Saga - 1997, Blaðsíða 104
102
SIGFÚS HAUKUR ANDRÉSSON
eftir sem Friðrik VI., hafnaði þessum auðmýkjandi kostum, gerðu
Bretar þriggja daga stórskotaárás á Kaupmannahöfn í byrjun sept-
ember og ollu þar miklu tjóni. Neyddust þá ráðamenn þar til að
biðja um vopnahlé og láta svo herskipaflotann algerlega af hendi
við Breta til þess að þeir hefðu sig á burt.
Afleiðingar þessara hrottafengnu aðfara Breta urðu þær að Frið-
rik þóttist ekki eiga annars úrkosti en halla sér að Napóleoni. Var
bandalagssamningur við Frakka undirritaður í lok október og end-
anleg yfirlýsing um stríð milli Dana og Breta gefin út 4. nóvember
1807, eftir að meira og minna stríðsástand hafði verið milli þessara
þjóða um tveggja mánaða skeið.
Friðrik VI. varð síðan einn dyggasti bandamaður Napóleons í
stríðssviptingum næstu sjö ára, sem lauk með missi Noregs til Svía
í friðarsamningum í Kiel um miðjan janúar 1814.17
Með styrjaldarþátttöku Dana árið 1807 varð skjótur endir á þeirri
gullöld sem verið hafði í verslun og siglingum danskra þegna í
hálfan annan áratug. Skip undir dönskum fána hurfu nú unnvörp-
um af heimshöfunum og siglingar milli einstakra hluta ríkisins
urðu meira og minna í molum eða stöðvuðust alveg. Bretar náðu
tangarhaldi á um fjórðungi kaupskipaflota Danaveldis þegar í
upphafi stríðsins.18 Þar á meðal var drjúgur hluti skipakosts kaup-
manna á íslandi. Engar fregnir höfðu borist þangað um átökin við
Breta, en eins og venjulega lögðu skipin af stað frá landinu síð-
sumars eða haustið 1807. Sigldu þau unnvörpum beint í flasið a
breskum herskipum og víkingaskipum, sem tóku nálægt helming
þess flota er siglt hafði til íslands þetta ár (sem hafði verið alls 41
skip) og færðu til breskra hafna. Önnur sluppu til danskra eða
norskra hafna, eitt komst til Miðjarðarhafslanda með fisk og eitt
tóku Frakkar.19
Eitt þeirra skipa, sem Bretar hertóku og færðu til Leith í Skot-
landi var briggskipið De tvende Sostre, á vegum kaupmannanna
Bjarna Sívertsens og Westys Petræusar, og voru þeir báðir með i
för.20 Meðal farþega var Magnús Stephensen, og þar sem ekki var
17 Feldbæk, Ole, Danmarks historie IV, bls. 293-96,302-308.
18 Sama rit, bls. 296,299-300.
19 Anna Agnarsdóttir, „Great Britain and Iceland 1800-1820", bls. 47-49, 288-
92.
20 Sigfús Haukur Andrésson, Verzlunarsaga, bls. 477-79, 489-90 (um Bjarna
Sívertsen og Westy Petræus).