisfræði. Hann kemst að því að heilinn
framkvæmi um 1021 aðgerðir á sekúndu (en ekki 14 x 1010 eins og
von Neumann áætlaði).
En þessir útreikningar sýna líka að samlíking tölvu og heila að
þessu leytinu er ekki sérlega upplýsandi. Væntanlega fýsir okkur flest
að vita eitthvað um starfshætti taugafrumna, t.d. hvernig taugakerfið
megnar að stilla saman tvær ólíkar myndir sem falla á sjónur
augnanna þannig að úr verði ein mynd með dýpt. Magnreikningar af
því tagi sem von Neumann iðkaði, hvort sem þeir eru réttir í
smáatriðum eða ekki, varpa engu ljósi á slíkar spurningar.
Einn er þó sá þáttur í útreikningum von Neumans sem ástæða er til
að staldra við því þar bendir hann á grundvallarmun sem er á tölvu og
heila. Hann telur fullljóst að heilinn verði að framkvæma útreikninga
sína með mikilli nákvæmni, slíkt sé eðli þeirra verkefna sem heilinn
þurfi að leysa (skynjun, stjórnun hreyfinga o.s.frv.). Rannsóknir hafi
hins vegar sýnt að heilinn skráir upplýsingar, t.d. um styrk áreita,
með tíðni taugaboða. Þessi tíðni sé breytileg á bilinu 50 til 200 boð á
sekúndu. Sú breidd í svörun felur hins vegar í sér afar litla nákvæmni.
Af þessu dregur von Neumann þá ályktun að heilinn beiti
ónákvœmum aðferðum. Slíkt getur reyndar haft sína kosti. í
útreikningum í tölvu má yfirleitt engu muna til að útkoman verði
ekki rétt. Þessu er vitaskuld allt öðru vísi farið um heilann, hann
getur starfað eðlilega þrátt fyrir ótrúlega breytileg ytri skilyrði.
Niðurstaða von Neumans er því sú að vissulega beri taugafrumur svip
stafrænna rása en starfshættir heilans séu hins vegar að verulegu leyti
frábrugðnir starfsháttum tölvu.
í ljósi þessa er ekki að undra að þegar menn fóru fyrst af alvöru að
huga að möguleikum gervigreindar, að gæða tölvur skynsamlegu viti,
varð þeim starsýnt á samlíkingu hugar og hugbúnaðar frekar en heila
og vélbúnaðar. Sálfræðileg sjónarmið komu þar verulega við sögu.