Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Page 49
Athugun á framburði nokkurra Örœfinga 47
Sex hljóðhafar höfðu raddaðan framburð í báðum orðunum vex
og hvefsin. Röddun varamæltu og uppgómmæltu önghljóðanna á
undan s er mismikil og virðist mér hún haldast í hendur við lengd
undanfarandi sérhljóðs. Hjá þeim sem hafa önghljóðið því sem næst
alraddað, virðist mér sérhljóðið hafa fulla lengd og viðtak hljóðanna
lausara en í óraddaða framburðinum.15
Þar sem ég spurðist fyrir um þennan framburð, var oftast viðkvæðið,
að hann tíðkaðist á ákveðnum bæ í Öræfum og í ákveðinni ætt. Um
þetta skal ekkert fullyrt, en þessum framburði bregður fyrir í máli jafnt
gamalla sem ungra, og minnast má þess að það var gamall maður sem
sagði „vagsið“ við Björn Guðfinnsson.
Loks má geta þess, að tekin var hljóðrófsritun í Háskóla íslands af
orðunum „þar sem hvönnin vex“ og „af því að hún er svo hvefsin og
orðhvöss“. Kom þar í ljós að umrædd önghljóð eru næstum alrödduð í
framburði sumra hljóðhafanna.
7.2
Ýmsum kann að þykja undarlegt að skiljast svo við þessa greinargerð,
að „flámæli“ sé ekki nefnt á nafn. í könnun BG 1941-43 reyndust 26
af 59 hljóðhöfum vera flámæltir og 7 „slappmæltir“ í Austur-Skafta-
fellssýslu. Var Hofshreppur eina sveitin þar sem ekki bar á flámæli
(Björn Guðfinnsson 1946:108).
Eftir þessum framburði reyndum við Þuríður að hlusta og til vara
hafði ég með mér sértexta Björns Guðfinnssonar. (Sjá Mállýzkur I,
bls. 143-44.) Ekki kom þó til þess að texti þessi væri notaður utan einu
sinni í öræfum. Þótti okkur framburður 10 ára stúlku grunsamlegur.
Vafasamt tel ég þó að kveða upp dóma í þessu efni, þar sem lestri
sumra unglinga er mjög ábótavant og skammt á milli slappmælis og
vondrar lesvenju. (Faðir þessarar ungu stúlku var Öræfingur, móðirin af
Mýrum við Hornafjörð.)
í Suðursveit og Nesjum gætti flámælis helst í tali fólks um sjötugt og
þar yfir og kom örsjaldan fram í lestri. Læt ég svo útrætt um þetta mál.
15 Viðtak hljóða: „laust viðtak" : „loser Anschluss", „fast viðtak" : „fester
Anschluss" (Sveinn Bergsveinsson 1941:112-14. Sjá einnig Björn Guðfinnsson
Máll. 1: 1946:32). — Með nýjum viðhorfum í hljóðfræði hafa þessi hugtök e. t. v.
þokast í skuggann. í staðinn er nú t. d. talað um „sammyndun" og „formenda-
sveigingar" (Magnús Pétursson 1976:55-59). Mér virðist þetta orðfæri þó lýsa dável
ákveðnu fyrirbæri og læt það því flakka.