Birtingur - 01.01.1957, Side 109
þverstæður lífsgátunnar reka endahnút á
hvern ljóðþráðinn eftir annan. Þótt sú
endurtekning geti orðið tilbreytingarlaus, er
hún ekki til einskis, ávöxturinn er
„1 draumi sérhvers manns“, fullkomin
tjáning yrkisefnisins.
Táknmál Tímans og vatnsins er hreint og
sterkt og kliður kvæðanna heillandi, en
verkið hefur ekki fengið nógu skýra
heildarmynd, það er hin ófullgerða sinfónía
Steins.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi: Ljóð frá
liðnu sumri. Helgafell.
Svo ergist hver sem hann eldist, skáldin því
miður líka. Sá sem þetta ritar hefur aldrei
haft tilhneigingu til að hefja Davíð til
skýjanna, en mér hnykkti við að lesa þessa
síðustu bók hans. Hinu góða, gamla skáldi
dulúðugrar angurværðar, blossandi
ástríðna, svellandi lífsnautnar bregður
varla fyrir. I stað þess er kominn geðstirður
nöldurseggur, sem finnst öllu vera að
fara aftur, ástundar guðrækni meira af
vilja en mætti og kastar höndunum til
ljóðagerðarinnar.
Mærðin hefur oft orðið Davíð hættuleg,
og nú flóir skrúðmælgin yfir alla bakka.
Bygging hvers kvæðisins af öðru fer í
handaskolum, þau líkjast mörg glefsum úr
rímuðu eintali án upphafs og endis.
Ljóðmyndirnar rekast hver á annarrar
horn.
Hendingar, jafnvel heil erindi, eru
innantómt orðagjálfur, þar sem hvorki
finnst heil brú í hugsun né myndum:
Dæm þú ekki, drottins kirkja, i
drápur þær, sem fjöllin yrkja.
eða
Yfir fljót
getur einhuga þjóð
reist öfluga brú.
En enginn skyldi
í auðmýkt trúa
annarra trú.
Hvaða samband er milli brúarsmíða
einhuga þjóðar og trúnaðartrausts á
annarra trú?
Úr hástemmdu orðskrúði detta kvæðin
fyrirvaralaust niður á flatneskju
einfaldasta hversdagsleika:
Ef fræið dafnar og festir rætur,
þá fyrst munu auðnirnar gróa.
Þetta er nú speki, sem segir sex. Ekki er
heldur lítils virði að vita að
Hollum híbýlum
berst hreint loft.
Skáldið er sí og æ að ákalla guð sinn, en
ekki geta trúarljóð þess talizt innileg.
Það er ekki laust við sjálfbyrgingsskap 1
þessari hendingu:
.... vitur maður treystir á drottins náð.
Guð Davíðs virðist eiga í sífelldum
útistöðum við skæða fjendur, og skáldið
telur enga vanþörf á að veita honum lið: