Saga - 1997, Blaðsíða 110
108
SIGFÚS HAUKUR ANDRÉSSON
honum tókst að fá kammerið til að samþykkja að skipið væri keypt
í nafni Grænlands- og Færeyjaverslunar.42 Annað mál var það að
með því að kaupa líka verslun Knudsens í Reykjavík gekk Trampe
í berhögg við strengilegt bann stjórnarinnar frá árunum 1791 og
1792 við því, að embættismenn á íslandi rækju þar verslun í eigin
nafni eða annarra.43
Trampe hafði þannig sjálfur hagsmuna að gæta er hann tók þegar
eftir heimkomu sína að halda fram, til viðbótar ákvæðum fríhöndl-
unarlaganna, fyrrgreindum konunglegum bönnum við hvers kon-
ar samneyti við Breta og banna þar með íslendingum öll viðskipti
við verslun Savignacs og honum sjálfum verslunarrekstur í land-
inu.44 Stiftamtmaður hafði hins vegar ekki fremur en Isleifur Einars-
son neitt bolmagn til að halda þessum bönnum til streitu gegn
Bretum, eins og kom á daginn er breska herskipið Rover kom í
eftirlitsferð til landsins. Að fengnum kvörtunum Savignacs og eftir
talsvert þjark við Trampe neyddi skipherrann, Francis John Nott,
hann þann 16. júní til að gera samning, sem gilda skyldi þar til ár
væri liðið frá því að tilkynning um friðarsamninga milli Dana og
Breta bærist til íslands. Þar var m.a. kveðið svo á að breskir þegnar
skyldu á þessum tíma hafa sama rétt og danskir til að sigla þangað
á kaupförum sem hefðu bresk leyfisbréf og stunda þar verslun, en
yrðu að virða lög landsins meðan þeir dveldust þar. Eftir þetta lét
Nott úr höfn en hélt sig við landið um tíma áður en hann sneri
aftur til Bretlands.45
Trampe fór sér í engu óðslega við að auglýsa samninginn við
Nott opinberlega, þótt embættismönnum og kaupmönnum í Reykja-
vík og nágrenni og þar á meðal Savignac væri gert kunnugt um
hann. I staðinn lét hann strengileg bönn sín við verslun og öðru
samneyti við Breta, að viðlögðu lífláti, standa óhreyfð á opinberum
stöðum. Þorðu landsmenn því ekki fremur en áður að skipta við
Savignac, en nú var aðalkauptíðin einmitt byrjuð.46
42 ÞÍ. Rtk. I.J. 20, nr. 526. Skjöl um skipið Orion og þrjú önnur íslandsför sem
stjómin styrkti með fjárframlögum 1808-1809. - Helgi P. Briem, Sjálfstæði ís-
lands 1809, bls. 35-37,121-23.
43 Sigfús Haukur Andrésson, Verzlunarsaga, bls. 391-97,644-52.
44 Lovsamling for Island VII, bls. 248-50. - Helgi P. Briem, Sjálfstæði íslands 1809,
bls. 112-19.
45 Lovsamling for lsland VII, bls. 250-52. - Anna Agnarsdóttir, „Great Britain and
Iceland", bls. 100-110. - Helgi P. Briem, Sjdlfstæði íslands 1809, bls. 126-36.
46 Helgi P. Briem, Sjdlfstæði íslands 1809, bls. 139-46.