Ný saga - 01.01.2001, Blaðsíða 40
Átakaárið 1968
Mynd 6.
Sjóliðar reyna að
þurrka slagorðin af
skipshliðinni.
En það var þá: Þegar Solla las ljóðið, þeg-
ar Grikkirnir komu, þegar Natófundurinn
var, sumarið 68, þegar landinn bauð Dean
Rusk og Pipenelis að spígspora á aumingja-
skap sínum, einsog Jóhannes úr Kötlum orð-
aði það. Þegar ég hitti Sigurð A - áður en
hann var handtekinn af löggunni í desember,
seinna, núna, í fyrradag, fyrir utan Tjarnar-
búð. Þegar ég hitti Ragnar Stefáns fyrst, fyrir
utan Hótel Borg að selja ballmiða og hafði
ekki glóruhugmynd að vináttan yrði þétt &
ævarandi & hann svaramaðurinn minn og ég
hans; en það var árum seinna, hvernig gat mig
órað fyrir því, þá, þarna, þegar eina sem ég
vissi - um mig - var að ég ætlaði aldrei, aldrei,
aldrei að binda mig, annarri manneskju.
Sumarið 68 og ég varla komin í bæinn, á
puttanum úr Mosfellsbæ til að komast í
Keflavíkurgöngu. Fékk að gista hjá Systu
Odds á Reykjalundi. Eins gott að veðrið var
gott, ég í stuttu pilsi og tréklossum, nestislaus.
Þekkti varla kjaft nema Lobba og Rabba. Það
var áður. Það var á undan Auslurstræti. Eftir
að við vorum í MA, en áður, löngu áður en
Lobbi varð hagfræðingur Háskólans og
Rabbi tæknifræðingur.
Austurstrætið - Þorláksmessan - löggan.
Hvað verður? Þeir losa kylfurnar, festa hjálm-
ana, þéttir saman, óhugnanlegt, alveg einsog
löggan í Frankfurt á 1. maí. En það var árið
eftir, ég gat ekki vitað það þarna, þá. í Frank-
furt hafði Iöggan byssur - og andlitshlífar. í
Austurstræti sem betur fer, ekki byssur. Ég er
orðin hrædd, við nálgumst, kylfunum er lyft.
Allt í einu fatta ég að þeir eru líka hræddir,
skílhræddir. Kannski við að berja. Kannski
við að lenda í einhverju sem ekki verður aft-
ur tekið. Ég sé það í augunum.
Hvernig stendur á þessu! Styðja þeir
napalmsprengjur Kanans? Styðja þeir ríkis-
stjórnina? Finnst þeim þetta rétt? Á þessari
stundu vissi ég það eitt að ég myndi aldrei,
aldrei vinna fyrir kaupinu mínu á þennan
hátt.
Mér er illt í höfðinu. Ég er með hausverk
síðan ég var lamin í fyrrakvöld. Frakkinn
hans Dags dugir ekki lengur. Útundan mér sé
ég kylfuna koma, aflur í höfuðið, hökuna
núna. Ég gefst upp, reyni að komast burt.
Dagur, hjálpaðu mér! Hann skilur. Ég þoli
ekki að gefast upp!
Það var 21. desember sem allt gerðist; dag-
urinn sem ég var slegin útúr hinu meðvitaða,
borgarlega, íslenska samfélagi - slegin út í
orðsins fyllstu merkingu. Og þá voru einung-
is tvær leiðir færar: standa með mér eða þeim
- ég valdi mig.
38