Morgunblaðið - 19.04.2009, Blaðsíða 13
13
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19. APRÍL 2009
„Ég held að það hafi kannski
aldrei verið eins auðvelt að
svara þessari spurningu og
núna,“ segir Aðalsteinn
Baldursson, formaður Fram-
sýnar stéttarfélags á Húsa-
vík.
„Við erum nýbúin að halda
fjölmennan aðalfund, þar
sem mætti þverskurðurinn
af fólki, og það mátti glöggt
finna að málefni fjölskyldn-
anna eru brýnust. Flestir eru að kikna undan
mikilli skuldabyrði og koma þarf hjólum atvinnu-
lífsins í gang. Í því sambandi er áríðandi að
bankakerfið fari aftur að virka. Það er algjörlega
frosið og það gerir mönnum erfitt fyrir sem
annars væru tilbúnir í framkvæmdir, en fá engin
lán og enga fyrirgreiðslu.“
Hann segir tvennt brenna sérstaklega á Hús-
víkingum, hvernig opinberri þjónustu muni reiða
af og hvort af álversframkvæmdum verði. „Það
stóð til að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu
með því að færa yfirstjórnina til Akureyrar. Það
átti að færa ríkinu sparnað, en það gleymdist að
það er ekki sparnaður, því kostnaðurinn lendir á
fólki sem þarf að keyra norður til Akureyrar.“
Þurfum að fá fjármagn
inn í landið
Húsavík
Aðalsteinn
Baldursson
– En það stóð ekki til að flytja þjónustuna,
heldur yfirstjórnina.
„Það átti að endurskipuleggja heilbrigðisþjón-
ustuna á öllu svæðinu og þegar ég spurði for-
stjórann hér, þá vissi hann ekki hvernig átti að
útfæra það. En það fylgdi með aukin hagræðing.
Svo er það alvarlegt mál að landsbyggðin er að
verða höfuðlaus, yfirstjórnin færist annað og við
það tapast góðu störfin úr byggðalaginu.“
Aðalsteinn er staddur á Narfastöðum í
Reykjadal þegar samtalið fer fram og segir nóg
að líta þar í kringum sig til að rökstyðja mál sitt.
„Hér sé ég til dæmis tvö öflug fyrirtæki, Lauga-
fisk og Fosshótel, yfirstjórnir beggja fyrirtækj-
anna eru fyrir sunnan.“
Hvað varðar álver á Bakka segir Aðalsteinn að
Húsvíkingar séu spenntir fyrir því.
„Víst erum við hluti af umheiminum og ljóst
að það sem gerist í Bandaríkjunum hefur áhrif
hér, en þegar vorar og ástandið lagast í fjár-
málaheiminum er það vilji mikils meirihluta Hús-
víkinga að hér rísi álver. Ég held að við þurfum á
því að halda að fá fjármagn inn í landið til að
endurreisa atvinnulífið. Margfeldisáhrifin eru gíf-
urleg, því það skapast störf fyrir fólk með alls-
kyns bakgrunn, svo sem hagfræðinga, verkfræð-
inga, lækna, verkamenn og bílstjóra. Svo hefur
verið ráðist í gríðarlegar fjárfestingar í leit að
orku, sem menn hafa fundið og við verðum að fá
arð út úr því.“
„Góð spurning,“ segir Kristján
Leósson, vísindamaður við
Háskóla Íslands. „Brýnast
finnst mér að fólk nái meiri
fókus. Vandamálið er að það
er svo mikið suð – það eru all-
ir uppteknir af sínum hug-
myndum um hvernig eigi að
sigrast á kreppunni. Ég held
að þetta eigi að snúast um að
ná meiri sátt og sameiginlegri
stefnu. Ég hef minni áhyggjur
af því hver hún verður – bara að það sé stefna.“
Kristján segir að til framtíðar litið felist tækifæri
í því að horfa inn á við og treysta innviði sam-
félagsins, fremur en að eyða öllu púðrinu í að
sækja út fyrir landsteinana. „Útrásin hefur sogað
til sín mikið af góðu vinnuafli úr háskólunum og
öðrum greinum. Nú gefst tækifæri til að horfa inn
á við.“
– Hvernig á að standa að nýsköpun?
