Birtingur - 01.01.1957, Side 89
Um réttmæti heimspekilegrar tilgátu hefur
aldrei náðst samkomulag meðal heimspekinga
og stafar það fyrst og fremst af því, að
ekki er til sameiginleg heimspekileg aðferð,
sem allir heimspekingar viðurkenna. Er
því ekki undarlegt, þótt heimspekikerfin séu
sundurleit, enda telur einn það ágæta
heimspeki, sem annar dæmir hæpnar
staðhæfingar eða jafnvel merkingarleysu.
(Hef ég hér einkum í huga ágreininginn
meðal heimspekinga um heimspeki Hegels).
Hafa því í heimspeki komið fram ýmsar
stefnur, og ákvarðast mismunur þeirra
aðallega af því, að fylgjendur hverrar stefnu
beita mismunandi aðferð við rannsóknir
sínar og byggingu kerfa sinna og líka af því
að þeir ganga út frá ólíkum
grundvallarsjónarmiðum á eðli málsins
(þessu nauðsynlega tæki hugsunarinnar) og
eðli veruleikans. Upp af þessum
grundvallarágreiningi um eðli málsins er
sprottin hin krítiska (gagnrýnandi)
heimspeki síðustu áratuga, sem leggur
megináherzlu á nákvæma
merkingargreiningu. Hafa sumir jafnvel
gengið svo langt að halda því fram, að
merkingargreining sé hið eina, sem
heimspekingum sé heimilt að fást við, því
vilji þeir segja eitthvað um heiminn, sem
vísindin geta ekki sagt, verði það orðin tóm,
setningar, sem að vísu hanga saman í
kerfi frá formrökfræðilegu sjónarmiði, en
vanti allan staðreyndagrundvöll. — Þetta er
mjög athyglisverð kenning, og er meiri
sannleikur í henni fólginn en leikmann í
listinni kann að gruna, og tel ég því meiri.
nauðsyn að leggja áherzlu á þetta
sjónarmið, sem mér er vel ljóst, að fólk,
sem er lítt þjálfað í sértækri eða abstrakt
hugsun, hefur sterka tilhneigingu til að álíta
djúpa speki hvers kyns háfleygan orðaflaum.
Það eins og sefjast af hinum fögru
orðum, sem það er orðið vant, og dettur ekki
í hug að taka gagnrýnandi afstöðu og
spyrja hinnar einf öldu spurningar: Hvað
áttu við?
Nú mætti ætla, að ég væri hér fyrirfram að
gefa í skyn, að skoðanir eða kenningar dr-
Helga Péturs séu merkingarlitlar eða
jafnvel merkingarlausar. En því fer víðs
f jarri og væri misskilningur að halda það.
Ég hef aðeins bent á nokkur atriði, almenns
eðlis, sem ég tel nauðsynlegt að hafa í
huga sérstaklega við lestur heimspekirita.
Þessar athugasemdir leggja engan fordóm á
ritsmíðir dr. Helga, enda væri slíkt mjög
óheimspekilegt, en þær gætu kannski orðið
einhverjum til leiðbeiningar, sem hefur
fullan hug á að skilja, hvað höfundur Nýals
er að segja, í stað þess að trúa því sem
hann segir án nákvæmrar rannsóknar.
Mun ég nú leitast við að gera nokkra grein
fyrir því, sem ég tel vera
grundvallarkenningar eða skoðanir dr.
Helga eins og þær eru settar fram í Nýal
(sem kom út í þrem heftum árin 1919, 1920
og 1922. Ég fæ ekki séð, að hinir seinni
Nýalar: Ennýall, Framnýall, Viðnýall,
Sannýall og Þónýall auki nokkru, sem máli
skiptir, við þær undirstöðuskoðanir, þann
grundvöll, sem lagður er í Nýal).
Heimsfræði og heimspeki dr. Helga er fyrst
og fremst að finna í fyrsta hefti Nýals,
sem hann kallar „Hið mikla samband“.
Æskilegt væri, að höfundur hefði þegar í
þessari ritgerð gert nánari grein fyrir þeim
lögmálum, sem hið mikla samband byggist á,
greint rækilegar frá þeim rannsóknum,
sem leiddu til uppgötvunar þessara lögmála,
fært öll þau rök fyrir þeim, sem hann
75