Morgunn - 01.12.1966, Blaðsíða 69
MORGUNN
147
tímaheimildir um þá eru svo traustar, að eigi verða véfengd-
ar. Frásögn hinnar merku konu, um það, sem fólkið heyrði
í tjaldinu þessa björtu júnínótt, og um það, þegar hún fann
líkin, hefur og vafalaust mótazt svo skýrt og fast í huga
hennar, að engin ástæða er til að ætla, að ekki sé þar rétt
hermt frá í öllum atriðum. Að sjálfsögðu er hægt að halda
því fram, að hér hafi aðeins verið um misheyrn eða ofheyrn
að ræða. Gegn því mælir þó það, að fótatakið heyrðist tví-
vegis, og að í síðara skiptið heyrðu það allir, sem í tjaldinu
voru. Óneitanlega liggur hitt beinna við, að hér hafi hinir
framliðnu, ungu menn verið að gera vart við sig og boðað
það með þessum hætti, að lík þeirra, sem dulizt höfðu sjón-
um manna í full þrjú ár, mundu finnast á heiðinni þennan
bjarta júnímorgun.
Ég er frú Guðnýju Vilhjálmsdóttur þakklátur fyrir að
hafa leyft mér að birta þessa frásögn. Og í því sambandi vil
ég taka það sérstaklega fram, að mér er mjög kært, að fá
sendar skýrar og glöggar frásögur um dulræna reynslu, sem
menn kunna að hafa orðið fyrir, bæði gamalli, en þó eink-
um nýrri. Enda þótt rúm Morguns sé takmarkað, og þar
geti engan veginn birzt allt, sem mér kann að berast um
þau efni, þá mun Sálarrannsóknafélagið eigi að síður varð-
veita þær sagnir. Og þann veg bjargast þær frá gleymsku
og glötun.
Sveinn Víkingur.