„Það er aldrei auðvelt að ætla sér að sjá fyrir
nýsköpun eða stýra henni. Það þarf bara að
tryggja að innviðirnir séu í lagi og að það séu ekki
hömlur á fólki – það sé ekki stöðvað í því að reyna
að hrinda hugmyndum í framkvæmd. Ég held að
það sé ekki rétt að ætla sér að sjá framtíðina fyrir
og pikka út sérstök tækifæri. Þau munu spretta af
sjálfu sér ef almenn skilyrði eru fyrir hendi.“
Svo heldur hann áfram þar sem frá var horfið,
að flytja gúmmíhanska og hárnet á milli húsa.
„Það er þetta sem vísindamenn gera,“ segir hann
og skellihlær.
Reykjavík
Kristján
Leósson
Nýsköpun sprett-
ur af sjálfu sér
„Lýðræðið í landinu!“ segir
Áslaug Ingibjörg Kristjáns-
dóttir, skrifstofustjóri hjá
Marz Sjávarafurðum ehf., í
Stykkishólmi. „Að það sé
hlustað á fólk en ekki ruðst
áfram og ekki einu sinni sagt
afsakið ef ekki fer vel, eða að
nokkur geti hugsað sér að
axla ábyrgð. Mér er eiginlega
orðið alveg sama hver það
verður, bara ef það verður
komið fram við okkur eins og manneskjur. Eitt
verði yfir alla látið ganga.
Það er ekkert réttlæti í því til dæmis, að allt það
fólk sem geymdi sparnað sinn í hlutabréfum í
bankanum, og var fullvissað um það af stjórn-
endum og starfsmönnum að þetta væri algjörlega
traust langtímafjárfesting, sé allt í einu á núlli. Hið
sama á auðvitað við um sparnað hjá fjöldanum öll-
um af fólki. Fólk hefur samviskusamlega lagt til
hliðar til að eiga varasjóð þegar það hættir að
vinna eða ef áföll dynja yfir. Þetta fólk grípur nú í
tómt. Það á ekki að hygla einum umfram annan í
þessu frekar en öðru en nauðsynlegt er að mínu
mati að rétta hlut þessa fólk með einhverjum
hætti. Við þurfum að gera þetta þannig að við get-
um verið sæl og glöð í sinni. Við erum öll mann-
eskjur og eigum öll sama rétt á að lifa í þessu landi
og að tryggt sé að við getum lifað sómasamlega.“
Stykkishólmur
Áslaug Ingibjörg
Kristjánsdóttir
Eitt verði látið
yfir alla ganga
„Einhvern veginn finnst mér
að kosningarnar ættu að snú-
ast um það að finna leiðir til
að vinna okkur út úr þeirri
stöðu sem við erum í núna,“
segir Lýður Pálsson, safnstjóri
á Byggðasafni Árnesinga á
Eyrarbakka. „En mér finnst
mjög lítið talað um kosning-
arnar að þessu sinni. Það er
ekki eins mikill spenningur og
verið hefur. Og þeir sem setjast á þing eru ekkert
öfundsverðir af þeirri glímu sem framundan er.“
Lýður segir marga uggandi um hvort þeir haldi
húsi sínu og atvinnu. „Ætti það ekki að vera
keppikefli stjórnmálamanna að sýna fram á að
þeim sé treystandi til að vinna að þessum mik-
ilvægu þáttum hverrar fjölskyldu, húsnæði og at-
vinnu, í ljósi kreppunnar sem er ekki bara hér á
landi heldur í öllum heiminum.“
Varðandi Suðurkjördæmi segir hann sam-
göngur og atvinnumál ofarlega á baugi. „Ég geri
ráð fyrir að stór hluti kjósenda í þessu kjördæmi
vilji hafa góða og breiða vegi til aðalatvinnusvæð-
isins, sem er Faxaflóasvæðið. Sömuleiðis hef ég
orðið var við að það er meiri áhersla á atvinnu-
málin, að efla landbúnaðinn og hvernig sjávar-
útvegi sé best fyrir komið. Rætt hefur verið um
skuldsetningu sjávarútvegsins síðustu mánuði og
sumir hverjir eru uggandi um hag þeirrar at-
vinnugreinar. Svo er, þó að umdeilt sé, vissulega
áhugi á auknum stóriðnaði, til dæmis í Þorláks-
höfn.“
Út frá sínu starfi sem safnstjóri segist Lýður
verða var við að menn telji mikilvægt á kreppu-
tímum að efla menningu, söfnin og menntunina.
