Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Page 27
Sagnliðurinn í íslensku
25
leyti eins og hjálparsagnir í þessu sambandi, svo að þessi atriði ættu ekki
að koma í veg fyrir að gert sé ráð fyrir lyftingu með hjálparsögnum.
5. Lokaorð
5.1 Óleyst vandamál
Það verður þó að viðurkenna, að sú greining sem hér hefur verið
stungið upp á leysir ekki öll vandamál. Samkvæmt henni mætti t. d.
búast við að bæði (48)b og (49)b væru vondar, þar eð í báðum tilvikum
virðist vera um að ræða færslu inn í aukasetningu:
(48) a Fáir hafa keypt þessa bók
b *Það hafa keypt fáir þessa bók
(49) a Margir furðufuglar hafa komið hingað í dag
b Það hafa komið margir furðufuglar hingað í dag
En nú er greinilegt að þótt (48)b sé vond eins og vera ber, þá er (49)b
í lagi. Hvernig á að skýra það?
Ég sting upp á því að við tengjum þetta þeim mun sem oft er gerður
í generatífri málfræði á ummyndunum (sem flokkast þá undir Move a,
sbr. Chomsky 1981) og stílfærslum (sem fara fram í „phonological com-
ponent“ málfræðinnar, sjá Chomsky 1981). Hér er gert ráð fyrir að
allar reglur sem stinga orðum inn í pláss í formgerð setningarinnar séu
af fyrri tegundinni, en reglur sem stinga orðum þar sem engin sérstök
pláss eru fyrir þau séu af síðarnefndu tegundinni. Af þessu leiðir að
reglan sem gerir frumlag aðalsagnar að frumlagi hjálparsagnar er af
fyrrnefndu tegundinni, en t. d. frestun óákveðins frumlags er af þeirri
síðarnefndu. Ég ætla líka að stinga upp á því, að þar sem síðarnefndu
reglurnar eru stílfræðilegar, þá sé möguleiki á ýmiss konar endurtúlkun
í sambandi við þær. T. d. séu atviksliðir, sem upprunnir eru í neðri setn-
ingunni, túlkaðir sem svo að þeir tilheyri þeirri efri. Þetta leiðir til þess,
að hægt er að stinga frestuðu frumlagi inn á undan slíkum liðum. And-
lög eru hins vegar augljóslega tengd einni ákveðinni sögn, og þess vegna
er ekki hægt að endurtúlka stöðu þeirra á sama hátt. Þetta leiðir til þess,
að ekki er hægt að stinga frestuðu frumlagi inn á milli sagnar í fallhætti
og andlags hennar. Sú endurtúlkun sem ég geri ráð fyrir í (49)b er sýnd
í (50):