Morgunn - 01.06.1957, Blaðsíða 49
MORGUNN
43
og bætti við: Hún sér stundum ýmislegt, hún Gunna mín.
Fyrir þrem dögum sá hún, að verið var að bjarga Eyja-
bátnum og skipi þínu á einhverjum ókenndum stað. Var
þar mikið sléttlendi umhverfis, en ekki þekkti hún stað-
inn, enda mun 'hann ekki hér nærlendis.
Stefán kvað lítt að marka slíkar sýnir eða spásagnir
og þá sízt unglings. Vék síðan að öðru, þakkaði góðgerðir
og hélt áleiðis út að Eyjum. Gekk það farsællega.
Þegar til Eyja kom, afhenti Stefán bátinn. Síðan bauð
Loptur bóndi þeim til bæjar. Dvöldu þeir þar nokkra
stund í góðum fagnaði. Þegar Stefán vildi snúa til heim-
ferðar, sást til báts, er stefndi til Eyja. Bað Loptur Stefán
þá að doka við, þar til bátur sá lenti og þeir fengu fregnir
af honum. Væri eigi ólíklegt að báturinn ætti erindi inn
Fjörð og gæti Stefán þá fengið far með honum heimleiðis.
Þetta leizt Stefáni vænlegt og beið hann þess, að bátur-
inn lenti. Gekk hann með Lopti bónda til sjávar á móti
komumönnum.
Þarna voru komnir menn frá Skagaströnd til að til-
kynna björgun á Eyjabátnum og Hrófbergsskipinu ásamt
öllum varnaði.
Voru þetta Stefáni óvænt fagnaðartíðindi, sem nærri
má geta. Kvaðst hann vitja skipanna hið bráðasta og
greiða björgunarlaun að siðvenju. Fór hann brátt til
Skagastrandar og gekk vel heimferðin þaðan, enda vel
menntur.
Þegar nánara var innt eftir björgun skipanna, kom í
ljós, að hún hafði farið fram á sama tíma og sýnina bar
fyrir Guðrúnu Jörundsdóttur að Hafnarhólmi, hinum meg-
in við Húnaflóa.
Þess má geta, að dulrænir hæfileikar hafa verið tíðir
hjá niðjum Gísla í Bæ.
Arngrímur Fr. Bjarnason skrásetti eftir Einari Sigvaldasyni,
Drangsnesi við Steingrímsf jörð.