„En menn vita ekkert um það hvernig málin
þróast í safnarekstri. Það er þessi óvissa um
framtíðina sem plagar marga.“
Uggandi um húsin og atvinnuna
Eyrarbakki
Lýður Pálsson
„Ég vil ekki sjá það að ganga í
ESB,“ segir Unnur Ingólfs-
dóttir, Nýja-Sjálandi í Gríms-
ey. „Ég vil ekki að allar ákvarð-
anir verði teknar í Brussel. Við
erum búin að hafa of mikið
fyrir því að verða sjálfstæð
þjóð, Íslendingar. Ég vil bara
halda því. Ég skil eiginlega
ekki hvernig þeir ætla að fara
að því að þjóðnýta kvótann og
af hverju þeir vilja afsala for-
ræðinu yfir fiskimiðunum til Brussel.“
Unnur er um borð í ferjunni á leið í land úr
Vil ekki ganga í ESB
Grímsey
Unnur
Ingólfsdóttir
Grímsey þegar samtalið á sér stað. Og það stend-
ur til að kjósa um það í kosningunum eftir viku
hvort Grímsey sameinast Akureyri. „Ég tel okkur
vera mjög heppin, því við þurfum ekki að samein-
ast út af því að við höfum ekki efni á öðru – hrepp-
urinn er ekkert á hausnum. En ég veit ekki hvernig
kosningin fer. Af hverju ættu Akureyringar að sam-
einast okkur? Ef ég á að segja þér eins og er, þá er
mér alveg sama, ég sé ekkert nema kosti hvernig
sem fer.“
Annars eru „eins og alltaf“ ágætar horfur í at-
vinnumálum í Grímsey. „Það er mjög jákvætt að
ferjan kemur með ferðamenn,“ segir Unnur, sem
rekur veitingastaðinn Kríuna, þar sem sérrétturinn
er svartfugl og nýveiddur fiskur. „Þar er nóg að
gera yfir sumartímann og svo erum við líka með
gistiheimilið Bása við heimskautsbaug!“
„Það sem mér finnst alvarlegast eru atvinnumálin,“
segir Hjalti Egilsson, bóndi á Seljavöllum í Austur-
Skaftafellssýslu. „Það er hræðilegt til þess að hugsa
hversu margir eru að missa vinnuna og um öll fyr-
irtækin sem eiga í erfiðleikum. Það þarf fyrst og
fremst að ná tökum á þessum málum. Við þurfum
að styðja við atvinnulífið, þannig að hjólin fari að
snúast og við förum að framleiða vörur og kaupa
vörur.“
– Hvað um bændur?
„Auðvitað hefur þyngt verulega að hjá þeim eins
og öðrum vegna utanaðkomandi hækkana. En ég
held að jákvæði punkturinn sé sá að nú sjá menn
virkilega hversu mikil þörf er á því að vera með mat-
vælaframleiðslu í landinu sjálfu. Ef menn ætla að
halda í það að vera sjálfstæð þjóð, þá hljóta menn
að vilja geta framleitt ofan í sig mat. En það sem
gerir okkur erfitt bændum eru þessir háu vextir og
hrikalegu lánakjör sem menn hafa lent í. Að öðru
leyti held ég að við værum ágætlega settir.“
– Hver er þá afstaða þín til ESB?
„Ég tel að það væri hreinlega verið að leggja nið-
ur sjálfstæði landsins ef við færum inn í ESB. Það
yrði mjög alvarlegt mál fyrir þetta land, Ísland, ef við
gengjum inn í þann gjörning allan. Það yrði nátt-
úrlega enginn landbúnaður á Íslandi, hann myndi
leggjast af. Það er nógu erfitt fyrir hin norrænu rík-
in, hvað þá okkur. Þá yrðum við eins og ein gata í
Evrópu. Ég held að þetta sé spurning um sjálfstæði
þjóðarinnar fyrst og fremst og okkar eigin ákvörð-
unartöku í okkar eigin lífi.“
Værum að leggja
niður sjálfstæði
landsins
„Alþingiskosningar eiga bara
að snúast um réttlæti í garð
almennings eftir allt sem á
undan er gengið, að það sé
tekið almennilega á málum og
réttum einstaklingum, en al-
menningur ekki látinn borga
brúsann,“ segir Margrét Guð-
jónsdóttir, þjóðfræðingur á
Hvassafelli.
