Dvöl - 01.01.1944, Blaðsíða 72
66
D VÖL
urnar gripu um fingur hans. Folinn hristi höfuðið og virtist hlæja með
sjálfum sér. Jói virti fyrir sér bitnu fingurna. „Sá bítur hraustlega“,
sagði hann hróðugur. Piltarnir hlógu og léttust í bragði. Karl Tiflín
fór út úr húsinu og rölti upp í brekku til að vera einn, því hann var
dálítið vandræðalegur, en Billi Búkk varð eftir. Það var auðveldara að
tala við Billa Búkk. Jói spurði aftur: — „Á ég hann?“
„Auðvitað!" sagði Billi rogginn. „Það er að segja, ef þú hugsar vel
um hann og temur hann rétt. Ég kenni þér það nú. En þú getur ekki
riðið honum á næstunni, þetta er folald enn þá.
Jói rétti aftur út bitnu hendina, og í þetta sinn leyfði Rauður litli
honum að strjúka sér um flipann. „Ég hefði átt að hafa gulrót,“ sagði
Jói. „Hvar fengum við hann, Billi?“
„Keyptum hann á uppboði,“ anzaði Billi. „Það var hrossaprangari í
Salínu sem fór á hausinn og var á kafi í skuldum. Fógetinn var að
selja allt hafurtaskið."
Folinn teygði fram snoppuna og hristi toppinn frá augunum. Jói
strauk honum um flipann og sagði með hægð: „Er líka — hnakkur?"
Billi Búkk hló. „Ég var búinn að gleyma því. Sjáðu hérna.“
í reiðtygjaskemmunni tók hann niður lítinn hnakk klæddan rauðu
færiskinni. „Þetta er reyndar hálfgerður barnahnakkur," sagði Billi
Búkk með lítilsvirðingu. „Hann verður ekki lengi að fara í brúskunum,
en hann var hræódýr.“
Jói þoldi ekki heldur að horfa á hnakkinn, og hann gat ekkert sagt.
Hann strauk fingurgómunum yfir gljáandi leðrið, og eftir langa stund
sagði hann: „Ég er nú samt viss um að hann fer vel á honum.“ Hon-
um kom í hug allt hið dýrlegasta, sem hann þekkti. „Ef ekki er búið
að skíra hann, þá ætla ég að kalla hann Gabílansfjöllin,“ sagði hann.
Billi Búkk skildi tilfinning hans. „Það er nokkuð langt nafn. En að
kalla hann bara Gabílan? Það þýðir haukur. Það væri fallegt nafn á
hann.“ Billi var himinsæll. „Ef þú safnar taglhári, þá gæti ég kannske
fléttað handa þér hárband. Þú gætir notað það í múl.“
Nú vildi Jói fara aftur inn að básnum. „Heldurðu að ég geti teymt
hann með í skólann — til að sýna strákunum?“
Billi Búkk hristi höfuðið. „Hann er ekki bandvanur hvað þá meira.
Það var ekki spauglaust að koma honum hingað. Við máttum hálf
draga hann. Nú er bezt þú farir í skólann.“
„í kvöld kem ég með strákana til að sýna þeim hann,“ sagði Jói.