Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1983, Page 135
Athugun á kenningum Basil Bernsteins
133
málsins en hugtakið mállykill, sem hann skilgreinir enn á sama hátt
og fyrr, vísi til djúpgerðar málsins. Þessar endurbætur fela meðal ann-
ars í sér að hægt er að skýra yfirborðsgerð málsins út frá einni eða
fleiri grundvallarreglum. Ég held að þessar endurbætur Bernsteins
skili ekki árangri sem skyldi. Reyndar virðist mér að öll sú vinna,
sem Bernstein hefur lagt í að endurskoða hugtakið mállykil, eða réttar
sagt að fella það betur að öðrum þáttum kenninga sinna, sé unnin
fyrir gýg. Hún hafi aðeins orðið til þess að flækja kenningar hans og
spilla frjórri umræðu. Ef hugtakið mállykill hjá Bernstein á að hafa
eitthvert gildi í þessu samhengi, verður að finna þær grundvallarreglur
sem skilgreina ítarlegt málfar annars vegar og knappt málfar hins
vegar. Einnig verður að sýna í hverju reglurnar sem lýsa ítarlegu mál-
fari eru frábrugðnar þeim sem stjórna setningaskipan knapps málfars.
Síðan verður að sýna fram á að þær reglur sem lýsa ítarlegu málfari
eigi ekki líka við knappt málfar. M. ö. o., þessir tveir mállyklar þurfa
að útiloka hvor annan.
Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið í anda Bernsteins á rituðu
og töluðu máli byggjast á því að Iýsa mismun einstaklinga eða hópa
með tilliti til tiltekinna málbreyta. Sem dæmi má nefna hlutfallið á
milli aðalsetninga og aukasetninga og einnig hlutfallið á milli nafnorða
og sagnorða. Að mínum dómi er hægt að tala um að mál sé misjafn-
lega ítarlegt (elaborated) út frá ákveðnum málfræðilegum einkennum
eða út frá því hversu merking sú sem málið flytur er háð aðstæðum
hverju sinni. Hins vegar er nær ókleift að draga einhver skynsamleg
mörk milli þess hvað er ítarlegt og hvað er knappt málfar á grundvelli
slíkra upplýsinga. Munurinn á ítarlegu og knöppu málfari í kenningum
Bernsteins á reyndar að vera eðlismunur en allar þær mælingr á mál-
fari í anda Bernsteins sem ég þekki byggja á magnmun.
1.2 Málfar og stéttaskipting
Staðhæfingar Bernsteins um samband stéttarstöðu og málfars eru
meðal þeirra atriða í kenningum hans sem hvað mesta athygli hafa
vakið. Hugmyndir Bernsteins má rekja til rannsókna, sem hann gerði
á 106 breskum drengjum á aldrinum 15-18 ára á árunum 1957 og ’58.
Hann skipti hópnum fyrst í tvennt eftir atvinnustöðu (tekjum og
menntun) foreldra, þannig að 45 drengir voru í millistétt (middle class)
og 61 í verkamannastétt. Einstaklingar í hópunum voru mjög svipaðir