„Það er manni efst í huga,
hversu sárt er að horfa á al-
menning missa vinnuna út af gjörðum örfárra
manna. Og maður vill fyrst og fremst að tekið sé á
þeim málum. Annars er ég hrædd um að það
myndist gjá í samfélaginu til framtíðar sem erfitt
verður að brúa.“
Margrét
Guðjónsdóttir
Kosningarnar
snúast um réttlæti
„Þarna hittirðu nú á réttu
manneskjuna,“ segir Ólína
Jónsdóttir hressilega, en hún
rekur heimagistingu í Lækn-
ishúsinu í Flatey í Breiðafirði.
„Ég ætla nú heldur að leyfa þér
að tala við bónda minn. Ég er
voðalega lítil kosningamann-
eskja og er nú eiginlega búin
að fá upp í kok í bili. Ég tala við
þig þegar þú kemur hingað.“
Og með það sama kemur
Hafsteinn Guðmundsson í símann. „Kosningarnar
ættu náttúrlega að snúast svolítið um heiðarleika og
örlítið um að það væri hægt að trúa einhverju eðli-
legu af því sem haldið er fram. Svo finnst mér að
pólitíkin eigi ekki að vera trúmál, eins og mér finnst
hún vera í stórum dráttum.“
– Er eitthvað sérstakt sem brennur á þér?
„Við höfum búið hér í Flatey í Breiðafirði í þúsund
ár. Og alla tíð þar til núverandi fiskveiðistefnu var
komið á fót hafa menn haft sínar tekjur að stærst-
um hluta af fiskveiðum. Með þessari ráðstöfun sem
þarna var gerð var þessu kippt alveg af. Þar þyrfti
verulega að lagfæra. Mér finnst líka, að ef að pólitík-
usar eru með það á dagskrá, að leggja þessar
dreifðu byggðir í eyði, þá eigi þeir að gera það á
heiðarlegan hátt, en ekki að kvelja íbúana í burtu.
Það er það sem mér finnst hafa verið gert.“
– Fleira?
„Er þetta ekki sæmilegt til að byrja með. Ég held
að það verði margir óánægðir með þetta hvort sem
er – eða ég vona það!“
Pólitík á ekki að
vera trúmál
Flatey
Hafsteinn
Guðmundsson
„Ætli það séu ekki Evrópu-
málin og skattamálin,“ segir
Þorbjörn Víglundsson í Vest-
mannaeyjum, sem er í námi í
Stýrimannaskólanum og titlar
sig skipherra í símaskránni.
„Það er nú bara í gamni,“ seg-
ir hann og hlær. „Þetta kom til
af því, að við brugðum nokkrir
á leik sem erum að læra til
stýrimanns og skráðum okkur
skipherra í símaskránni. Það
verður vonandi sagt einhvern tímann.“
Þorbjörn er alfarið á móti aðild Íslands að ESB.
„Ég held að hagsmunum okkar sé betur borgið ut-
an ESB. Fyrir utan að ég vinn sem sjómaður og hef
áhyggjur af því að Evrópubáknið éti upp allar afla-
heimildirnar. Að minnsta kosti varð einn af hverj-
um fjórum sjómönnum í Skotlandi atvinnulaus eft-
ir inngönguna í ESB. Það er nokkuð sem ég vil ekki
sjá hér á landi. Ég vil að við höfum fulla stjórn yfir
okkar auðlindum sjálf.“
– Hvað um skattamálin?
„Mér líst bara ekkert á þessar skattahækkanir
og allt þetta tal um hátekjuskatt. Hann bitnar verst
á þeim sem vinna mest. Þannig var þetta áður en
hann var afnuminn. Þá var mikið um að sjómenn
lentu í þessu; sjómenn sem reru út í eitt og voru
að reyna að hækka við sig launin. Svo vita allir á
hverja þessi eignaskattur leggst, það er fólkið sem
á skuldlausar eignir – eldri borgarar.“
Og hann er ósáttur við þær breytingar á fisk-
veiðikerfinu sem boðaðar hafa verið. „Mér líst ekk-
ert á þessa fyrningarleið. Ég veit hvernig færi fyrir
þessum fyrirtækjum hérna í Eyjum. Þau hafa látið
óháða aðila reikna það út fyrir sig að þau yrðu
gjaldþrota við þetta á örfáum árum.“
Bitnar verst á þeim sem vinna mest
Vestmannaeyjar
Þorbjörn
Víglundsson