Hugur - 01.01.1995, Side 128
126
Jörgen Pind
HUGUR
og tölvur eru samkvæmt skilgreiningu táknvélar, þá sé óyggjandi að
tölvur hugsi í raun og veru, rétt eins og menn.
Searle tekur sem dæmi um slíkt forrit eitt af málskilningsforritum
Schanks (1975) sem að mati Schanks getur sett sig í spor
viðskiptavina á hamborgarastöðum í Vesturheimi. Forritið fær sögu
eins og þessa til að glíma við: „Jón fór á hamborgarastað.
Hamborgarinn var viðbrenndur svo hann yfirgaf staðinn án þess að
borga“. Ef forritið getur svarað því til að líklega hafi Jón ekki borðað
hamborgarann (en um það segir ekkert í sögunni) munu talsmenn
róttækrar gervigreindar halda því fram að forritið hafi skilið söguna
þar sem svör forritsins séu skynsamleg og viðeigandi. En hvernig ber
tölvan sig að því að svara þessum spurningum? Jú, tölvan fylgir
einvörðungu skipunum þess forrits sem hún er mötuð á og þar eð hún
er formleg táknvél verður að álykta að skilningur feli einfaldlega í sér
meðhöndlun tákna samkvæmt forskrift.2
Röksemdafærsla Searles leiðir hins vegar í ljós að hér er ekki allt
sem sýnist. Hún er sem hér segir í lauslegri endursögn.
ímyndum okkar að ég sé læstur inni í herbergi og fyrir framan mig
á borði er stafli af blöðum með kínverskum táknum. fmyndum okkur
enn frekar, sem er satt og rétt, að ég kunni enga kínversku og skilji
því ekki táknin fyrir framan mig. Þegar hér er komið sögu fæ ég í
hendur enn einn blaðastaflann með kínverskum táknum en líka blöð
með upplýsingum um það hvernig sambandi táknanna í stöflunum
tveim er háttað. Þessar reglur eru ritaðar á íslensku og ég skil þær.
Þar stendur t.d. eitthvað á þá leið að sé mér rétt blað með krissi og
krassi skuli ég leita að blaði með krassi og krussi í fyrri bunkanum.
Finni ég það sé mér óhætt að láta af hendi eitt af blöðunum í öðrum
bunkanum með krassi, krissi og krissi, en að öðrum kosti skuli ég
bíða eftir næsta blaði að utan. Og viti menn, blöð taka nú að berast
að utan hvert á fætur öðru og ég fletti og hræri í bunkunum tveim,
skila stundum blöðum til baka, stundum ekki, en allt og sumt sem ég
geri er að fylgja reglubókinni góðu.
Nú háttar reyndar svo til, þótt það sé mér með öllu ókunnugt, að
mennimir utan herbergisins, sem hafa afhent mér blöðin og sjá um
að taka við blöðum frá mér, hafa komið sér saman um að kalla fyrsta
2 Þessu hefur svo sem oft verið haldið fram. Nýlegt dæmi er t.d. í bók Bodens
(1990) um „reiknifræði sköpunargáfunnar" þar sem hún segir: ,,[A] word
in a language one understands is a mini-program“. Ég hef gagnrýnt kenningar
Bodens um sköpunargáfuna á öðrum vettvangi (Jörgen Pind 1994).